14.11.1977
Efri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

38. mál, iðnaðarlög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið fagna framkomu þessa frv. og tel að hér sé stórum áfanga náð í langþráðu og margþvældu umræðuefni og deilumálum sem að margra manna dómi hafa risið upp að óþörfu, með þessum lögum mætti verulega úr því bæta. Ég legg þó sérstaklega áherslu á að við meðferð málsins í n. verði athuguð ýmis smærri atriði frv., sem að sjálfsögðu er eins og önnur lagasetning fyrst og fremst hugsað sem útlínur þessara mála, ef verða mætti til glöggvunar við setningu reglugerðar þar að lútandi sem ég álít að verði ákaflega vandasamt mál.

Eins og hæstv. ráðh. benti réttilega á áðan hafa risið næstum því óhugnanlegar deilur út af aðgreiningunni á milli hins gamla hefðbundna handverksiðnaðar og þess verksmiðjuiðnaðar sem farið hefur í vöxt á undanförnum árum með síauknum hraða, svo sem eðlilegt er í þjóðfélagi sem telur vera sér og er nauðsynlegt að verði iðnvætt að sem allra mestu leyti og vélaafl og ný tækni leysi mannshöndina frá verkum sem vélar geta annars annast. Aðgreiningin þarna á milli hefur verið vægast sagt mjög óljós, og ég:el höfuðkost þessa frv. að nánari skilgreining og skilmerkilegri verði á þessu gerð en áður var. Hefur það dregist allt of langan tíma.

Ég stend hér upp eingöngu til að lýsa fögnuði mínum yfir framkomnu frv. og í von um að það nái fram að ganga, en að n. sú, sem málið fær til meðferðar — ég vænti að það verði iðnn. — skerpi á þeim atriðum, sem þarna er e.t.v. í nokkrum atriðum tæpt of mikið á án frekari skýringa, til glöggvunar fyrir rn. síðar meir við setningu reglugerðar sem mun skipta miklu þegar til sjálfrar framkvæmdarinnar kemur. Ég vænti þess því eindregið að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, en beini til n., að hún reyni að skerpa á ýmsu því sem milliþn. hefur sýnilega til samkomulags reynt að fara mildum höndum um, en er þörf á að skýra betur. En ég mun fá aðstöðu til að fjalla um það í þeirri nefnd, sem málið fær til meðferðar, og skal þess vegna ekki orðlengja frekar um málið nú.