06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4644 í B-deild Alþingistíðinda. (4021)

73. mál, iðnaður á Vesturlandi

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 85 flytja hv. þm. Ingiberg J. Hannesson og Friðjón Þórðarson till. til þál. um að skora á ríkisstj. að gera áætlun um iðnþróun á Vesturlandi til þess að treysta atvinnugrundvöll í kjördæminu. Atvmn. hefur haft þessa till. til meðferðar. Af sérstökum ástæðum uppgötvaði n., að Framkvæmdastofnun ríkisins, hefur með landshlutaáætlanir að gera og m. a. gerð iðnþróunaráætlana, og þar sem þar kváðu vera menn sem eru vaskir til verka sinna er því treyst að slík framkvæmd komist á hið fyrsta varðandi þetta kjördæmi.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur áætlanadeild Framkvæmdastofnunar skilað af sér ýmsum verðmætum áætlunum. Eitt blað lagði út af einni nýlega, þeirri sem var um frægt hérað hér, og hafði verið uppgötvað í áætluninni, að áin rynni eftir dalbotninum alveg neðst. Nú er á leiðinni ný úttekt og áætlun um Dalabyggð, og þar er upplýst að landslagi í Dölum og í Austur-Barðastrandarsýslu skjóti mjög í tvö horn. Í Dölum hátti þannig til, að fjöllin gangi í sjó fram og myndi nes, en þessu sé alveg öfugt farið í Austur-Barðastrandarsýslu, þar sem firðir skerist inn í landið.

Í trausti þess, að Framkvæmdastofnunin sinni þessu verkefni sínu, er atvmn. sammála um að leggja til að vísa till. til ríkisstj., enda þótt ég hafi löngum haft litla trú á þeirri aðferð.