16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

28. mál, útvarpslög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það veittist hv. frsm. ákaflega auðvelt að rökstyðja þetta frv. sitt með orðum eins og tjáningarfrelsi og lýðræði, og býst ég ekki við að neinn færi að mótmæla því, að öll viljum við að lýðræði hér á landi sé sem fullkomnast og allir hafi jafnt frelsi til tjáningar og skoðanamyndunar, Hins vegar fannst mér lýsing hans á því, hvernig þessi mál eru að þróast í Svíþjóð, sýna kjarna eða eðli þessa máls betur en nokkuð annað. Þar kom fram, að hér er í rauninni um að ræða ekkert annað en kapphlaup milli fjármuna, milli opinberra fjármuna og einkafjármagns. Jafnhliða því að réttur til að reka útvarp var gefinn frjáls í Svíþjóð, eins og hann lýsti, þá hvílir sú skylda á ríkisfjölmiðlunum að lengja dagskrána og útvarpa frá fleiri stöðum en nú er. Þetta hlýtur því að þýða að rekstur útvarps verður miklu fjárfrekari en ef engin samkeppni er, og það er í samræmi við eðli samkeppni. Ég held að þegar djúpt er skyggnst sé hér ekki um það að ræða að fleiri fái frelsi til að tjá sig, heldur að einstaklingar fái frelsi til þess að verja fjármunum sínum til útvarpsrekstrar fremur en í eitthvað annað. Spurningin hlýtur að vera sú, hvort við getum tryggt tjáningarfrelsi, hvort við getum tryggt jafnræði allra í ríkisfjölmiðlum, hvort við getum aukið lýðræði með það form á útvarpsrekstri sem við höfum nú hér á Íslandi.

Ég vil fyrst nefna tvö atriði, sem ég tel að séu slíkri þróun þrándur í götu.

Í fyrsta lagi er það, að stjórnmálaflokkarnir skipa í útvarpsráð, og ekki bara það, heldur telja sumir stjórnmálaflokkar ekki annað fært en alþm. sitji í útvarpsráði. Í þessu efni, því sem ég nefndi síðast, hefur núv. ríkisstj. farið allt aðra leið en vinstri stjórnin. Vinstri stjórnin, eða þeir flokkar sem að henni stóðu, forðaðist að láta alþm. sitja í útvarpsráði. Slíkt fyrirkomulag ýtir undir það að ríkisfjölmiðlar, hljóðvarp og sjónvarp, hneigist til þess að halda fram skoðunum ríkjandi stjórnvalda og margt það, sem er uppi í þjóðfélaginu, þann og þann tíma, er kæft og nýtur hvorki jafnræðis né sannmælis.

Ég vil minna á það, að lögð var beinlínis áhersla á þetta fyrirkomulag þegar það útvarpsráð, sem vinstri stjórnin skipaði, var sett af um leið og ný ríkisstj. kom til valda. Þá þótti ekki lengur fært að hlíta lögum um útvarp, að útvarpsráð sæti út sitt kjörtímabil, heldur þurfti það að fylgja nýrri ríkisstj. og nýjum þingmeirihluta. Við þessar aðstæður segir sig sjálft að þeir, sem starfa við útvarp, finna til ákaflega mikils óbeins þrýstings. Nú geri ég ekki ráð fyrir að þeir, sem sitja í útvarpsráði, mundu vilja viðurkenna að þeir væru að gefa fyrirmæli, og ég er sannarlega ekki að bera þeim það á brýn, að þeir gefi bein fyrirmæli. En þetta fyrirkomulag hefur þau sálrænu áhrif á þá sem starfa við það. Það fer ekki hjá því, að þeir finni fyrir því og þetta hafi haft áhrif á störf þeirra.

Í sambandi við fréttir frá Alþ. og af stjórnmálum væri hægt að nefna mýmörg dæmi einmitt um það, að það virðist vera orðið annað eðli margra þeirra, sem starfa við sjónvarp, að telja að ekkert sé fréttnæmt nema það sem komi frá ríkisstj. og að stjórnarandstaðan hafi í rauninni ekkert fram að færa sem almenningur hafi áhuga á. Ákaflega fróðlegt væri að fá gagngera könnun á því, hvaða rúm stjórnarsinnar og ríkisstj. fá í sjónvarpi, og bera það svo saman við hlut stjórnarandstöðu í sama máli. Við höfum því miður mýmörg dæmi um það, að ekkert kemur fram nema skoðun ríkisstj. Þetta er í fyllsta máta ólýðræðislegt, því þó að einhverjir stjórnmálaflokkar hafi meiri hl. eitthvert kjörtímabilið, þá er langt frá því að allur almenningur, sem kostar þetta útvarp, sé þessu sammála. Skilyrði þess, að allur almenningur geti myndað sér skoðun, eru þau, að hann fái sem flestar hliðar mála fram.

Annað atriði vil ég nefna sem stríðir gegn því að ríkisfjölmiðlar geti gegnt því hlutverki sem við ætlum þeim. Það er æviráðning helstu embættismanna við þessar stofnanir. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að veitast hér að neinum þeim, sem nú situr í starfi, og hef ekki persónulega neina ástæðu til þess, en það á vitanlega að afmarka skýrt ráðningatímabil æðstu embættismanna þessarar stofnunar og dagskrárstjóra, þeirra sem hafa mest hönd í bagga með rekstrinum frá degi til dags. Þetta ætti að tryggja meiri fjölbreytni og meira lýðræði, getum við sagt, þ.e.a.s. að sjónarmið fleiri ættu þá einhvern tíma að koma fram eða tækifæri yrðu fyrir aðra.

Mér finnst sumt í þessu frv. jákvætt, en það gæti falist í núverandi formi. Ég held að afar nauðsynlegt sé að vinna að því, að Ríkisútvarpið komi upp sjálfstæðum stöðvum í hinum ýmsu landshlutum. Ég held að nauðsynlegt sé að veita t.d. sveitarfélögum, eins og hér er lagt til, sjálfræði um það að reka útvarpsstöðvarnar fyrir sinn landshluta, þar sem fólkið, sem þar býr, fær meira rúm heldur en það getur fengið í ríkisfjölmiðlum. Og ég held að það sé alveg rétt, að skoðanir þeirra Íslendinga, sem búa á þessu landshorni, fái meira rúm en skoðanir fólks úti á landi, og þar með fær auðvitað meiri þunga sá málflutningur sem héðan er runninn.

Ég vil líka benda á að í þessu frv, er gert ráð fyrir að menntastofnanir fái leyfi til útvarpsrekstrar. Ég er ekki sammála því, að menntastofnanir fái leyfi til sjálfstæðs útvarpsrekstrar. En ég held að það sé kominn tími til að við notum menntastofnanir og sjónvarp og hljóðvarp í sameiningu til þess að halda uppi kennslu, þeirri kennslu t.d. sem allir hafa ekki tök á að njóta, annaðhvort vegna persónulegra aðstæðna eða búsetu. Vissulega mætti hugsa sér að stöðvar, sem þannig yrðu reknar, hefðu einhverja tegund sjálfstjórnar, og þær yrðu auðvitað að hafa frjálsar hendur um dagskrá og efni, En ég efast um að slíkar stöðvar væri hægt að reka án þess að þær væru fjármálalega séð undir sömu yfirstjórn og Ríkisútvarpið.

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég endurtek, að ég er andvíg frv. eins og það liggur fyrir nú, en tel rétt að athuga þá möguleika sem ríkisfjölmiðlarnir hafa til þess að dreifa valdi sínu út til sveitarfélaga og menntastofnana.