15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

58. mál, íslensk stafsetning

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að flytja langa framsögu með þessari till, nú, svo mjög sem þetta mál hefur verið rætt hér á hinu háa Alþ. og eins víðar á opinberum vettvangi.

till., sem hér er flutt af mér ásamt 10 öðrum hv. þm., er sáttatill. í þessari illvígu og langdrægu þrætu, að vísu ekki langdrægu ef miðað er við sögu þrætunnar sem við þekkjum frá fyrri tímum, sem stóð í tæpa öld af mikilli hörku eða frá útkomu 2, árgangs Fjölnis 1836 og til 1929. En allt að einu, þá er mál að linni. Það er lífsspursmál að mínum dómi að menn nái sáttum í þessu máli og að við höfum ein lög allir.

Ástæðan til þess, að þessi leið var farin, á uppruna sinn í því, að á ráðstefnu um þessi mál, sem hæstv. menntmrh. gekkst fyrir, varpaði formaður stafsetningarnefndarinnar, sem áður starfaði, þeirri hugmynd fram, að sættst yrði með þeim hætti að z yrði rituð í stofni orða. Ég tek það fram, að þessi till. er ekki saman sett af Halldóri Halldórssyni prófessor, enda var því ekki haldið fram hér í umr. um frv, hæstv. menntmrh. sem hann flutti hér um hvernig skyldi í framtíðinni staðið að breytingu á stafsetningarreglum, heldur var til þess vísað, að hann hefði varpað þessari hugmynd fram, að menn sættust og næðu þá báðir aðilar höfuðatriði síns máls fram, þeir, sem vilja ekki hverfa frá upprunanum, héldu stofni orðanna, en hinir, sem halda því fram að það þurfi mjög mikla málfræðikunnáttu til þess að læra að rita z í miðmyndarendingum t.d., að það yrði fallist á þeirra sjónarmið.

Um hvað er í raun og veru tekist á? Menn hefur lengi greint á í þessum efnum, og það er tekist á um það, hvort heldur skuli hallast að réttritun eftir framburði eða uppruna. En ég legg áherzlu á að engum hefur dottið það í hug um langan aldur, ekki svo að ég viti a.m.k. frá upphafi þrætunnar 1836 og til þessa dags, að hægt væri eða skynsamlegt að fara eingöngu eftir annarri leiðinni, að skrifa annað tveggja eftir framburði eða uppruna. Sannleikurinn er sá, þó að ég að þessu leyti hallist að uppruna og vilji við hann styðjast, að þá er mér ljóst að við mundum lenda í algerum myrkviði ef við ætluðum að fara að leita að öllum uppruna, — myrkviði sem við mundum ekki rata um. Það hefur engum dottið í hug nema fyrsta hv. sjálfskipuðum skemmtikrafti í Alþingi að nefna þessa leið sem er nefnd hér á tillöguplaggi frá hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, og leyfi ég mér að gera það ekki frekar að umtalsefni, enda ekki umræðuhæft.

Um þetta hefur verið tekist á, en farið bil beggja og þótt best á því fara, eins og ég vil leyfa mér að vilna til Einars skálds Benediktssonar um, þar sem hann árið 1898, hygg ég, lýsir yfir fylgi sínu við stafsetningu Konráðs Gíslasonar, eftir að Konráð Gíslason sneri frá fyrri villu síns vegar um að rita eftir framburði og með 7, árgangi Fjölnis samdi sjálfur nýjar stafsetningarreglur rétt fyrir 1850, þar sem farið var bil beggja og m.a. z-an tekin upp náttúrlega á nýjan leik. En Einar Benediktsson segir um kenningu Konráðs, eftir að hann breytti aftur til, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Kenning Konráðs Gíslasonar um að láta framburð ráða nema þar sem hann kemur í bága við upprunann er svo skýr og gagnviturleg, hefur svo hárjafnt fyrir augum eflingu og staðfestingu hins lifandi máls um leið og hún heldur föstum tökum á þeim grundvelli sem byggja skal á, fornmálinu, að það sýnist óviti næst af þeim mönnum, sem gengist hafa fyrir samtökunum um að ætla sér að fara að bæta nokkru þar um eða breyta“ — og lýkur hér tilvitnuninni. En samtökin, sem hann nefnir í þessu efni, eru Blaðamannafélag Íslands, sem var þá nýstofnað og hugðist beita sér fyrir samræmingu í þessum efnum, eða eins og þeir orðuðu það; að koma á einingu í íslenzkri stafsetningu.

