17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti: Ég sé nú að því miður er hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, 5. þm. Reykv., gengin úr salnum, en ég vil hefja mál mitt á þeirri stuttu aths. að til þess hljóti að þurfa býsna gljúpan hug, að orð hæstv. fjmrh. grópist í hann. Það þarf a.m.k. skarpan hug til þess að skilja orð þessa sama hæstv. ráðh. þegar hann fjallar um kjaramál opinberra starfsmanna.

Það voru aftur á móti staðhæfingar hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um lögbrot við framkvæmd þessa verkfalls opinberra starfsmanna sem gerðu það að verkum, að ég hlýt nú að óska þess af hæstv. forsrh., að hann segi okkur frá efni kærubréfanna 6 sem hann gat um hér í upphafi frá kjaradeilunefnd, þannig að efni þeirra komist þó a.m.k. á dylgjustig, ekki síst vegna þess að hann gaf það í skyn, að hann hefði tekið stjórn BSRB á hné sér núna kl. 13.15 í dag með þeim ágæta árangri, að hún hefði bara lofað bót og betrun — stjórn BSRB — og lofað því að brjóta aldrei framar lög.

Ég hef óljósan grun og raunar staðfastan grun um það, að efni þessara bréfa kjaradeilunefndar kunni að orka tvímælis í sumum atriðum, og eins það, að stjórn BSRB hafi ekki gert neina lögbrotajátningu fyrir hæstv. forsrh. á fundinum í dag. Mér finnst alveg bráðnauðsynlegt að fá að heyra efni þessara bréfa, sem var þess eðlis að hæstv. forsrh. taldi nauðsynlegt að kveðja saman sérstakan ríkisstjórnarfund til þess að fjalla um bréfin, einnig að hæstv. forsrh. láti ekki við það sitja að segja okkur frá því, að velflestir nm. kjaradeilunefndar, þ. á m. fulltrúar BSRB í n., hafi skrifað undir þessi bréf, og þó umfram allt að gera okkur þann greiða að skilgreina störf kjaradeilunefndar í þessu sambandi nokkru ítarlegar en hann gerði í ræðu sinni fyrr.

Jú, það er rétt, að í lögunum er kveðið á um það, að kjaradeilunefnd segi til um hvaða starfsmenn sinni störfum í verkfalli opinberra starfsmanna, til þess að tryggt væri öryggi, til þess að séð verði fyrir þörfum samfélagsins um öryggi og til þess að tryggja að sinnt verði heilbrigðismálum.

Ég vildi gjarnan að það yrði upplýst með hvaða hætti krafa kjaradeilunefndar um starfrækslu telex-sambands til útlanda, sem að langmestu leyti starfar í þágu einkafyrirtækja, verslunarfyrirtækja, — með hvaða hætti þetta telexsamband, sem kjaradeilunefnd gerir kröfu um að haldið sé uppi, eigi að tryggja öryggi og heilbrigði þegnanna. Einnig vil ég gjarnan fá að vita með hvaða hætti stjórnun lögreglumanna, sem settir eru til starfa við löggæslu í hliði Keflavíkurflugvallar, þ.e.a.s. starfstilhögun þeirra, kemur undir verksvið kjaradeilunefndar. Mér er það fyllilega ljóst, að fjöldi starfsmanna við sjúkrahúsin varðar heilbrigðismál. Mér er það fyllilega ljóst. Ég viðurkenni fyllilega að kjaradeilunefnd hefur þar íhlutunarrétt. Hann vil ég alls ekki vefengja.

En þá komum við að atriði sem varðar þetta, með hvers konar samviskusemi kjaradeilunefnd hefur unnið sín störf, hvað á hana er að treysta, þegar hæstv. ráðh. rísa hér upp hver á fætur öðrum og lýsa yfir því, að úrskurður kjaradeilunefndar um það, hverjir skuli starfa í þessu verkfalli, sé óvefengjanlegur. Af hálfu stjórnar BSRB hefur verið vakin athygli á því, að hér er um að ræða framkvæmd fyrsta verkfalls, og af hálfu stjórnar BSRB hefur verið játað fúslega að það hafi orðið vegna reynsluskorts ýmis mistök. En þau skyldu þó ekki hafa orðið af völdum kjaradeilunefndar líka? Ef úrskurður kjaradeilunefndar um það, hverjir gegna skuli störfum í verkfallinu af heilbrigðisástæðum og öryggisástæðum, er óvefengjanlegur þá skilst mér t.d. að það verði að vekja upp frá dauðum nokkra starfsmenn sem kjaradeilunefnd tilnefndi til starfa í sjúkrahúsunum núna, og það má ómögulega koma sökinni á stjórn BSRB ef þar skyldi eitthvað ganga erfiðlega.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, samtímis því sem við leggjum áherslu á þetta, að framkvæma ber verkfall opinberra starfsmanna samkv. lögunum, þá skulum við gera okkur grein fyrir því, að það er verkfall og að í ljós er komið að kjaradeilunefnd, — ég vil alls ekki bera brigður á heiðarleika einstakra starfsmanna þeirrar n., — að kjaradeilunefnd hefur sýnt mjög svo eindregna tilhneigingu í þá átt að halda fram málstað annars deiluaðilans, á sama hátt og kjaradómur gerði á sínum tíma og eyðilagði sjálfan sig á því, — að kjaradeilunefnd hefur sýnt ákveðna tilhneigingu til þess að halda fram málstað annars aðilans, þ.e.a.s. ríkisstj.

Ég ítreka svo bara í lokin, að mér finnst bráðnauðsynlegt eins og þessar umr. hafa snúist og þó kannske ekki síst eftir að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson las nú upp, gekk nú svo langt að lesa jafnvel símanúmerið sem lögregluþjónarnir áttu að hringja í til þess að leita leiðbeininga um framkvæmd verkfallsins, að hæstv. forsrh. segi okkur frá þessum 6 kæruatriðum kjaradeilunefndar sem urðu þess valdandi, að hann boðaði ríkisstj. til sérstaks fundar eftir hádegi í dag.