10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

320. mál, Íslenskir aðalverktakar

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Á þskj. 53 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. utanrrh.:

„1. Hverjir eru eignaraðilar Íslenskra aðalverktaka?

2. Hver varð heildarvelta Íslenskra aðalverktaka s.l. tvö ár, hvort árið um sig?

3. Hver hafa verið aðalverkefni Íslenskra aðalverktaka s.l. tvö ár?

4. Hversu margir eru starfsmenn fyrirtækisins?

5. Hversu háum upphæðum hafa launagreiðslur fyrirtækisins numið síðustu tvö árin?

6. Hver varð hagnaður Íslenskra aðalverktaka árin 1975 og 1976?

7. Hafa Íslenskir aðalverktakar samið s.l. þrjú ár um verk á Keflavikurflugvelli í erlendum gjaldeyri? Sé svo, hvað hefur félagið hagnast á gengisbreytingum?

8. Njóta Íslenskir aðalverktakar hlunninda í sambandi við innflutningsgjöld af vinnuvélum?" Hér er um upplýsingaatriði að ræða, sem skýra sig öll sjálf, og þarf ég því ekki að hafa neina grg. með þessum fsp. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sjái sér fært að veita þessar upplýsingar.