16.11.1977
Efri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir er um þrjár breytingar á lögum um rannsóknarlögreglu sem afgreidd voru á síðasta Alþingi.

Fyrsta breytingin varðar það, hvar rannsóknarlögregla ríkisins hafi aðalstarfsstöð. Í núgildandi lögum er kveðið svo á að hún hafi heimill og varnarþing í Reykjavík, en þarna er í 1. gr. mælt svo fyrir að rannsóknarlögregla ríkisins hafi aðalstarfsstöð í Reykjavík eða nágrenni o.s.frv. óbreytt.

Í 2. gr. felst sú breyting eða nýmæli, að það skuli jafnframt skipaður vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins, að einn af þeim fulltrúum væntanlega, sem starfa við embættið, sé skipaður fastur staðgengill rannsóknarlögreglustjóra. Er það áþekk skipun og gildir um saksóknara ríkisins. Þykir eðlilegra að það sé fyrir hendi alveg föst skipun um það hver eigi að koma í stað rannsóknarlögreglustjóra þegar hann er ekki viðlátinn eða á ekki að fara með mál.

Í 3. gr. er svo nánara ákvæði um það, hvenær rannsóknarlögreglustjóri eigi ekki að fara með mál, en þar segir svo:

„Þegar rannsóknarlögreglustjóri er svo riðinn við mál eða aðila, að hann mætti ekki gegna dómarastörfin í því, skal hann tilkynna það dómsmrh. Þegar ráðh, berst slík tilkynning eða hann fær vitneskju um það með öðrum hætti skipar hann vararannsóknarlögreglustjóra eða annan löghæfan mann til meðferðar þess máls.“

Þetta litla frv. er flutt í samráði við og skv. óskum rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Það atriði í þessum frv., sem gæti þótt umræðuvert og ástæða væri til að hér væri gerð grein fyrir, er staðarvalið. En eins og menn minnast var á sínum tíma nokkuð um það rætt og voru nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort þarna væri um heppilegan stað að ræða, og auk þess bent á það, að í lögum væri ákveðið að heimilið skyldi vera í Reykjavík. Það má reyndar segja að það hafi verið vanræksla eða vangá, að þessu ákvæði var ekki breytt strax í lögum um rannsóknarlögreglu í samræmi við þá breytingu sem hv. allshn. Nd. gerði á frv., þ.e.a.s. útvíkkað aðalstarfssvið rannsóknarlögreglunnar Í upphaflega frv. var það bundið við Reykjavík, en þessu var svo breytt, eins og hv. þm. vita, og umdæmið gert stærra. Ég var og er þeirri breytingu samþykkur, að það yrði tekið ákveðið fram um tiltekið stærra svæði sem félli undir rannsóknarlögregluna, enda þótt gert væri ráð fyrir að það væri heimild fyrir dómsmrh, að láta það ná til stærra svæðis, auk þess sem í vissum tilfellum og reyndar mörgum tekur rannsóknarlögreglu ríkisins til landsins alls.

Þær raddir, sem komu fram og fólu sumar hverjar í sér gagnrýni á þetta staðarval eða kaup á því húsi sem keypt var til þess að verða aðsetur rannsóknarlögreglu ríkisins a.m.k. fyrst um sinn, þær raddir eru nú þagnaðar, held ég, og menn eru að athuguðu máli nokkuð sammála um að þetta hafi ekki verið illa valinn staður.

En það er rétt að ég fari nokkrum orðum um þetta staðarval, hvernig stóð á því að þessi staður var valinn, og um það hús sem keypt var í þessu skyni í Kópavogi, utan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, Það hlaut auðvitað að verða eitt af því fyrsta, sem kom til kasta við undirbúning á því að rannsóknarlögreglan tæki til starfa, að sjá stofnuninni fyrir stað og húsnæði. Var kapp lagt á að það tækist sem fyrst, að rannsóknarlögreglan kæmist í hentugt húsnæði, en núverandi húsnæði og aðsetur rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík er að Borgartúni 7 og einnig að Hverfisgötu, í lögreglustöðinni, en staðurinn og húsnæðið, sem rannsóknarlögreglan hefur og hafði að Borgartúni 7, mun nú að flestra dómi talið allsendis ófullnægjandi undir þá starfsemi.

