15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

58. mál, íslensk stafsetning

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Menn hafa nú komið víða við eins og jafnan áður þegar þessi mál eru til umr., og er skemmtilegt á að hlýða. Ég vil geta þess, af því að það kom fram hjá hv. þm. Jónasi Árnasyni, að auðvitað ólst ég alfarið upp við vestfirzkan framburð og mér var þetta eiginlegt. En mér þótti „langur“ og „gangur“ ljótara en að segja „lángur“ og „gángur“ og þess vegna breytti ég til að þessu leyti. Hins vegar er mér eiginlegur enn ýmis vestfirzkur talsmáti, eins og upp í mig, ofan í mig o.s.frv. Þegar ég heimsæki foreldra mína, þá tek ég aldrei eftir því þó að þau tali vestfirzku alfarið. En ég hrekk við í hvert skipti sem ég heyri menn tala vestfirzku, „langur“ og „gangur“, og sækja það ofan í sig með þessum hætti, sem ekki er það eiginlegt frá barnæsku.

Ég held að þetta hljóti að vera tilbúningur, þessi saga hv. þm. Stefáns Jónssonar, því að það getur ekki verið rétt að til þess að ná t-tannhljóðinu, ts-hljóðinu, þurfi að lama tunguna, og að maður, sem er með lamaða tungu, geti ekki borið fram blásturshljóðið s. Ég held að þetta sé tóm vitleysa. Maðurinn hefur verið tannlaus sem þarna átti hlut að máli. Ráðið hefði bara verið að setja upp í hann falskar tennur, þá hefði hann náð þessari z í þýzkunni. Það er því rétt að hann fari aftur til læknis, ef hv. þm. vildi skila því.

Varðandi það, sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, sem talaði drengilega og af djúpu viti um þessi mál, sagði um till, þar sem lagt er til að skipa 7 manna nefnd, en ekki þriggja manna eins og í frv. menntmrh., þá vil ég geta þess, að fyrstu þrír aðilarnir, sem gerð er till. um hér, eru þeir hinir sömu og hjá hæstv. menntmrh. Það þótti ekki ástæða til þess að breyta því, nóg er samt.

Hv. þm. Magnús T. Ólafsson minntist á það, sem rétt er, að hér væri ekki farið að till. sem komnar eru frá prófessor Halldóri Halldórssyni. Ég tók þetta skýrt fram. Eingöngu skýrði ég frá því, að það hefði verið hent á lofti uppástunga hans um að reyna sættir í málinu með þeim hætti að varðveitt yrði z í stofni orða einvörðungu. Hann bjó ekki til þessa till. sem hér liggur frammi. Þetta er ekki hans till., heldur átti hann uppástungu. Þessi formaður breytinganefndarinnar, sem skipuð var um árið, átti þessa uppástungu, að sættst yrði á þeim forsendum, og það er aðalatriðið.

Síðan leggur hv. þm. Magnús Torfi enn á ný áherzlu á að nú megi engu breyta af því sem það mundi valda aukinni ringulreið. Þetta geta þeir ekki sagt og margtuggið ofan í hv. þm., þeir sem stóðu fyrir uppreisninni í þessum málum árin 1973 og 1974. Þeir segja að þetta sé að vinna sér hefð í málinu þegar í stað, þessi nýbreytni, — við höfum nú fyrir augum hvernig það hefur gengið, bara af lestri blaða og bóka sem út eru gefin, — og þess vegna megi ekki breyta til. Þeir hefðu átt að hugsa fyrir þessu árið 1973, þegar þeir voru að stórbreyta til eftir að sættir höfðu verið með mönnum í 44 ár. Þess vegna eru það úr þeirra munni haldlaus rök og gagnslaus að vara við breytingum nú af því að það mundi valda ringulreið. Till. er til þess að koma á sáttum og festu í þessu efni, því að eins og ég sagði áður, þá held ég að það sé lífsspursmál að við höfum ein lög allir í þessu efni. Það er enginn að tala um það, að skipa eigi fyrir fullorðnu fólki og viti bornu hvernig það eigi að skrifa málið. Þess vegna gelur rithöfundurinn Halldór Kiljan bægt frá sér tugthúshræðslunni, sem er bráðum fertug í honum, í eitt skipti fyrir öll. Og það er enginn að fara að lögfesta eitt eða neitt um stafsetningarmál. Það eina, sem lagt er til að lögfesta, er frv. menntmrh. um það, hvernig skuli farið að því að breyta stafsetningu í framtíðinni. Til hvers ætli það frv. sé ætlað, sem hv. þm. Magnús Torfi tekur undir og vill samþykkja ? Það er til þess að hindra afglöp menntmrh. framtíðarinnar, afglöp svipuð þeim sem framin voru hér árin 1973 og 1974. Sjálfum menntmrh. þykir nú ráð að leggja til, að það verði hindrað, að gripið verði til slíkra uppátækja, með því að málið skuli fyrst fara í gerð hinna lærðustu manna og síðan lagt fyrir Alþ. í tillöguformi.

