16.11.1977
Efri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil nú fara nokkrum orðum um þetta mál aftur, þó að hv. síðasti ræðumaður gerði því raunverulega ágæt skil og svaraði gagnrýni hér í d. af hógværð raunverulega fyrir mig, og hefur honum farið mikið fram frá því málið var fyrst flutt, en þá sagði hann að málið væri harla gott, en hann gæti þó ekki fylgt því. Að vísu hafði hann fyrirvara á málinu nú, en fór þó um það mildum höndum og er það vel, því að bæði honum og fleirum hefur skilist að þetta mál er þannig vaxið, að það verður að taka á því fyrr eða síðar, við komumst ekki hjá því. Það mun svo sannast í framtíðinni, að meginhugsun þessa máls verður viðurkennd. En þetta frv. er auðvitað eins og hvert annað frv., það sætir breytingum í meðferð nefnda og umr, á Alþ. Öll frv., sem lögð eru fram, sæta þeim örlögum að þreytast ef meiri hl. alþm. vill það, og það er alveg eins með þetta frv.

Svo að ég haldi mér við orð síðasta ræðumanns, þá drap hann á margt sem er mjög mikilvægt í þessu frv. og mikilvægt til lausnar. Hann undirstrikar það sem við segjum í 3. gr., að það er val bændanna, það er val jarðeigandans hvort hann vill áfram um mörg ár hafa óbreyttan hátt á eða ekki.

Ég veit ekki hvað margir hlustuðu á þátt um atvinnumál í útvarpinu, í fyrrakvöld held ég að það hafi verið, en þá sagði blaðafulltrúi bænda að stefnan í landbúnaðinum á Íslandi væri sú besta í heiminum, hvorki meira né minna. Það er hraustlega mælt í áheyrn allrar þjóðarinnar. Ég hef ekki þá þekkingu að ég geti dæmt um það. Hitt veit ég, að margir ungir menn, sem vil;ja hefja búskap, eru í vandræðum að geta hafið búskap, og mig langar að fá að vita með hvaða hætti menn hafa betri lausn fyrir ungan mann, t.d. úr þéttbýli, að hefja búskap en frv. gerir ráð fyrir, ef hann á kost á að leigja jörð er ríkið á. Ef hann verður að sæta kaupum á jörð og kaupum á öllum bústofni eða a.m.k. jörðinni og húsnæði, þá er það svo dýrt að ég fæ ekki skilið, með því ástandi sem ríkir í lánamálum landbúnaðarins, að maðurinn geti hafið búskapinn. Það eru svo ágætir fulltrúar bænda hér í d., að þeir geta sagt okkur frá, hvernig þetta mál er í dag. Jafnvel þótt jarðalögin, sem við afgreiddum hér í fyrra og gekk ekki hljóðalaust að fá í gegn, en ég studdi eindregið sem áfanga og skynsamlega löggjöf í þessu efni, þrátt fyrir þá löggjöf mun mörgum reynast erfitt að eignast jörð í dag og hefja búskap ef hann þarf að kaupa jörð og húsnæði á marga tugi millj., ég tala nú ekki um ef jörðinni tilheyra einhver hlunnindi, svo sem veiðihlunnindi, þá tel ég það næstum ókleift nema maðurinn hafi því meira fjármagn á bak við sig. Væri nú svo, eins og frv. gerir ráð fyrir, að ríkið ætti þessa jörð, þá ætti ungur maður, sem væri kominn úr búnaðarskóla og alls ekki fjáður, en hefði áhuga og menntun til að hefja störf í landbúnaði og vildi það og hans fjölskylda öll, — þá ætti hann kost á því. Hann væri ekki þvingaður í aðra starfsemi eða í aðra vinnu, ef frv. nær fram að ganga eða sá andi sem við boðum í frv.

Ef Jarðakaupasjóður eflist svo sem ég vona, þá er það eitt af mikilvægum málum í landbúnaðinum og hlýtur að vera hagsmunamál bænda, ég tala nú ekki um gamalla manna sem hafa misst börn sín á mölina, að geta selt jörð sína. Getur þetta verið andúð til bænda? Ég skil ekki slíkan áróður á móti því sem við viljum. Hann er ekki sagður af heilum hug. Hann er sagður af einhverjum öðrum hvötum.