Þessi till. sem sagt, sem við hér flytjum, er sáttatillaga og þar er brugðið út af þeirri stafsetningu sem sett var árið 1929, með þeim hætti að aðeins skal rita z fyrir upprunalegt tannhljóð í stofni, þar sem tannhljóðið hefur fallið brott í skýrum framburði, þ.e. d, ð eða t, og nefnd um það dæmi, og enn fremur í stofni lýsingarorða og þeirra sagnorða, sem enda á d eða t og tannhljóðið fellur brott í skýrum framburði á undan hástigsviðskeytinu st eða sagnorðsendingunni st, og sömuleiðis tekin dæmi um þetta. Og hér er aðeins um stofninn að tefla. Ég verð að segja það, að ég varð undrandi á því, þótt úttekt sé enn eigi lokið í þeim efnum, þegar ég var af fróðum mönnum upplýstur um það á liðnu sumri að fjöldi orðanna, sem z mundi þá vera skrifuð í stofninum, væri aðeins á annað hundrað, og ég satt að segja á eftir að fá frekari sönnun fyrir þessu. En þá væri engum ofætlandi að læra það utan að. Ekki var verið að fíkjast í það hér á skólaárum mínum, þegar við urðum að læra eins og páfagaukar 32 óreglulegar franskar sagnir, sem var lögð svo rík áhersla á af skólameistara okkar heitnum á Akureyri, að það situr jafnvel í manni enn, þessi ósköp. Og í annan stað getur hver og einn, ef við förum að þessari reglu, flett því upp í sinni orðabók, hvar skrifa á z. Ég legg mikla áherzlu á þetta, þótt mér sé hin mesta eftirsjá í z í miðmyndarendingunni, það verð ég að játa. En þó legg ég enn meira upp úr þessu, ef sættir geta tekist með þessum hætti, að varðveita z-una í stofninum, að glata ekki tannhljóðinu sem þarna stóð og í sumum tilfellum er reyndar borið fram, en fellst á þá meginröksemd, sem ég skal játa að hæfa er í, andstæðinga minna í þessu máli, sem halda því fram með nokkrum rétti að það þurfi allmikla málfræðilega kunnáttu til þess í öllum tilfellum að kunna að rita z í hinu fallinu, þ.e.a.s. í miðmyndarendingunum.

Þá er í þriðja lagi lagt hér til, að ef í stofni orðs er tvöfaldur samhljóði, tt, og eftir fer s, skal rita fullum stöfum tts eins og í kletts, spottskur, styttstur, battst o.s.frv. Þetta er tekið upp ettir hæstv. menntmrh. sjálfum. Þetta lagði hann fram á stafsetningarráðstefnunni, og á þetta vil ég fallast. Og það má vera með ólíkindum, ef þarna á að sveigja af leið. Við skulum taka sem dæmi, að ég hef reynt það nýlega að ungur piltur, sem ferðaðist austur að Seljalandsfossi sagði að vatnið úr fossinum hefði skvettst á þau, börnin. En kennaranum hans er nú fyrirskipað, að barnið megi ekki segja þetta, og megi ekki skrifa þetta þó það segi það jafnvel, það eigi að skrifa skvest. Og fari menn eftir þessu, og það þekkjum við úr framburði, hætta þeir að segja til kletts, heldur segja þeir bara kless þar sem við erum að tala um klett. Og við höfum dæmi fyrir okkur um það, frægan rithöfund, sem skrifaði, að mig minnir, á þá leið, að það voru Æviskrár íslenzkra hesta, minnir mig að það hafi heitið, sem Stefán nokkur safnaði og varð ríkur af, eftir Jón frá Vassdalshólum. Og það er út af fyrir sig í lagi að gagnmenntaðir menn riti svona eins og Vassholt fyrir Vatnsholt. En við getum ekki verið þekktir fyrir að kenna börnum þetta eða leyfa þetta í skólum eða leyfa þetta í opinberum plöggum þar sem samræmd stafsetning er nauðsyn. Þessi þriðji liður þarna er tekinn upp úr þeirri till., sem hæstv. menntmrh. lagði fyrir stafsetningarráðstefnuna, og eins það, að ef ð helzt í framburði á undan st, þá skuli að sjálfsögðu það ritað, og það er 4. liðurinn, eins og hann gleðst og hefur glaðst og þeir hafa mæðst, hún hefur náðst o.s.frv.

