15.11.1977
Sameinað þing: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

50. mál, framkvæmd laga um Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 53 hef ég beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.:

„1. Hve miklum bolfiskafla hefur verið landað síðan verkfall BSRB hófst 11. okt. s.l., annars vegar úr togurum og hins vegar úr bátum?

2. Hver eða hverjir hafa úrskurðað í hvaða vinnslu aflinn skuli fara samkvæmt gæðum á ferskum fiski?“

Þegar þessi fyrirspurn kom fram hafði verkfall staðið, ef ég man rétt, í 11 eða 12 daga, og þó það sé ekki tímasett þarna nákvæmlega átti ég við það magn sem landað hefur verið á verkfallstímabilinu. Hvers vegna er ég að tala um þetta hér? Það er vegna þess að blaðaskrif urðu um verksvið þessara manna og hér er raunar um allalvarlegt mál að ræða frá mínu sjónarmiði, þar sem við höfum ákveðin lög um Framleiðslueftirlit sjávarafurða og í 2. gr. þeirra laga, 1. mgr., segir: „Framleiðslueftirlit sjávarafurða heyrir undir sjútvrh. Stofnunin skal hafa eftirlit með eða meta allan fisk, krabbadýr og skeldýr, sem veidd eru úr sjó, svo og meðferð, flutning, geymslu og vinnslu þeirra.“

Ég tel að þegar menn, sem eru félagar í BSRB, hófu verkfall, þó í fyrsta sinn væri, hafi þessi lög verið vanvirt, jafnvel brotin. Hins vegar er hér um mjög viðkvæmt og erfitt mál að ræða, og ég held að þessir fiskmatsmenn hafi gert sér grein fyrir því, að þeir stóðu ekki í deilum við sjómenn eða fiskvinnsluna í landinu, og hafi þess vegna verið jákvæðir gagnvart því að leysa þennan vanda. En ég vil vekja athygli á þessu, svo það liggi alveg á hreinu að ef til verkfalls þessara manna kemur aftur, þá tel ég að löndun á fiski haldi ekki áfram nema annað komi í staðinn, undanþága frá svokallaðri verkfallsnefnd eða jafnvel breyting á lögunum, því að lögin segja ákveðið: „skal hafa eftirlit“ og „meta allan fisk“, og orðið „skal“ kom inn eftir miklar umr. í sjútvn. og var ekki sett af neinni tilviljun.

Ég vil því vekja athygli á þessu máli. Þetta er mikilvægt mál og viðkvæmt mál og þarf að liggja ljóst fyrir ef til verkfalls kemur aftur hjá þessum mönnum. Þess vegna hreyfi ég nú þessu máli hér á Alþ. í tæka tíð.