06.05.1978
Efri deild: 105. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4637 í B-deild Alþingistíðinda. (4007)

Starfslok efri deildar

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Með því að þetta er síðasti þingfundur hv. Ed. að þessu sinni, þar sem nú er ákveðið að þinglausnir fari fram í dag, vil ég nú nota tækifærið til þess að þakka ykkur, hv. þdm., fyrir samveruna á þessu þingi, sem nú er að ljúka, og ánægjulega samvinnu. Ég vil þakka skrifstofustjóra Alþingis, og öðru starfsfólki Alþingis svo og þingfréttariturum færi ég bestu þakkir fyrir ágæta samvinnu. En ekki síst vil ég þakka skrifurum deildarinnar fyrir ágætt starf og varaforsetum fyrir alla þá aðstoð sem þeir hafa veitt mér sem forseta.

Við erum nú ekki einungis að ljúka þessu þingi, heldur er þetta lokaþing þessa kjörtímabils. Fram undan er kosningabaráttan. Ég óska öllum hv. þdm. sæmdar í þeim leik, en auðna mun ráða hverjir okkar eiga hingað afturkvæmt. En vitað er að nokkrir úr hópi hv. þdm. munu ekki verða í kjöri í næstu alþingiskosningum og því ekki sitja hér á næsta kjörtímabili. Þessum hv. þdm. vil ég sérstaklega flytja þakkir, og ég veit að ég mæli þá áreiðanlega fyrir munn okkar allra þdm. Ég vil þakka þessum hv. þdm. fyrir hin góðu kynni og fyrir ánægjulega samvinnu og fyrir þeirra mikilsverðu störf.

Og nú, þegar leiðir skilja, óska ég öllum utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og öllum hv. þdm. heilla og hamingju, hvar sem leiðir liggja.