06.05.1978
Sameinað þing: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4661 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

Þinglausnir

Ragnar Arnalds:

Ég vil fyrir hönd okkar alþm. þakka hæstv. forseta fyrir hlý orð og góðar óskir okkur til handa. Þar sem vitað er að forseti Sþ., Ásgeir Bjarnason, gefur ekki kost á sér til endurkjörs í komandi kosningum og verður því ekki þm. á næsta kjörtímabili, þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að færa honum sérstakar þakkir okkar alþm. Ásgeir Bjarnason hefur setið á Alþingi í tæpa þrjá áratugi og hann hefur gegnt forsetastörfum og forustuhlutverki í hópi þm. undanfarin 4 ár. Ég mæli vafalaust fyrir munn allra alþm., þegar ég segi að hann hafi gegnt störfum sínum með miklum sóma. Embættisstörf hans sem og önnur störf hafa einkennst af traustri forustu og réttsýni ásamt þeirri hlýlegu framkomu sem honum er ásköpuð. Ég þakka Ásgeiri Bjarnasyni ágætt samstarf á liðnum árum og óska honum og fjölskyldu hans allra heilla og velfarnaðar á komandi árum. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka skrifstofustjóra Alþingis og öllu starfsliði fyrir ágæt störf á liðnu kjörtímabili.

Ég bið þm. að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum. — (Þingmenn risu úr sætum.)