16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

66. mál, fjárhagslegur stuðningur við fræðslustarfsemi MFA og bréfaskóla

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir þá greiðvikni að leyfa mér að mæla fyrir máli mínu í dag vegna þess að ég verð fjarverandi næstu vikur.

Ég hef á þskj. 72 leyft mér að flytja frv. til l. um fjárhagslegan stuðning við fræðslustarfsemi menningar- og fræðslusambands alþýðu og bréfaskóla. Meðflm. mínir eru hv. þm. Benedikt Gröndal og Magnús T. Ólafsson.

Við leggjum til í 1. gr. frv. að fræðsla, sem fram fer á vegum MFA, skuli hljóta ríkisstyrk sem nemi 75% af sannanlegum kostnaði.

Í öðru lagi leggjum við til að sú fullorðinsfræðsla, sem fer fram í formi bréfaskólakennslu, skuli hljóta ríkisstyrk er nemur 75% rekstrarkostnaðar svo og útgáfukostnaðar, enda hafi menntmrn. áður fallist á útgáfu kennsluefnis.

Um önnur atriði, svo sem lágmarksfjölda þátttakenda og kostnaðarviðmiðanir, leggjum við til að sett verði reglugerð og vitanlega þá í samráði við hlutaðeigandi aðila.

Það er kunnugt að á vegum MFA fer fram afar víðtæk fullorðinsfræðsla. Ég legg áherslu á að þetta er einn liður í þeirri fullorðinsfræðslu sem við höfum a.m.k. í orði talið að mikilvægt væri að styrkja ef jafnrétti til náms á að vera annað en orðin tóm.

Fræðsla, sem MFA hefur á sínum vegum, nær til allra félaga í verkalýðshreyfingunni. Hún fer fram í formi námskeiða í samvinnu við hin ýmsu félög, hún fer fram í formi námshópa eða fræðsluhópa, og svo er Alþýðusamband Íslands aðili að bréfaskóla ásamt öðrum verkalýðsfélögum og samvinnuhreyfingunni.

Eins og nú er, þá er kostnaði hagað þannig við fræðslu sem MFA rekur, að verkalýðsfélögin borga þátttökugjald fyrir félaga sína, en MFA ber annan kostnað við skólahaldið. Opinber framlög til skólans eru ákaflega smá. Í ár veitti ríkið skólanum 1 millj. kr., og í fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, er lagt til að hann fái 1300 þús. kr. á næsta ári. Þetta telur Alþýðusamband Íslands að sé allt of lágt að óbreyttum lögum. Hitt er annað mál, að Alþýðusamband Íslands batt miklar vonir við að frv, tii l. um fullorðinsfræðslu næði fram að ganga, þar sem viðurkenndur yrði réttur þessara aðila til að halda uppi fræðslustarfsemi. Á Norðurlöndunum, nágrannalöndum okkar, nýtur hliðstæð fræðsla víðtæks stuðnings og opinberrar viðurkenningar í formi ríflegra fjárframlaga. Má raunar segja að við séum ákaflega miklir eftirbátar þessara nágrannaþjóða okkar í þessum efnum.

Sú fræðsla, sem MFA veitir, er vitanlega frjáls fræðsla sem engan veginn er hægt að sveigja undir hið opinbera skólakerfi. Hitt er annað mál, og ég vil minna á það hér, að í lögum um skólakerfi, sem samþ. voru hér á hinu háa Alþingi um leið og grunnskólalögin voru samþ., er kveðið svo á að ákveða megi að skóli geti verið styrktur að hálfu eða meira af almannafé án þess þó að hann sé settur undir lagaákvæði um samfellt skólakerfi. Þetta ákvæði var einkum sett með hliðsjón af lýðskólum, námsflokkum og þeirri starfsemi sem ég er hér að ræða um. Segja má að Alþ. hafi þegar sett ein lög í samræmi við þessi ákvæði laga um skólakerfi og það séu lögin um lýðskólann í Skálholti, þar sem ríkið styrkir nú þann skóla með því að greiða 80% af rekstrarkostnaði. Það er því þegar fordæmi fyrir því, að frjáls fræðsla af þessu tagi njóti opinberra fjárframlaga.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér, að þjóðfélaginu ber tvímælalaust skylda til að styrkja þá fræðslustarfsemi sem Alþýðusambandið telur sér skylt og nauðsyn að veita félögum sínum. Ég þarf ekki heldur að fara mörgum orðum um það eða færa að því mörg rök, að fólk, sem er úti í atvinnulífinu, ber þungann af kostnaðinum við hið opinbera skólahald. Skýtur því nokkuð skökku við ef það á ekki að njóta góðs af neinu því sem þar er lagt til.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og menntmn. að lokinni þessari umr.