06.05.1978
Efri deild: 104. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4635 í B-deild Alþingistíðinda. (4002)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það frv. sem hér er til 3. umr.

Ég hef verið sérstaklega spurður að því, hvort í frv. um tekju- og eignarskatt fellst breytingar á skattalegri stöðu vátryggingarfélaga að því er varðar iðgjald og bótasjóð, og þykir mér rétt að taka fram að svo er ekki. Í 5. tölulið 31. gr. frv. eru efnislega sömu ákvæðin og í 6. mgr. 17. gr. núgildandi laga. Vátryggingarfélögum er heimilt að draga frá tekjum sínum það fé sem þau leggja til hliðar til að inna af hendi skyldu sína við vátryggingartaka eða þá vátryggðu. Í þessu felst yfirfærsla þess hluta iðgjalda, sem inn kemur á reikningsárinu og fellur á næsta reikningsár og fært er í iðgjaldasjóð, enn fremur það sem lagt er í bótasjóð vegna óuppgerðra tjóna, bæði tilkynntra og ótilkynntra. Sjóðir þessir eru einu nafni nefndir tryggingasjóðir og er um þá fjallað í 8. gr. reglugerðar um ársreikninga vátryggingarfélaga, nr. 77/1975, sem byggð er á lögum nr. 26/1972, um vátryggingarstarfsemi. Hins vegar er tillag í áhættusjóð, sbr. l9. gr. laga um vátryggingarstarfsemi, ekki frádráttarbært til skatts samkv. frv., en samkv. 19. gr. ber vátryggingarfélögunum að leggja ákveðinn hluta af hagnaði sínum í áhættusjóð. Þar er ekki um að ræða tæknilega tryggingasjóð, heldur bindingu á hluta hagnaðar til að styrkja eigið fé vátryggingarfélaga. — Þetta vildi ég láta hér koma fram.

Varðandi þá till., sem hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, flytur hér um að vísa frv. til ríkisstj. vegna þess að það sé ófullkomið, þá á ég ekki von á því, að flutt verði frv. hvorki um skattalög né annað, sem fullkomin verði talin. Auk þess segir í þeirri till., að frv. sé í mörgum atriðum stórgallað. Ábendingar varðandi þá stóru galla hef ég ekki orðið var við í þeim umr. sem átt hafa sér stað. Ég tel að sá undirbúningur, sem farið hefur fram, sú mikla vinna, sem innt hefur verið af höndum við gerð þess frv. sem hér liggur fyrir, sé með þeim hætti, að fullkomlega sé réttlætanlegt að frv. verð samþykkt. Ég held að ég verði að vekja athygli á því, að sú umr., sem farið hefur fram um þetta frv., sýnir allt annað en fram kemur í þeirri frávísunartillögu sem hv. 5. þm. Norðurl. v. flytur. Auðvitað verða aldrei sett þau skattalög, að einhverjir hópar, einhverjir einstaklingar hafi ekki einhverjar aths. þar að lútandi. En ég er sannfærður um að í því frv., sem hér er væntanlega til síðustu umr., hafi tekist að ná fram þeim höfuðsjónarmiðum, sem hafa komið fram, og það sé til þess að hafa skattbyrðina réttlátari í þjóðfélaginu heldur en hún hefur kannske verið.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi skattalög taki gildi 1. jan. 1979, þannig að athafnir manna frá og með þeim degi taki mið af þeim skattalögum sem gilda frá næstu áramótum, og er því eðlilegt — að mínum dómi skynsamlegt og ég vil segja rétt siðferði gagnvart skattborgurunum — að þeir fái um það vitneskju með nokkrum fyrirvara við hvaða skattalöggjöf þeir muni búa.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri. Í trausti þess, að sú till., sem hér er flutt, verði felld, leyfi ég mér engu að síður að þakka þm. beggja d. og forsetum deildanna fyrirgreiðslu þeirra varðandi þau frv. sem hér hafa verið til umr. og afgreiðslu. Ég tel að með þessu frv., Sem væntanlega verður að lögum, sé stigið rétt spor og þegar fram í sækir og við förum að finna áhrif þessa frv. sem skattalöggjafar, þá muni menn sannfærast um; þeir sem enn hafa efasemdir, að hér hafi verið rétt að staðið.