15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

32. mál, rafmagn á sveitabýli

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 5. sept. s.l. ákváðu Rafmagnsveitur ríkisins að stöðva lagningu heimtauga í sveitum vegna fjárskorts, en þá höfðu 56 heimtaugar verið afgreiddar á þessu ári. Þegar iðnrn. bárust spurnir af þessu voru þegar gerðar ráðstafanir til að útvega það fjármagn sem Rafmagnsveiturnar töldu að á skorti, en það voru um 60 millj. kr. Það tókst nokkru síðar og var þá af hálfu Rafmagnsveitnanna afturkölluð þessi stöðvun. Síðan hefur verið haldið áfram að tengja íbúðarhús í sveitum, og 15. nóv. s.l. hafði talan nærri tvöfaldast frá þeirri, sem ég greindi áður, þ.e.a.s. búið var þá að tengja 102 í stað 56. Rafmagnsveiturnar telja, að óafgreiddar heimtaugaumsóknir séu nú 63, og gert er ráð fyrir að fjárþörf vegna þeirra verði nm 34 millj. Verður leitast við að afgreiða þessar heimtaugaumsóknir sem fyrst.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, hv. 5. þm. Vesturl., að það hefur valdið miklum erfiðleikum og óþægindum fyrir marga nú og undanfarin ár þegar framkvæmdir við tengingu nýrra íbúðarhúsa í sveitum hafa dregist vegna fjárskorts. Og ég vil leggja sérstaka áherslu á það, að við afgreiðslu fjárl. nú verði gengið tryggilega frá nauðsynlegri fjáröflun í þessu skyni, þannig að ekki þurfi að koma til tafa eða dráttar af þeim sökum á næsta ári.

Varðandi c-lið fsp. hve mörg séu þau sveitabýli sem enn hafa ekki fengið rafmagn frá samveitum, en þó er ráðgert að fái það síðar, er þess að geta, að áætluninni um rafvæðingu sveitabýla má nú að heita lokið, þ.e.a.s. þeirri áætlun, sem fyrst var kölluð fjögurra ára áætlun, síðar var kölluð þriggja ára áætlun og átti að framkvæma á þeim tíma, en reyndist taka 7 ár. Til viðbótar þeirri áætlun hefur verið til meðferðar hjá orkuráði, rafmagnsveitum og iðnrn. hvernig skyldi haga næstu framkvæmdum og fyrirætlunum í þessu efni, en það er fyrst og fremst spurning um meðalfjarlægð milli býla, hversu mikil hún eigi að vera. Um það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun og verður eitt af því sem þarf að taka afstöðu til við afgreiðslu fjári. fyrir næsta ár.