17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég hef löngun til þess að minna á tvennt í sambandi við þær umr. sem hér hafa farið fram í dag í tilefni af verkfalli opinberra starfsmanna, og ég skal reyna að gera það í stuttu máli.

Í fyrsta lagi langar mig til að vekja athygli á því, að hér hefur ævinlega verið bæði af hálfu opinberra starfsmanna og eins þeirra hv. alþm. sem að lagasetningunni stóðu, verið vitað að hér var um það að ræða sem kalla má áfanga eða áfangasigur fyrir opinbera starfsmenn, þar sem þeir hlutu með lögunum frá 1976 takmarkaðan verkfallsrétt. Ég held að það þurfi ekki að koma okkur neitt á óvart, þeim sem vorum á þingi 1976, sem við vorum víst flest, og tókum þátt í afgreiðslu þessara laga, að það gerðu sér allir ljóst að verkfallsréttur sá, sem veittur er með þessum lögum, er ekki fyllilega sambærilegur við þann verkfallsrétt sem aðrir launþegar hafa og þá kannske ekki síst þeir sem eru félagar í Alþýðusambandi Íslands, enda minnist ég þess, að þeir, sem best þekkja til verkfallsmála, og á ég þá ekki síst við hv. 7. þm. Reykv. sem jafnan talar hér af yfirvegaðri skynsemi, — hann lét í ljós nokkurn ugg í þeim umr. um að þessi lagasetning kynni að verða fyrirmynd annarrar lagasetningar sem drægi úr réttindum annarra launþega. Þess vegna held ég að við verðum að muna það, að hér er um áfangasigur BSRB að ræða og kannske þess vegna fyrst og fremst og áreiðanlega þess vegna ekki hægt að jafna þessum tveimur atriðum fyllilega saman. Þetta segi ég vegna þess verkfallsréttar sem talað er um að þurfi til að koma á tímabilinu. Miðað við þær forsendur sem lögin fylgdu og þau eru byggð á, sem hér hafa verið lesnar, svo og miðað við orðalag þeirra lagagreina, sem hér er um að tefla, þá er ríkisstj. ekki gefin heimild til þess frá Alþ. að semja um verkfallsrétt á tímabilinu oftar en á tveggja ára fresti. Ef slík heimild á til að koma þarf hún að koma til ríkisstj: frá Alþ. á nýjan leik, sem þýðir það að þetta mál verður þá rætt hér að nýju í ljósi þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir, en ekki lágu fyrir áður.

Ég get út af fyrir sig ákaflega vel skilið það, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kveiki í hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni. En ég er bara hræddur um að það kvikni miklu betur í honum og fleirum ef farið verður að ræða málið hér frá rótum á ný um verkfallsrétt opinberra starfsmanna.

Hitt atriðið, sem mig langar til að benda á, er það, að hér er, eins og margsinnis hefur verið bent á, um frumraun að ræða í verkfallsmálum opinberra starfsmanna. Og ég hygg að við þurfum ekki að undrast það, þó nokkur ágreiningsatriði hafi komið fram í framkvæmd slíks verkfalls sem er, eins og ég áðan sagði, alger frumraun hér, og satt að segja kalla ég það hreint ekki mjög illa sloppið að það skuli þó ekki vera nema sex atriði sem komið hafa fram í þessari viku, sem verkfallið hefur staðið, sem deilan stendur um, enda hygg ég það hljóti að vera keppikefli forustumanna BSRB að þetta verkfall fari vel úr hendi. Það hlýtur að vera sameiginlegur áhugi okkar, sem stóðum að lagasetningunni, og þeirra, sem framkvæma hana af hálfu opinberra starfsmanna, að hún fari þannig úr hendi að það megi halda því fram og við getum haldið því fram að við höfum gert rétt þegar þessi réttindi voru látin í té. Ég hef trú á því ef framhald verður á þessu verkfalli, sem ég raunar vona að ekki verði, að framkvæmd þess muni ganga eðlilegar en gert hefur til þessa, því fyrstu byrjunarörðugleikarnir munu vera yfirstignir og menn hafa áttað sig á því hver réttur þeirra er og hvert vald þeirra er. Það er vandasamt að fara með vald, og það er kannske ekkert óeðlilegt þó að það taki einhvern tíma að læra það. En þeim, sem ganga að því með hugarfari eins og ég hygg að gæti nú hjá flestum opinberra starfsmanna, að þeim beri að sýna með framgöngu sinni í þessu verkfalli að þeim sé trúandi fyrir þessu valdi, mun takast að beita því þannig að ekki komi til neinna lögbrota a.m.k. og helst sem allra fæstra árekstra.

Ég tel þess vegna að Alþ. ætti ekki að eyða miklu meiri tíma en orðið er í að karpa hér um einstök atriði þeirrar samningagerðar sem fyrir dyrum stendur og hefst kl. 6, ef ég man rétt eða hef tekið rétt eftir, heldur ættum við á þessu stigi að láta sitja við þær góðu óskir, sem komið hafa fram frá öllum þeim sem hér hafa talað, til þeirra manna sem í samningaviðræðunum eiga að taka þátt, frá hvorum aðilanum sem er, að þeim megi takast að finna þá lausn á þessu vandamáli sem sé öllum viðunandi og þjóðfélaginu fyrir bestu.