10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

70. mál, nýr rafstrengur til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. um rafstreng til Vestmannaeyja á þskj. 80 og vil beina tveimur spurningum um það efni til hæstv. iðnrh.

Það er víst öllum hv. þm. enn í fersku minni, að mikil viðgerð fór fram á rafstrengnum milli lands og Eyja snemma á þessu ári, en síðan urðu Vestmanneyingar fyrir því áfalli, að strengurinn bilaði tvívegis eftir það. Það eru sem sagt mjög alvarlegar, tvær mjög dýrar bilanir á versta árstíma á strengnum, enda má segja að bilana sé frekast að vænta á þessum tíma, en það er einmitt sá tími þegar rafmagnsnotkunin er mest í sjávarplássi á borð við Vestmannaeyjar með margar og afkastamiklar fiskvinnslustöðvar og fiskmjölsverksmiðjur.

Á s.l. vetri var sem betur fer óvenjugóð tíð, sem gerði það að verkum að unnt var að gera við þessar bilanir og annast viðgerð á strengnum á miklu styttri tíma en gera má ráð fyrir í venjulegu árferði, þar sem strengurinn er þannig að það er erfitt að gera við hann nema í sérlega góðu veðri og kyrrum sjó. Og það getur tekið svo langan tíma að numið getur mörgum vikum og jafnvel mánuðum. Hlýtur hver maður að sjá að í byggðarlagi, sem notar hátt í 6 mw. og hefur ekki varaafl nema kannske eitthvað á 4. mw., verður um geysilega mikla röskun og erfiðleika að ræða og þeir erfiðleikar hafa alvarlegar afleiðingar fyrir rafveitu kaupstaðarins, fyrir fyrirtækin í bænum og allan almenning og raunar þjóðarbúið allt vegna þess hversu mikil framleiðsla fer þar fram á vörum til útflutnings. Það má þess vegna vera öllum ljóst, að það er full ástæða til að spyrja hæstv. ráðh. um framgang þessa nauðsynlega máls og hverja meðferð sú þáltill. hefur fengið sem samþykkt var í lok síðasta þings um þetta efni.

Spurningarnar, sem ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. iðnrh., eru svo hljóðandi:

„1. Hvað hefur verið gert af hálfu iðnrn. í því skyni að lagður verði rafstrengur til Vestmannaeyja í samræmi við þál. á síðasta þingi?

2. Hvað hyggst ráðh. gera nú til að tryggja framgang þessa nauðsynjamáls?“