Auðvitað þarf mikið fjármagn úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar til þess að efla Jarðakaupasjóð. En höfum við efni á því með núverandi fyrirkomulagi? Svo ég nefni aðeins eitt dæmi, annað mál, en ég vil nefna það dæmi, höfum við efni á því að borga með kjöti því, er flutt er til Norðmanna um 1.5 milljarða, til einnar ríkustu þjóðar í heiminum sem gefur hundruð millj., ef ekki milljarða til annarra þjóða? Þetta tel ég ofrausn. Ég vil miklu heldur að þetta fjármagn renni í Jarðakaupasjóð og hjálpi íslenskum bændum til að halda uppi eðlilegum búrekstri í landinu. Menn kunna að deila um þetta, en þetta er mín skoðun. Við verðum að sæta kaupum frá Norðmönnum á fullu verði á öllum þeirra vörum. Þeir gefa okkur ekki neitt, nema síður sé, og eru einhverjir hörðustu og erfiðustu keppinautar okkar á öllum sviðum sem um er að ræða. Og þó frændur séu taldir, þá hef ég enga samúð með þeim í þessu tilfelli og hef sagt það áður hér á hv. Alþ. Ég vildi miklu fremur sjá þessar krónur komnar í Jarðakaupasjóð eða með öðrum hætti til eflingar íslenskum landbúnaði heldur en til niðurgreiðslna á kindakjöt handa Norðmönnum. Auðvitað er mönnum frjálst að hafa sína skoðun á þessu fyrirkomulagi.

Vandamál um veiðiréttinn, menn hafa rætt um það. Það er auðvitað viðkvæmt mál, en er ekkert nýtt, mjög viðkvæmt mál. Það kom fram núna í fréttum af landsfundi stangveiðimanna, að þeir sögðu að um 800 útlendingar hefðu komið hingað til veiða á s.l. ári. Auðvitað er gott að fá þá að vissu marki og tekjur frá þeim hingað. En hitt er alvarlegra mál, að taka aðeins ungann úr tímanum hér, velja bestu árnar og borga fyrir það slíkt stórfé að enginn maður íslenskur getur keppt við þá. Það tel ég alvarlegt mál, þó ekki sé óþolandi ástand, eins og síðasti ræðumaður orðaði það, en það er a.m.k. alvarlegt mál og alvarleg þróun. Hvort breytt form í þessu efni, eins og við leggjum til í frv., gæti betur stjórnað þessum málum, skal ég ósagt láta á þessu stigi. Ég er því ekki nógu kunnugur hvernig þessi framkvæmd á sér stað, en ég tel að þetta sé mjög stórt mál, og ég veit að það yrði mikið mál í Bandaríkjunum ef um 800 þús. útlendingar kæmu þangað í veiðivötn, en það er hliðstæð tala.

Eignarréttarformið er viðkvæmt, og það er alltaf talað um að bað sé helgasti réttur okkar. En hvað á verkamaðurinn? Hvað á launþeginn? Hann á sitt sparifé. Hann leggur það inn í ríkisstofnun eða einkastofnun og það á að liggja þar á vöxtum, en verðbólgan er slík að hún rýrir það um nærri þriðjung á hverju einasta ári, og það er auðvitað eignaupptaka með svívirðilegum hætti. Við leggjum þó ekki til hér að það sé neitt offors haft í frammi við þá er vilja eiga jarðir sínar. Þeir velja aðeins á milli. En við viljum einnig tryggja þeim, er selja vilja, að þeir eigi möguleika á því að breyta eign sinni, jafnvel í sparifé þó við erfiðar aðstæður sé miðað við líðandi stund. Það eru því miður allt of mörg dæmi þess, að bóndi getur ekki losnað við jörð sína af því að ekki finnst kaupandi að jörðinni og ungur maður, sem gjarnan vildi búa, hefur hvorki lánsmöguleika né fé til að kaupa jörðina. Ég var ánægður með að heyra það hjá síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, að hann vildi mjög taka á við að efla Jarðakaupasjóð, og ég trúi ekki öðru en að fleiri talsmenn bænda hér séu á sama máli og við um að það þyrfti að gera sérstakt átak í því efni.

Fiskræktarmálin og veiðiræktarmálin hafa oft verið rædd hér á hv. Alþ. Á sínum tíma flutti ég hér þrívegis fyrir mörgum árum till. um 10. millj. kr. framlag þá, sem var allmikið fé, í fiskræktarsjóð til eflingar fiskrækt í landinu. Það var svo undarlegt að það var alltaf drepið, fyrst og fremst af forsvarsmönnum bænda, af hvaða hvötum ætla ég ekki að giska á, en framsýnin var ekki meiri en þetta. Ef menn efast um það sem ég er að segja hér, þá er ekkert hægara en að fletta upp í þingskjölum og umr. um málið. Ég er nefnilega bjartsýnn á að fiskræktin hér í landinu geti orðið stór búgrein og það væri bæði mér og öðrum til sóma að koma því á að hér gætu risið eins og þrjú eða fjögur fiskræktarbú, sitt í hverjum landsfjórðungi, og ákveðin tilraunastarfsemi í þessu efni gæti hafist sem allra fyrst. Það er búið að setja tugi millj., jafnvel hundruð millj., ef við reiknum á verði í dag, í Kollafjarðarstöðina, og ég tel að það sé tími til kominn að við reynum praktískan búskap, raunhæfan búskap í fiskræktarefnum eða uppeldisefnum á laxfiski eða öðrum ferskvatnsfiski.