Síðan er í 5. lið tekin upp sú regla, að ekki skuli rita z í miðmyndarendingum sagna. Þetta er aðalreglan. En síðan er í sjötta lagi leyfi að z sé rituð í orðum sem eru erlend að uppruna. Ég þarf ekki að hafa mörg fleiri orð hér um.

Síðan er í till. lagt til að höfð verði svipuð aðferð um breytingar á reglum um stafsetningu í framtíðinni eins og hæstv. menntmrh, leggur til í frv. sínu, sem hér hefur verið til umr., aðeins hreytt út af þeirri reglu með þeim hætti, að lagt er til að fleiri eigi aðild að þeirri n., sem fær þetta til umfjöllunar, heldur en gert er ráð fyrir í frv. hans. Við leggjum hér til að þrír hinir sömu verði áfram í hópi nm., en viljum síðan bæta fjórum við og ætti það að tryggja, að jafnan þegar lagt er til að breytt verði um stafsetningu, þá verði það að allra beztu manna yfirsýn. Ég geri ráð fyrir að augu manna nú hafi opnast fyrir því hver nauðsyn er á að skipta ekki um stafsetningu eins og menn skipta um föt. Og eins viljum við fallast á, eins og segir í því frv., að stafsetningarreglunum verði ekki breytt nema ályktun þar um hafi verið áður gerð á hinu háa Alþ. eftir till. sem menntmrh. leggur þar fyrir, eftir að þessi stjórnskipaða n. hefur skilað sínum tillögum. Og eins og ég hef áður sagt, þá er ég reiðubúinn að fallast á frv. menntmrh. þegar og ef við getum náð saman höndum og sættst í málinu og haft ein lög allir, eins og ég sagði.

Það hefur margt verið ritað og rætt um þetta mál. en ég hygg að fátt eitt hafi mér þótt meira virði heldur en það, sem Ásgerður Jónsdóttir kennari hefur nýlega ritað í grein í Morgunblaðinu. Og ég vil, til þess að tefja ekki tímann, aðeins leyfa mér að benda öllum hv. þm. á að kynna sér þá grein í Morgunblaðinu þar sem hún miðlar af reynslu sinni og fer ákaflega sanngjörnum orðum og sáttfúsum um þetta mál. Kemur fram hjá henni raunar, að hún vill fallast á þessa aðferð sem hér er lögð til.

Ég fullyrði að þeir, sem hófu þessa orrustu og bera ábyrgð á þessum ófriði, eða ég vænti þess fastlega, að þeir hugsi sig um tvisvar áður en þeir slá á þessa útréttu sáttahönd. Ef þeir gera það, þá er mér nær að halda að eitthvað allt annað sitji í fyrirrúmi en sjálf tungan rituð. Það er hér gerð tilraun til sátta af einlægum hug til þess að við komumst út úr þeim ógöngum, sem við höfum ratað í í þessu máli. Það er farið bíl beggja eins og alltaf hefur þurft að gera í slíkum efnum. Það er tekið tillit til höfuðsjónarmiða beggja, og ég vil skora á alla hv. þm. að kynna sér þessa till. nákvæmlega áður en þeir taka afstöðu, því að grunur minn er sá, að ýmsir séu orðnir nokkuð daufheyrðir fyrir þessu, svo sem verða vill oft um mál sem lengi er þrætt um.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þegar umr. þessari verður frestað verði till. vísað til hv, allshn.