10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

321. mál, starfsmannafjöldi banka o.fl.

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. glögg og greinargóð svör sem ég tel alveg fullnægjandi. Ég skil vel að skýrslur hafa ekki legið nákvæmlega fyrir um árið 1976.

Um þessar tölur ætla ég ekki að ræða hér að þessu sinni, utan það að benda á að það virðist vera allgóð döngun í bankarekstri á Íslandi og rekstri innflutningsverslunar, því að það er engin smáræðisfjölgun á mannafla sem starfar í þessum greinum. Mættu menn hafa það í huga á sama tíma sem opinberar skýrslur sýna að fólki fækkar beinlínis frá ári til árs í ýmsum undirstöðuatvinnugreinum landsmanna.