Ég ætla ekki að fara að ræða um hinn upplýsta sjálfseignarbónda. Það var alveg rétt á sínum tíma. Það var markmið margra manna að gerast sjálfseignarbændur og þeim sé vel, og það var kappsmál margra ungra manna að eignast jörð og búa einn að sínu og vera bjargálna. Þeir sóttu þá lítið í landssjóð okkar nema lán til að byrja með, voru harðduglegir menn og björguðu sér. Margir höfðu vinnuhjú, og gömul venja var það á Íslandi að vinnuhjú hafði aðeins í sig og á. Þetta eru liðnir tímar og munu fáir óska að þeir komi aftur á Íslandi, svo ég held við ættum ekki að vera að rifja upp þennan þátt í íslenskum landbúnaði. Ég held að fólkið á mölinni geti þá sagt: Búi þá hver að sínu og haldi þá hver á sínu á móti. — Og þá mundi margt breytast einnig. Ég held það sé best að fólkið í þéttbýlinu styðji einnig fólkið í dreifbýlinu og fólkið í dreifbýlinu styðji einnig möguleika á því að fólkið í þéttbýlinu geti notið landsins. Ég lofa hv. 6. þm. Suðurl. fyrir þá framsýni, sem ég held ég fari rétt með, að beita sér fyrir því, að í hans hreppi væri tekið til stórt landssvæði er gæfi mönnum kost á því að eiga þar sumarbústað. Þetta tel ég til slíkrar fyrirmyndar að vel má greina frá. Og það er einmitt einn þáttur í frv. sem gerir ráð fyrir að þetta sé gert. Auðvitað væri skemmtilegt ef fleiri menn í landinu hefðu slíka framsýni, en raunin sýnir að hún er yfirleitt ekki fyrir hendi. Það eru sárafáir sem bera gæfu til að taka slíkt skref. Kannske er ekki sagt frá þessu máli nægilega mikið. En hér er bæði verulega gott fordæmi og góð lausn á ferðinni. Ef almennt væri í hreppum landsins eða sýslum tekið á þessu máli eins og frv. gerir ráð fyrir og einnig er gert í umsjá þessa hv. þm., 6. þm. Suðurl., Steinþórs Gestssonar, væri þessi grein frv. raunverulega óþörf. En meðan ekki er tekið á þessu sem heild tel ég eðlilegt að löggjöf sé sett um málið. Kannske með því að hreyfa þessu hér á Alþ. og kannske með fordæmi höfum við báðir komið til móts við þarfir fólksins í þéttbýlinu að eiga kost á hentugum sumarbústöðum, og þá er stórmerkum áfanga náð. Sjálfsagt verðum við aldrei sammála um veiðiréttinn, því eins og einn forsvarsmaður landbúnaðar hefur sagt væru veiðimálin á Íslandi í góðri lausn ef Árnessýsla yrði undanskilin, svo hart hefur verið deilt á því svæði um veiðimálin og veiðiréttarmálin. En ég vona að það heyri hinum liðna tíma til og menn bæði þar og annars staðar sjái hvað er heppilegast í framtíðinni til þess að tryggja sem mesta og hesta veiði hér á landi, bæði fyrir veiðiréttareigendur og þá er veiðileyfin kaupa.

Hv. 2. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, kom aðeins inn á það, að ríkið ætti 900 jarðir, og taldi nóg að gert í því efni. Það kann vel að vera að það sé nægilegt. En frv. gefur mönnum val á því að eiga jörð áfram eða að Jarðakaupasjóður sé svo sterkur að hann hafi möguleika á því að kaupa jörð, ef menn óska eftir því.

Annað atriði, sem hann kom inn á, voru hitavatnsréttindin. Ég tel að það sé ekki hægt að komast hjá því að setja löggjöf um þetta mjög mikilvæga mál, og ég nefni eitt dæmi. Segjum svo að t.d. verði borað á ákveðnum stað þar sem ríkið á land og vatnið þverri í nálægð, á bújörð eða annars staðar. Á þá bóndinn, sem telur sig eiga vatnsréttinn á þessari jörð, að fá bætur eða ekki? Ef allir skulu halda sínu, þá vil ég segja að hann á ekki möguleika á nokkrum sköpuðum hlut. Ef hins vegar verður farið að anda þess frv. sem við erum hér að tala fyrir, þá tel ég að ríkisvaldið eigi að bæta manninum tjón sem hann kann að sýna fram á vegna þess að opinberir aðilar boruðu — segjum í 500 m fjarlægð eða 1 km fjarlægð — og vegna áhrifa frá þeirri borun þvarr vatn á hans landareign eða í húsum hans. Þetta dæmi kann að koma upp og hefur komið upp og verður að finna lausn á. Það fer ekki saman að menn heimti allt annars vegar og ef eitthvað fari úrskeiðis hjá þeim sjálfum, þá skuli tjónið bætt af hálfu ríkisins, en annars ágóði falla til þeirra einhliða ef allt tekst með ágætum á einkajörð. Meðan ríkisvaldið verður að skila óhemjufjármagni til baka í landbúnaðinn, sem ég er út af fyrir sig ekkert að sjá eftir, þá verðum við að reyna að finna lausn á þeim vanda sem fram undan er. Ég tek það fram, að sjálfsagt má orða sumt í þessu frv. betur en við gerum. En ég held það hljóti að skiljast, það sem við erum að mælast til að verði sett í lög, og það sé ekki gild mótbára að ekki sé hægt að samþ. frv. af því að það sé ekki nægilega skýrt orðað. Þá koma menn aðeins með betra orðalag eða betri lausn á málinu.

Ég nefndi sem dæmi í minni framsögu að 11 jarðir væru nú til sölu í blómlegum dal hér, í blómlegri byggð, og ég tel mjög alvarlegt mál ef enginn ábúandi hefur nokkurn minnsta möguleika til að kaupa neina af þessum jörðum. Ef svo fer fram sem ég hef fregnir af, hvort sem þær eru réttar eða ekki, þá er málið mjög vaxandi og alvarlegt. Ég tel því eitt af brýnustu verkefnum hér á Alþ. að tryggja Jarðakaupasjóði aukið fjármagn svo að heilar sveitir leggist ekki í auðn út af því að mönnum sé ekki vært að búa á jörðunum vegna verðhækkunar frá utanaðkomandi hlunnindum, hlunnindin verði metin svo hátt að það geti enginn nýtt jarðirnar nema þann þátt sem tilheyrir veiðiskap og þá fyrst og fremst laxveiði. Þetta er mjög alvarlegt mál og stefnir í óefni, eins og hv. þm. Stefán Jónsson drap mjög réttilega á og þekkir miklu betur en ég.

Ég læt mér svo í léttu rúmi liggja hvað félagi minn og góður samstarfsmaður í bæjarfélagi segir um að hér sé draugagangur á ferðinni. Það er alveg ástæðulaust að óttast það, að hér sé um alvarlegan draugagang að ræða. Hins vegar er oft nauðsynlegt að hafa uppí nokkurn hávaða til að vekja athygli á málum og þá oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, því jafnvel hinir ágætustu menn, eins og hv. 19. landsk., verða að gera sér grein fyrir því, að þó að margt hafi farið vel í landbúnaði hér undanfarið, þá eru svo breyttir þjóðarhagir nú og fram undan einnig svo mikil breyting hjá okkur Íslendingum, að við komumst ekki hjá því að fjalla um þessi mál í náinni framtíð. Það hafa verið lagðar fram miklar skýrslur sem ýmsir vísindamenn í landbúnaðinum hafa unnið að, og þeir segja blákalt að búum muni fækka hér á Íslandi. Ég vil ekki fortakslaust taka undir þá skoðun. Ég tel að við getum haldið við núverandi byggð með því að taka á þessu vandamáli með raunsæi og við þurfum ekki að óttast að 10–20 jarðir, að 50 jarðir fari í eyði árlega og margar hverjar seljist ekki og þeir, sem hafa nýtt þetta land, bókstaflega geti ekkert gert og eigi ekki einu sinni fyrir lélegri og lítilli íbúð hér á þéttbýlissvæðinu.

Ég tel þetta alvarlegt mál. ég get ekki að því gert, og við flm. Ég hef ekki heyrt þær mótbárur gegn þessu frv. að önnur lausn sé betri en frv, gerir ráð fyrir. Og ég vil, ef menn halda áfram umr. um þetta mál nú, að þeir bendi þá á aðra lausn, því haldi það áfram, sem verið hefur undanfarin ár, að jarðir leggist í eyði jafnt og þétt á hverju einasta ári, og ef að líkum lætur, eins og þeir segja í landbúnaðarskýrslunni, þessir spöku vísindamenn, að býlum muni fækka mikið á annað þúsund á næstu árum, þá er málið orðið miklu alvarlegra en ég geri ráð fyrir og miklu brýnni nauðsyn að tryggja Jarðakaupasjóði öruggt fjármagn eða notkun á þessu landi, — miklu meira stórmál en ég hafði gert mér grein fyrir. Þá á frv. sannarlega miklu meira erindi hér og ekkert í líkingu við neinn draugagang, heldur eitt af mikilvægustu málum sem við fjöllum um hér á hv. Alþingi.