Fyrst í stað beindust augu manna að húsi Tryggingar hf. að Skaftahlíð 24 í Reykjavík. Samningaviðræður hófust fljótlega við forráðamenn tryggingafélagsins og leiddu eftir nokkurt þóf til þess, að 15. mars var gert bráðabirgðasamkomulag milli dómsmrn. og Tryggingar hf. um leigu á húsnæðinu. Fjmrh. féllst hins vegar ekki fyrir sitt leyti á efni þess samkomulags, enda voru leigukjör — það verður að játa — skv. því miklum mun óhagstæðari en ríkið hefur átt að venjast í skiptum við leigusala. Þá var reynt til þrautar að ná samkomulagi við Tryggingu hf, sem gæti talist viðunanlegt, en það tókst því miður ekki.

Þá var ekki um annað að ræða en að líta á þær húseignir, sem til sölu voru á þeim tíma, og velja úr þá sem best þætti henta rannsóknarlögreglunni og fjmrn. eða hagsýslan gæti sætt sig við. Rannsóknarlögreglustjóri og starfsmenn dóms- og fjmrn. skoðuðu þannig u.þ.b. 10 hús í Reykjavík og Kópavogi, og niðurstaða þeirrar athugunar varð sú, að húseignin að Auðbrekku 61 í Kópavogi væri hentugust af þeim eignum sem í boði voru, enda var það talinn kostur að slík stofnun sem rannsóknarlögreglan gæti verið í eigin húsnæði. Það má segja að það hafi verið fjárlaga- og hagsýsludeild fjmrn. sem vakti athygli á þessu húsnæði, og hafði það komið upp í sambandi við það að hún var þá að leita að húsnæði fyrir bæjarfógetaembættið í Kópavogi og athugaði þetta hús fyrst í því skyni. En þegar til kom þótti það of stórt fyrir það embætti. Hins vegar er rétt að skjóta því hér inn í — milli sviga — til athugunar, að í fjárlagafrv., heimildagrein, hefur slæðst inn svolítil villa, þannig að það er heimild til þess að kaupa bæði þetta hús, Auðbrekku 61, Auðbrekku 59, það stendur í báðum tilfellum fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins, en Auðbrekka 59 er keypt fyrir bæjarfógetaembættið í Kópavogi og mun þessi starfsemi þess vegna fara fram hlið við hlið. Þetta leiðréttist sjálfsagt í meðferð hv, fjvn., en þarna hefur átt sér stað prentvilla.

Kaupverð þessa húss, sem keypt var að Auðbrekku 61, er 115 millj. kr, sem greiðist þannig skv. samningi dags. 30. mars 1977:

a. Við undirskrift samnings 40 millj. kr.

b. Hinn 25. jan. 1978 30 millj, kr.

c. Með skuldabréfum, er greiða skuli með jöfnum afborgunum á næstu 5 árum og ársvöxtum 14%, 45 millj. kr.

Húseignin er keypt eftir að aflétt hefur verið af henni öllum áhvílandi veðskuldum. Húseignin er 1470 m2 á þremur hæðum, en til saman. burðar má geta þess, að húsnæði það, sem rann. sóknarlögreglan hefst nú við í Borgartúni 7 og á Hverfisgötu, mun vera um 500 m2. þannig að aðstaða rannsóknarlögreglunnar breytist mjög til batnaðar þegar gengið hefur verið frá innréttingu þessa húsnæðis og hún getur flutt í það. Arkitektar við það að innrétta þetta hús voru ráðnir Geirharður Þorsteinsson og Hróbjartur Hróbjartsson, og þeir hafa að sjálfsögðu lokið fyrir alllöngu við að gera allar teikningar, bæði að því er varðar húsið sjálft og eins lagfæringu á lóð. Þeir hafa gert eftirfarandi áætlun um kostnað við þessi verk, en sú áætlun er dags. 30. júní 1977 og er auðvitað miðuð við bað verðlag sem þá gilti, þannig að hún er efalaust talsvert hærri nú og verður vafalaust eitthvað hærri.

Kostnaður við innréttingu hússins er áætlaður samtals 90.5 millj. kr. Kostnaður við kaup á húsaögnum í þetta nýja húsnæði er að auki áætlaður 24 millj. kr. Kostnaður við lagfæringu lóðar er áætlaður 13.9 millj. kr., en þá er gert ráð fyrir þeim möguleika að á þessari lóð. sem þarna fylgir með og er allstór, megi í framtíðinni og ef á þarf að halda byggja viðbótarbyggingu bak við húsið allt að 1000 m2 að flatarmáli. Sú innrétting, sem þarna er gert ráð fyrir. og allur frágangur á lóð munu að sjálfsögðu auka verðgildi hússins mjög mikið.

