15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

58. mál, íslensk stafsetning

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn, að þegar rætt er um íslenska stafsetningu hér verður maður margs vísari. Þeir fundir, þegar um þetta hefur verið rætt, eru einhverjir þeir eftirminnilegustu sem maður hefur setið hér.

Mig langar að segja sitt af hverju í tilefni af því sem ég hef heyrt hér í dag.

Ég er ekki ýkja víðlesinn maður, en þegar ég dæmi eftir því sem ég hef lesið af skáldsögum, ekki bara íslenskum, heldur annarra þjóða skáldsögum, skáldsögum annarra höfunda en íslenskra, þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að sá maður, sem hér hefur verið mikið vitnað í nú í síðustu ræðum, muni vera mesti skáldsagnahöfundur á þessari öld. Ég ítreka að ég miða hér aðeins við það sem ég hef lesið sjálfur. Sumt af því er reyndar eftir ýmsa sem stórþjóðirnar telja sína mestu meistara. Svona mikils met ég þennan mann sem rithöfund. Það má vera harmsefni fyrir menn sem unna bókmenntum og vilja þá gjarnan að aðrir njóti þeirra líka, að snilld þessa manns, tök hans á íslensku máli, skilar sér að sjálfsögðu aldrei yfir á önnur mál, þannig að það fólk, sem komst að þeirri niðurstöðu, að hann ætti skilið að fá Nóbelsverðlaun, hefur ekki haft aðstöðu til að meta nema part af þeirri stærð sem þessi maður er bókmenntalega.

Þó að ég segi þetta, þá er ekki þar með sagt að ég hrópi húrra fyrir öllu því, sem frá þessum manni kemur.

Ég verð að segja, að helst til lítið finnst mér leggjast fyrir kappana þegar þeir koma hér í ræðustól með þessa grein eftir Nóbelsskáldið um Alþingi — og þó sérstaklega einn alþm. Ég hafði ekki heyrt hana fyrr né lesið. Við, sem erum dreifbýlisþm., höfum ekki alltaf aðstöðu til að lesa vísdóminn í Vísi, við fáum þetta ekki alltaf upp í hendurnar. (Gripið fram í.) Vissulega mjög vel lesin af þessum hv. þm., en ekki til að benda á firrurnar í þessari grein, ekki til þess að benda á stóryrðin og ósvífnina eða hinar hæpnu fullyrðingar. Það vildi svo til eitt sinn hér um árið, þegar verið var að ræða stafsetninguna, — það vildi svo til að ég kom unglingur hérna niður á þingpalla einu sinni þegar þetta ógnarástand ríkti hér sem Halldór Laxness talar um, að þm. fóru hér „æðandi og æpandi“ um sali út af þessu. Þá ríkti hér hin mesta kyrrð, jafnvel kyrrð eins og hér í dag þegar við erum að ræða þessi mál alveg æsingalaust. Það er hæpin fullyrðing, vægast sagt, hjá Nóbelsskáldinu, að hér ríki eitthvert sjúklegt ástand út af þessu, sjúkleg vanstilling. Ég hef ekki orðið var við það. En sá maður, sem kemur hér upp til þess að lesa þessa grein, gerði enga aths. við þetta né heldur þann hroka sem kemur fram í því, að skáldið spyr: Hvað hefur þm. Sverrir Hermannsson með það að gera að vita um - hvernig var nú setningin? (Gripið fram í: Uppruna orða.) Uppruna orða, já. (Gripið fram í.) Já, hvern fjárann varðar Sverri Hermannsson um slíkt? Og hann er kallaður sjálfskipaður etýmólóg. Fyrr má nú vera hrokinn!

Eitt af því sterkasta og besta í fari okkar Íslendinga, eitt af því þýðingarmesta er að allra stétta menn gefa gaum að ýmsu því sem ekki varðar þeirra daglega starf, ýmsu sem varðar sögu okkar og menningu. Var það ósvifni gagnvart fræðimanni eins og Sigurði Nordal, kannske líka Halldóri Laxness sem fræðimanni í bókmenntum okkar fornum, þegar bóndi austur á Jökuldal, Aðalsteinn á Vaðbrekku, tók sig til og skrifaði út af hinni frægu ritgerð Nordals um Hrafnkels sögu fræðilega ritgerð þar sem hann að mínum dómi hrakti langmest af því sem Nordal setti fram, — óbreyttur bóndi? Hvað varðar óbreyttan bónda um það, hvernig Hrafnkels saga varð til? Mætti ekki alveg eins spyrja svona?

Persónudýrkun er eitt af því voðalegasta sem getur komið yfir fólk. Og af því að ég er búinn að taka af allan vafa um það, hversu mikils ég met skáldið á Gljúfrasteini, þá verð ég að segja það hér, að mér blöskrar sú persónudýrkun sem á sér orðið stað í kringum þennan mann. Ef kemur grein eftir hann í Vísi, þá er eins og óskeikull páfi hafi talað. Menn keppast við að vitna í þetta. Það er eins og páfinn hafi talað „ex cathedra“. Hv. þm. Magnús Kjartansson lýsir því yfir, að hann vorkenni alveg sérstaklega Sverri Hermannssyni fyrir þá ádrepu, sem hann fékk frá páfanum í Vísi um daginn. (MK: Átrúnaðargoði sínu.) Já, nú kem ég að því, Það er engu líkara en Sverrir Hermannsson hafi verið ómælandi á íslenska tungu þangað til hann fór að lesa bækur Halldórs Laxness samkvæmt þessari kenningu sem við heyrðum hér áðan. Ég held þó að Magnús Kjartansson, sem alinn er upp á heimili þar sem talað var gott mái, hafi lært miklu meira í móðurmáli sínu á því heimili heldur en af Halldóri Laxness. Ég held að hann hafi verið farinn að læra að meta og tala góða og fagra íslensku áður en hann fór að lesa bækur Halldórs Laxness.

Þá ætla ég að taka dæmi, af því að það er hægt að beita því persónulega á hv. þm. Magnús Kjartansson sem hér kemur upp og segir að við eigum bara að skrifa eftir framburði. Hann segir hér áðan: Það er ekki langt síðan hver maður hafði sína eigin stafsetningu. Hver maður. Hvernig. Hvar, segir þessi maður af því að hann er ættaður úr Árnessýslu þar sem þessi framburður tíðkast. En ég vil spyrja Magnús Kjartansson: Hvernig ætlar hann að skrifa þetta Hver? Þetta er ekki hver eins og við segjum hinir sem erum að bauka við að hafa h á undan v-inu. Þetta er kokblásturshljóð sem er hvergi til í skyldum tungum. En við finnum það hins vegar hjá nágrönnum okkar. Það eru Írarnir og Skotarnir eða þeirra forna mál, keltneskan. Þar er þetta hljóð. Mér dettur nú í hug að þetta gætu verið leifar af framburði, kannske þær einu, sem mætti rekja til keltneskra forfeðra okkar. Ég vil skjóta því að Magnúsi Kjartanssyni, einkavini Jóns prófessors Helgasonar, hvort ekki gæti verið einhver hæfa í þessu, jafnvel þó að það sé þm. sem segir þetta og jafnvel þó að Nóbelsskáldið segi: Hvað varðar þm. um þetta eða hitt? Það er gaman að velta hlutunum fyrir sér. (Gripið fram í.) Já. Ég veit ekki hvort þetta hljóð finnst í máli Lappa eða Sama. Það getur vel verið. Ég get vel trúað því að margir forfeður okkar hafi eitthvað þekkt til tungu þeirra.

Þeir Mýramenn, svo að ég vitni í Sigurð Nordal. voru merkileg blanda, eins og þið vitið, af norrænum stofni og svo asíatískum stofni. Og hefði þá getað verið að þeir forfeður okkar einhverjir hafi talað mál þar sem þetta hljóð var að finna. Sigurður Nordal heldur því fram, eins og þið vitið, að Skalla-Grímur og Egill hafi haft hið mongólska svipmót, og má það reyndar lesa í Egils sögu, sérstaklega þegar Agli er lýst þar sem hann situr andspænis Aðalsteini konungi eftir orrustuna á Vínheiði. Það er greinilega Mongóli sem þar situr. En svo hafa aftur Þórólfarnir verið af hinu norræna tagi, ljósir yfirlitum, og það var, samkvæmt kynþáttakenningum þeirra tíma, oft hið sama og að vera fagur; en „svartur“ þýðir oft sama og ljótur. En nú er ég kominn út fyrir umræðuefnið hér.

En ég ítreka spurninguna: Ef við eigum allir að fara eftir framburði í stafsetningu, hvernig ætla þá Árnesingar eins og Magnús Kjartansson að skrifa hvað, hvernig, hver o.s.frv. (Gripið fram í: Búa til nýjan staf?) Ja, þarna verður að búa til nýjan Árnesingastaf.

En hér er um að ræða mjög þýðingarmikið atriði, — atriði sem ég ræddi dálítið um hér um daginn, þ.e. um blæbrigði framburðar.

Áðan fékk Sverrir Hermannsson heldur betur ádrepu út af því að hann í sínum ræðum hér talaði mál sem hann hafði greinilega lært, en væri honum ekki upprunalegt, hann segði ekki Mangi (með a-framburði) eða „nordan hardan gerdi gard“. Ég býst við að hann hafi í bernsku sagt Mangi og langur og strangur, en sennilega hefur þá verið horfið frá því að bera fram „nordan hardan“. Þetta ber að harma, ég tek undir það.

En út af þeirri fullyrðingu að þessi hv. þm. hafi lært málið af bókum sem voru settar saman af höfundi ofan úr Mosfellssveit, þá langar mig að drepa á framburðaratriði sem snertir annan höfund. Austur í Skaftafeilssýslu hafa menn haldið rödduðu -rn, -rl o.s.frv., þeir segja barn, en ekki bardn og enn þá síður baddn. Þegar ég var hér á þingi fyrir aldarfjórðungi eða aldarþriðjungi, þá heyrði ég Ásmund Sigurðsson úr Lóni alltaf tala um stjórinina, ríkisstjórnina, raddað. Aftur á móti Einar Olgeirsson sagði alltaf stjórddnin, með a.m.k. tveimur d-um, ef ekki þremur stundum, þegar mest gekk á fyrir þeim gamla. Raddaði framburðurinn kom hingað suður í munni ágæts rithöfundar, sem var á undan Halldóri Laxness á vettvangi íslenskra bókmennta, og hefur fengið þá viðurkenningu hjá Halldóri Laxness, að ef hann hefði ekki verið kominn á undan, þá hefði allt verið miklu erfiðara. Í afmælisgrein einu sinni þakkar Laxness Þórbergi Þórðarsyni sérstaklega fyrir það, hvernig hann ruddi brautina, hvað margt varð miklu auðveldara þeim, sem á eftir komu, fyrir það að Þórbergur hafði farið á undan. Þegar Þórbergur kemur til Reykjavíkur hefur hann að sjálfsögðu raddaða framburðinn á rn, rl o.s.frv. Hann hætti þessum framburði. Ég spurði hann einu sinni hvernig á þessu stæði. Hann hafði bara vanist af þessu vegna þess að bann heyrði þennan framburð ekki í kringum sig. Var þetta fyrir áhrif frá höfundinum ofan úr Mosfellssveit? (MK: Höfundurinn úr Mosfellssveit hefur tekið upp þennan framburð.) Já, ég ætlaði að bæta því við. Síðan kemur næsta stig. Höfundurinn úr Mosfellssveit tekur þennan framburð upp, eins og menn heyra, er hann les eitthvað í útvarp. Arnaldur (með rödduðu hljóði) heitir það í Sölku Völku en ekki Ardnaldur, barnið, óstjórnin. Halldór Laxness hefur vanið sig á þetta. Honum þykir þetta fallegt. Okkur finnst hins vegar sumum að þarna sé um tilgerð að ræða. En það er náttúrlega smekksatriði eins og annað. Hins vegar hefði manni ekki fundist þetta tilgerð ef Þórbergur hefði borið svona fram, enda hefði það ekki verið eins áberandi mikið raddað og það verður þegar menn læra þetta ekki sem börn, taka það upp seinna á ævi sinni. Þá er það orðið tilgerðarlegt að mínum dómi.

Af því að ég hef verið svolítið að gera aths. við það sem hv. þm. Magnús Kjartansson sagði hér áðan, þá vil ég benda á að þarna staðfestist enn hve mikil og víðfeðm er þekking þessa manns. Ég þakka honum fyrir það ágæta erindi sem hann flutti áðan.

Hann segir t.d. til rökstuðnings því, hversu fáránlegt sé að skrifa z, að hún er ekki lengur til í framburði. Margir taka nú undir þetta. Og ypsilonið, segir hv. þm., það má gjarnan sleppa því. Sama segir Halldór Laxness. En ypsilonið eins og z-an varpar ljósi í ýmsar áttir í málinu. Það gefur kennara tækifæri til að leiða nemandann inn á stigu, sem hann kæmi aldrei á ef ekki væri verið að „stagla þetta“. Þetta þarf nú reyndar ekki að vera neitt stagl, heldur getur þetta verið sá þáttur í íslenskukennslu sem er líflegastur og skemmtilegastur.

En það er ótalmargt annað af þessu tagi, segir hv. þm. Magnús Kjartansson, sem við minnumst ekki á. Þá er það mitt svar, að það er leitt að við íslenskukennarar skulum ekki hafa öðlast þekkingu til að kenna enn þá meira af þessu. En einhvers staðar verður að setja mörkin. Við erum ekki að tala um að fara aftur í forsögulega tíma einhvers staðar austur í heimi, þar sem frummálið varð til sem hin indóevrópsku mál eru öll sprottin af. Við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um að fara sem allra lengst með sögu og tengsl málsins og uppruna orða, allra lengst án þess að ofbjóða sjálfum okkur sem kennurum eða nemendum okkar.

Ég vara mjög við því, hvaða tilhneiging er hér strax komin upp. Menn eru strax farnir að tala um að afnema ypsilonið líka, loka enn fleiri leiðum til þeirrar skemmtigöngu aftur í sögu tungunnar sem íslenskukennslan getur verið, ef kennurum er uppálagt að kenna þetta. (Gripið fram í.) Við verðum náttúrlega að fara í nám til Magnúsar Kjartanssonar eða annarra slíkra áður en við förum út í það.

Það er enginn að uppáleggja Halldóri Laxness að skrifa z. Það er enn einn útúrsnúningurinn í grein hans. Það er enginn að heimta það, að hann skrifi z, heldur erum við að tala hér um lögboðna stafsetningu sem við ætlum að láta kenna í skólum, kenna börnum. Það er enginn að krefjast þess af Halldóri Laxness að hann noti þá stafsetningu sem við erum að tala um hér. Enn síður er verið að hóta honum tugthúsi ef hann geri það ekki.

Að lokum vil ég segja þetta: Ef ekki hefði orðið það slys 1934 eða 1935, í ráðherratíð Haralds Guðmundssonar sem menntmrh., að hann let breyta reglunum til þess horfs, að börnum skyldi ekki kennd z, heldur látið bíða til unglingsára, þá væru ekki þessar endalausu deilur um z-una. Það slys liggur hér til grundvallar. Ef þessu hefði verið haldið á barnaskólastiginu, þá væri ekki þetta pex endalaust. Ég hef reynslu af að kenna bæði unglingum og börnum, og hafði fengið töluverða reynslu af að kenna unglingum sem höfðu ekki lært z-una fyrr en ég tók við þeim, svona 13–14 ára eða 15, og það gekk ekki alltaf vel. Síðar um tíma þurfti ég að segja til hópi af börnum, sumum býsna ungum, sagði þeim m.a. til í stafsetningu. Það gekk eins og í sögu að kenna þeim z-reglurnar. Það er ósköp einfalt að afgreiða þetta mál í barnaskóla. Og þá er búið með að þetta verði einhver þröskuldur í vegi eðlilegrar móðurmálskennslu, sem að sjálfsögðu væri þá lestur bókmennta o.s.frv. Við ættum að athuga það alvarlega að færa þetta aftur yfir á barnaskólastigið.

Hv. þm. Magnús Kjartansson sagði hér áðan, að hann hefði heyrt Jón Helgason prófessor lesa upp fornkvæði, og nefndi í því sambandi Höfuðlausn og einhver fleiri kvæði Egils Skalla-Grímssonar. Ég tek undir það, að efnislega er þetta leirburður mestan part. Hv. þm. segir að hann hafi heyrt Jón Helgason lesa þetta með þeim framburði sem fornmenn notuðu, þ.e. fornmannaframburði og þá uppgötvað músíkina í þessu. Ég er ekki alveg viss um hvernig þetta má hafa tekist, hvort Jón hefur getað komist að öllu leyti að réttri niðurstöðu um það t.d. hvernig Egill Skalla-Grímsson hefði flutt Höfuðlausn — með hvaða framburði. Það er ég ekki alveg viss um. En ég er viss um að hann hefur komist býsna nærri því, svo nærri því kannske að Egill sjálfur hefði látið gott heita. En maður finnur líka klingja við í kvæðum fornum þó að maður sé ekki eins lærður og Jón Helgason. Maður finnur músíkina í þessu. Ég ætla að enda hér á frægri ástarvísu, sem Kormákur orti, og bið menn að hugleiða hvort við getum ekki enn, jafnvel þótt við kunnum nú ekki hinn forna framburð, notið þessarar tónlistar.

Brámáni skein brúna

brims und ljósum himni

Hristar hörvi glæstrar

haukfránn á mik lauka,

en sá geisli sýslir

síðan gollmens Fríðar

hvarma tungls ok hringa

Hlínar óþurft mína.