En það voru svo aðeins nokkur orð vegna ræðu hv, þm. Magnúsar Kjartanssonar. Hann talaði um að rithöfundurinn Halldór Laxness hefði hirt mig. Ég hef geysilegt dálæti á Halldóri Laxness og hef raunar verið þeirrar skoðunar lengi að hann sé einn mesti rithöfundur sem hafi verið nokkru sinni á dögum. En maður með rangan málstað hirtir ekki þann sem hefur rétt fyrir sér. Maður með rangan málstað, sem flýgur á annan, slær vindhögg og jafnvel klámhögg, heitir það á íslensku. Þess vegna hafði ég gaman af þessari grein og hef raunar svarað henni, og nú vænti ég þess að hv. þm., sem er hér að æfa sig í upplestri, Stefán Jónsson, taki það nú fyrir næst, ef hann talar sig ekki dauðan strax í þessu máli, að lesa þá grein líka svo að hún festist í þingtíðindunum, fyrst mönnum er svo mikið í mun að allt, sem sagt er og skrifað um þetta, komi hingað til skila.

Nei, ég er þeirrar skoðunar, og sannfæring mín stendur til þess, að þarna hafi þessi margfrægi rithöfundur rangt fyrir sér. Hv. þm. Magnús Kjartansson segir eins og skáldið, að framburður og stafsetning eigi að haldast í hendur. Og nú er rétt að draga hér fram nokkra vitnisburði frá eldri tímum og tilvitnun í grein, alveg nýlega grein eftir Ásgerði Jónsdóttur kennara. Það kom á sínum tíma fram, eftir að 2. hefti Fjölnis kom út með byltingarkenndri stafsetningu Konráðs Gíslasonar og álitið var að sú stafsetning hefði m.a. átt þátt í því að gera Fjölni óvinsælan meðal Íslendinga, þá kom fram mjög snörp gagnrýni á stafsetningu hans í Sunnanpóstinum sem Árni Helgason stiftprófastur í Görðum gaf út. Þessi grein var að vísu nafnlaus, en talið að hinu lærði málfræðingur og rektor Bessastaðaskóla, Sveinbjörn Egilsson, hefði skrifað hana og e.t.v. Árni í Görðum átt hlut að máli, þar sem undir var skrifað dulnefnið Árnabjörn. Þar vikur hann að þessu, stafsetningunni, þessi greinarhöfundur, og kemur einmitt að þessu sem hefur borið á góma hér, hvernig Norðlendingur mundi skrifa hvalir, þegar hann væri að skrifa um stórfiskana. Hann mundi vitanlega skrifa k, ef þetta ætti að líðast, að menn skrifuðu eins og þeir töluðu. Höfundurinn ræðir svo um það, að menn skynji oft framburð ýmissa hljóða misjafnlega og Þá geti komið upp alls konar hrærigrautur, ef hver fær að skrifa eftir eigin hljóðskipan, og segir síðan orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi umtalaða „einkaregla“ — og er þá að tala um reglu Konráðs Gíslasonar — „er því að minni einföldu meiningu fyrsti grundvöllur Babelsbyggingar hér á landi og fullkomin tilraun að myrða mál það, sem lengi með sóma og heiðri lifað hefur og lifir enn í munni og ritum flestra Íslendinga, sem þykir sér sóma að taka inn í bókmálið hvert latmæli og bögumæli, sem nú er brúkað í daglegu tali.“ Höfundurinn viðurkennir, að bæði staðsetning sín og annarra geti þurft leiðréttingar við, en hann vill þá að sú leiðrétting fari eftir reglum sem „leiddar séu af málsins eigin eðli og byggingu, orðanna ætterni, sambandi og aðgreiningu, þó með allri mögulegri en skynsamlegri hlífð við ritvenjuna, en byggist ekki á ólíku tungutaki margra þúsunda af öldum og óbornum.“