Framkvæmdir við húsið hafa ekki verið verulegar til þessa, enda þótti rétt að málið kæmi til kasta hv. Alþ. áður en lagt væri í verulegan kostnað við breytingar á húsinu.

Ég held að þetta staðarval muni ekki verða umdeilt þegar öll atriði málsins eru skoðuð og þá fyrst og fremst það, að þessi staður er eins miðsvæðis og eiginlega er hægt að hugsa sér í því umdæmi sem rannsóknarlögreglunni er sérstaklega ætlað. En auk þess er það svo, eins og ég sagði áðan, að rannsóknarlögreglunni er eftir atvikum ætlað að ná til landsins alls. Enn fremur er þess að gæta, að gert er ráð fyrir því að rannsóknarlögreglan fáist fyrst og fremst við meiri háttar afbrot, og í þeim málum skiptir nálægð rannsóknarstaðar eða yfirheyrslustaðar við aðila eða þá, sem þarf að ná í, minna máli en þegar um minni háttar brot er að ræða. Auk þess er gert ráð fyrir því, eins og segir í aths. með þessu frv., að rannsóknarlögreglan geti haft að auki starfsstöðvar bæði innan síns aðalsvæðis og eins utan þess, ef þörf þykir vera á því, og ákveðið er að hún skuli hafa með höndum rannsóknir á meiri háttar brotum nálægt svæðinu.

Þó að ég verði að segja það, að ég persónulega var heldur óánægður með að það skyldi ekki vera hægt að halda við þá áætlun, sem upphaflega hafði verið stefnt að, að fá húsnæði fyrir rannsóknarlögregluna í húsi Tryggingar hf., þá verð ég að játa, eftir því sem ég hef kynnt mér þetta nánar og skoðað þennan kost, að það leiki ekki á tveimur tungum að hann er í raun og veru hagstæðari, bæði að því leyti til, að ég held að það verði ekki fundið að sjálfu staðarvalinu, og eins hitt, að þetta verður, að ég vona, miklum mun ódýrara en hin leiðin, að leigja húsnæði eins og gert hafði verið ráð fyrir, og þetta verður eign ríkisins og heldur þá væntanlega þar með sínu verði.

Herra forseti. Ég taldi rétt að taka fram þessi örfáu atriði varðandi kaupin á þessu húsnæði, hvernig þau eru til komin og hvaða kosti má telja fram til stuðnings þessu staðarvali. Og eins og ég sagði áðan, þó að menn hafi litið í byrjun nokkuð mismunandi augum á þetta, þá held ég að það sé ekki í sjálfu sér neinn ágreiningur um það lengur, a.m.k. er mér ekki kunnugt um að það sé innan rannsóknarlögreglunnar sem á við þetta að búa fyrst og fremst og það er ekki vafamál, að þegar búið verður að koma þessu húsnæði í það horf sem stefnt er að, þá verður aðstaða rannsóknarlögreglunnar afskaplega ólík því, sem hún er nú, og hægt að koma við ýmsum nýjungum og tæknibúnaði í sambandi við þetta.

Ég teldi heppilegt ef hv, allshn., sem væntanlega fær þetta frv, til meðferðar, vildi kynna sér það nánar, og þá teldi ég rétt að hún fengi til fundar við sig rannsóknarlögreglustjóra ríkisins og aðstoðarmann minn, Eirík Tómasson, sem mundu geta skýrt þetta mál allt betur og sýnt teikningar af húsinu og innréttingum. Svo væri auðvitað æskilegt, ef nm. hefðu tök á, að fara á vettvang og sjá þá aðstöðu sem þarna er um að ræða.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, enda tel ég hinar aðrar breytingar, sem um er að ræða, svo augljósar að ekki sé ástæða til að fjölyrða um þær. Menn verða auðvitað að gera það upp við sig, hvort þeir vilja að settur sé þessi sérstaki fasti vararannsóknarlögreglustjóri. Það er sem sagt að ósk rannsóknarlögreglustjóra sem sú brtt. er flutt.

Ég leyfi mér að leggja til að frv, verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. allshn.