06.05.1978
Efri deild: 104. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4635 í B-deild Alþingistíðinda. (4001)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef margoft bent á að í seinasta ákvæði þessa frv. kemur berlega fram, að því verður ekki beitt við álagningu skatta fyrr en á miðju næsta kjörtímabili. Það er því ljóst að enn er góður tími til stefnu að setja skattalög sem gætu verið ákveðin að vel yfirveguðu ráði. Ég held að það leyni sér ekki, að það frv., sem fyrir liggur, er gallað í ýmsum atriðum. Ég held að ekkert sé því til fyrirstöðu, að afgreiðslu þessa máls verði frestað til næsta hausts og ný ríkisstj., hver svo sem hún verður að kosningum loknum, fái tækifæri til að endurskoða þessi mál og leggja nýtt frv. fyrir næsta þing sem gæti þá samþykkt það á fyrstu mánuðum næsta starfsárs Alþingis þannig að það tæki gildi 1. jan. 1979. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið sem slíkt, en flyt frávísunartillöggu, svo hljóðandi:

„Þar sem frv. til 1. um tekjuskatt og eignarskatt er ófullkomið og í mörgum atriðum stórgallað, en brtt. minni hl. hafa verið felldar, og með það í huga að ekkert kallar á, að frv. sé afgreitt fyrir komandi kosningar, en eðlilegast er, að sú ríkisstj., sem verður við völd að kosningum loknum, endurskoði frv. og leggi nýtt skattafrv. fyrir Alþ. næsta haust, samþykkir Ed. að vísa málinu til ríkisstj.

Við þm. Alþb. sátum hjá við afgreiðslu málsins við 2. umr. og munum gera það enn, ef þessi till. verður felld, en til þess að undirstrika ótvírætt afstöðu okkar til þessa máls, að við erum síður en svo ánægðir með það frv. sem hér er verið að afgreiða, teljum að það þurfi gagngerðrar endurskoðunar við, þá teljum við rétt að flytja þessa till. um að vísa málinu til ríkisstj. þannig að fyrir liggi afstaða okkar.