16.11.1977
Efri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

2. mál, niðurfelling útflutningsgjalda á kolmunna- og spærlingsafurðum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um niðurfellingu útflutningsgjalda á kolmunna- og spærlingsafurðum á árinu 1977 er flutt til staðfestingar á brbl. um sama efni sem út voru gefin 15. júlí á s.l. sumri. Þetta var einn þáttur í því að draga verulega úr veiðum á þeim fisktegundum, sem eru ofveiddar um þessar mundir, og leggja þess í stað kapp á að auka veiðar á öðrum tegundum og þá sérstaklega á kolmunna og spærlingi. En til þess að greiða fyrir og auka áhuga manna á þessum veiðum var talið nauðsynlegt að leggja til að útflutningsgjald af þessum afurðum yrði fellt niður á þessu ári. Þrátt fyrir það að þetta útflutningsgjald var fellt niður, sem gerði það að verkum að þessar afurðir til útgerðar og sjómanna hækkuðu um nálega 1.10 kr. hvert kg, bar árangurinn ekki að sama skapi, því kolmunnaveiði var mun minni en ráð var fyrir gert. Þessar veiðar byrjuðu við Færeyjar skv. samningi milli Færeyinga og Íslendinga og þar veiddust tæpar 5200 lestir af kolmunna, en við Austurland veiddust um 3150 lestir, sem eitt einasta skip, Börkur frá Neskaupstað, veiddi. Hann hélt því miður ekki áfram þessum veiðum, en hann var einn af þátttakendunum í veiðunum við Færeyjar. Önnur veiði á kolmunna hefur verið fram til þessa um 725 tonn. Samtals nam kolmunnaveiðin 950 tonnum.

Á vegum sjútvrn. og í nánu samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunina var tekinn á leigu togarinn Runólfur frá Grundarfirði og aflaði hann um 125 lestir. Þar af voru heilfrystar hjá ýmsum frystihúsum um 50 lestir. Sömuleiðis voru unnar í marning í frystihúsi í Sandgerði og heilfrystar, slægðar og hausaðar af Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði liðlega 20 lestir á hvorum stað, en Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur unnið úr afla Runólfs í Gerðum u.þ.b. 150 lestir í skreið eða til þurrkunar, og er það stærsta tilraun sem hefur verið gerð á þessu sviði á þessu ári. Þessar tilraunir héldu áfram og var tekinn á leigu annar togari þegar Runólfur hætti, togarinn Guðmundur Jónsson frá Sandgerði, sem leigður var um mánaðartíma til þessara veiða og þá sérstaklega á Dohrnbanka, og átti hann bæði að leggja upp kolmunna til vinnslu í verksmiðjum og eins halda þessum þurrkunartilraunum áfram á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Þessar veiðar gengu mjög illa og leigutíma er lokið fyrir nokkrum dögum. Þar var sérstaklega um að kenna mjög slæmu tíðarfari sem varð þess valdandi að það voru tiltölulega mjög fáir dagar sem þetta skip gat verið við veiðar á þessum slóðum.

Spærlingsveiðarnar hafa einnig verið mun minni en menn gerðu sér vonir um á s.l. vori. Það hefur verið landað mest í Vestmannaeyjum, um 11200 tonnum, í Þorlákshöfn rúmlega 640 tonnum og í Grindavík og víðar um 12 þús. tonnum, eða samtals eitthvað um 18 800 tonnum. En þrátt fyrir það að almennur áhugi er ekki hjá útgerðarmönnum á kolmunnaveiðum og kolmunnavinnslu, þá tel ég að hafi verið nauðsynlegt að gefa út þessi brbl. og nauðsynlegt að staðfesta þau á hv. Alþingi.

Ég vil lýsa því hér yfir, að þó að þessi lög séu aðeins um niðurfellingu útflutningsgjalda á þessu ári, þá sagði ég, þegar ég fylgdi þessu frv. úr hlaði í Nd., að ég teldi að það kæmi mjög til greina að framlengja þessi ákvæði, og við afgreiðslu málsins í Nd. var gerð sú breyting að minni tillögu, að sjútvrh. er heimilt að fella sömu útflutningsgjöld niður á árinu 1978. Var sú till. og þetta frv. samþ. þar samhljóða.

Ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi að lengja frekar umr. um þetta, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.