Þetta segir, að því er talið er, hinn lærði málfræðingur Sveinbjörn Egilsson. En við ættum kannske að líta á það sem Guðbrandur Vigfússon prófessor sagði um þessa aðferð Konráðs. Að vísu breytti Konráð henni. Hann gerbreytti um stefnu. Hann tók upp aftur að skrifa eftir uppruna og gaf raunar út ritreglur í samræmi við það. Guðbrandur Vigfússon ræðir almennt stafsetningu og segir í grein í Þjóðólfi, sem kom út 1860, en hann hafði áður skrifað um þetta mál í Ný félagsrit 1857, — Guðbrandur segir, og þetta er afar lærdómsríkt og gildir og á allt við enn í dag:

„Það er fernt, sem öll stafsetning er byggð á,“ segir hann, og ég les upp orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „1. Uppruni. 2. Framburður. 3. Ritvenja. 4. Fegurð. Þess verður alls að gæta. Enginn skrifar né getur skrifað eftir upprunanum einum.“ Og hlusti nú hv. þm. Magnús Kjartansson á, sem er að fleygja hér fram tillögurusli út í bláinn: „Ef menn rita eftir upprunanum einum verður ritið of forneskjulegt, stirt og staurslegt. Riti menn eftir framburðinum einum, verður ritið húsgangslegt og á reiki eins og kúgildi á jörðu, því eins og hver syngur með sínu nefi, svo talar og hver með sinni tungu. Verða og málin eins mörg og tungur eru, það verður eitt mál fyrir hvern munn og hver ritar að munns ráði sjálfs sín. Hin skaðlegasta ritaðferð verður án efa sú að gera framburðinn að ritgoði sínu. Það mundi leysa sundur öll þjóðbönd og félag það sem eitt ritmál bindur.“

Og hann segir síðast orðrétt og er þá að tala um gömlu aðferð Fjölnis, uppátæki Konráðs Gíslasonar, sem hann hvarf frá. Guðbrandur Vigfússon segir:

„En ef menn sveigja á bakborða með Fjölni, þá horfir beint út í hafsauga, út í endalausar stafsetningar hafvillur, því þar kemur einn ritkækur og nýjung á aðra ofan, þar til ekki er heil brú eða urmull orðinn eftir af málinu, því að hverjum, sem vill miða við framburð einan, fer líkt og hafrinum, sem miðaði við skýin og fann ekki mat sinn. Og við verðum þangað til að, að enginn veit sitt rjúkandi ráð, hvernig á að stafa eða rita.“

Nú ætla ég að leyfa mér að vitna aðeins í, með leyfi hæstv. forseta, nýlega grein, sem ég gat um í framsöguræðu minni, ettir Ásgerði Jónsdóttur kennara, — sem fæst við kennslu. Hún segir svo orðrétt:

„Ég hef ekki enn og mun seint fá skilið þá menn, sem af einhverri uppljómaðri hugsjón um betri heim z-lausan knúðu fram ákvæðin um brottnám hennar úr íslenzku máli. Ég hef heldur ekki komið auga á nein frambærileg rök fyrir ágæti þessarar hugsjónar. Mig minnir þó, að þau hnigju öll í þá veru að með þessu ætti að auðvelda nám móðurmálsins. Hvílík kenning! Eins og nokkur skepna þrifist betur á gerilsneyddu glundri en sæmilegu kjarnfóðri !“

Svo segir hún hér, og þetta vænti ég að rithöfundurinn Halldór Laxness hafi líka lesið, orðrétt svo:

„Aðalhöfundur þjóðarinnar og eftirlætisskáld mitt, Halldór Laxness, hefur löngum verið iðinn við að lagða okkur barnakennara fyrir ómerkilega og smásmugulega stafsetningarkennslu, og gott ef ekki beina spillingu á eðlilegu máli nemenda. Það læt ég mér í léttu rúmi liggja. Hitt þætti mér sýnu verra, og raunar óbætanlegt tjón, ef stafsetning þjóðarinnar ætti eftir að þróast í þá átt, að menn yrðu um síðir ólæsir á bækur Halldórs Laxness og annað það sem bezt hefur verið ritað á íslenzka tungu.“

Svo leyfir hv. þm. Magnús Kjartansson sér að segja, að z sé kredda og till. þessi til þess fram borin að eyðileggja skilning barna á íslenzkri tungu. Slíkt orðfæri er auðvitað með ólíkindum og honum alls ekki sæmandi. Til þess eru refarnir ekki skornir, öðru nær. Till. okkar er til þess fram lögð að við reynum að sættast í málinu, því að það er mikil nauðsyn að það takist, og það er mikil ábyrgð þeirra manna sem ætla að neita að ganga til sáttanna.

