06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4644 í B-deild Alþingistíðinda. (4023)

74. mál, varnir gegn ágangi sjávar við sunnanverðan Faxaflóa

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um till. þá til þál. sem hér er til framhaldsumr. Till. er flutt af þm. Reykn. Fjvn. sendi till. til umsagnar vita- og hafnamálastjóra og barst jákvæð umsögn. Hann mælti með samþykkt hennar, en taldi að vísu að víðar um land þyrfti að gera úttekt á slíkum málum. Fjvn. telur rétt að efna til slíkrar úttektar sem till. þessi gerir ráð fyrir. Fjárframlög ríkisins til varnar ágangi sjávar hafa verið ákveðin á fjárl. hverju sinni og hefur fjvn. sannast sagna ekki haft nægilega haldgóðar upplýsingar um þörfina á hverjum stað allt til þessa. Þess vegna telur n. ástæðu til að þessi þáltill. verði samþykkt, og þó að svo sé, að víðar þurfi að gera slíka úttekt, þá telur n. að rétt sé að taka þetta svæði fyrir fyrst og feta sig áfram með það, hversu mikið verk þetta kann að vera og að hve miklu haldi það gæti komið. Vonandi gæti það orðið upphaf að skipulegri aðgerðum í þessu efni en áður hefur verið við komið.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja um efni till., hún skýrir sig sjálf, en nm. voru allir sammála um að leggja til, að till. verði samþykkt óbreytt.