Hann minntist á, Magnús Kjartansson, ýmsar breytingar, sem orðið hefðu á tungunni í aldanna rás. Og vitanlega er það svo, að menn þykjast vita það með mikilli vissu. Hann nefndi sem dæmi að við hefðum týnt niður stöfum, þegar danskur kóngur kúgaði inn á okkur evangelísklúterska trú. Það kynni nú að vera, að við hefðum getað staðið fastar í ístaðinu ef við hefðum haft þá samræmda stafsetningu. Ekki er nú loku fyrir það skotið. Hann minntist á flámælið. Hvernig ætli áflogin um flámælið hefðu farið og sá hernaður ef hvert skólabarn hefði mátt rita eftir því sem það talaði og ekki verið leiðrétt? Eða — þótt annars eðlis sé — þágufallssýkin fræga, sem ég man með réttu að rithöfundurinn Halldór Laxness kallaði skrílmenningu vaxna upp úr göturæsum Reykjavíkurborgar? Ég hugsa að ég muni þetta rétt og vilna enda til þess í grein minni, sem ég hef sent Morgunblaðinu til birtingar, af því að ég skrifa ekki í Vísi, til þessa og annars af því sem ég hef hér vitnað til. Ég sem þm. treysti mér ekki til að skrifa í Vísi, t.d. vegna þess að ég las þar grein eftir ungan blaðamann á dögunum að alþm. upp til hópa mundu vera illa gefnir undirmálsmenn með glæpahneigðir, og mig minnir að hann hafi bætt því við, að þetta væri oft svona fyrstu áratugina eftir að ný veldi og ríki væru stofnuð, þá kæmu þeir helst fram og til skjalanna sem þannig væru úr garði gerðir. Þess vegna er það sem ég treysti mér ekki til þess að skrifa í Vísi, þótt Halldór Laxness treysti sér til þess.

Við þekkjum hvernig fór fyrir frændum okkar Norðmönnum. Norska málið, sem talað var sannanlega, var myrt, og nú er það svo, að þá, sem skrifa og tala á vest-norsku, skilja menn í öðrum landshlutum alls ekki. Ætli þeim hefði ekki gengið betur ef þeir hefðu staðið fast í ístaðinu varðandi ritun málsins?

Ég tek auðvitað undir það, að tungutakið sjálft skiptir höfuðmáli, en þetta á auðvitað samleið. Mig minnir að Halldór Laxness hafi það eftir Jóni Helgasyni prófessor á einhverjum stað, að hann hafi talið það óbætanlegt tjón, að framburður ypsilonsins skyldi hafa fallið niður, eftir því sem mig minnir að hann telji, á 15. eða 16. öld. Auðvitað er ég ekki að segja að ritun málsins bjargi því. Þó kynni að vera, ef eitthvert sérstakt tákn hefði verið á því ypsiloni, að það kynni að hafa hjálpað til a.m.k. að bjarga því að viðhalda framburðinum. Það kynni að vera. Ekki er það með öllu útilokað.

En Halldór — Laxness heitir hann núna — endar sína grein á því að slá það vindhögg sem gerir afganginn af greininni lítils virði, og það er með því að fitja upp á því, hvort ekki sé tími til kominn að hætta að skrifa ypsilon. Ég ætla ekki að tefja tímann núna með því að fara út í þá sálma. En þannig er sú stefna þeirra manna, sem réðu upphlaupinu 1973, þó að þeir hafi jafnan vikist undan að játa það. Þetta var þeirra stefna. Stefnan er að hefja ritun málsins eftir framburði, og ég hef nefnt ykkur ýmis dæmi um það sem gilda enn í dag, þótt gömul séu sum, til hvers slíkt mundi leiða.

Ég held svo að ekki hafi verið margt fleira, sem fram kom, sem ég sé ástæðu til þess að gera að umtalsefni nú. En að rithátturinn, ritun z t.d., mundi orsaka andlega stéttaskiptingu í landinu, eins og fram kom, held ég, hjá hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, — það er með ólíkindum að hlýða á fullyrðingar sem slíkar. En ég verð þó að segja að ekki komst ég hjá því, frekar en við lestur greinar rithöfundarins Halldórs Laxness, að kenna nokkurs menntahroka í máli hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar.