16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

28. mál, útvarpslög

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með flm. þessa máls, hv. 6. landsk. þm., að ég tel tímabært að athugað verði hvort ekki er nú svo málum háttað að reynandi sé að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem ríkt hefur frá því að Ríkisútvarpið tök til starfa, að það hafi einkaleyfi til útvarps- og síðan sjónvarpsrekstrar í landinu. Hins vegar er ég ekki víss um að þær leiðir, sem hv. flm. bendir á, séu að öllu leyti ákjósanlegar.

Meginefnisatriðið, sem gerir eðlilegt að endurskoða þá skipan, sem komið var á með einkaleyfi Ríkisútvarpsins, er tvímælalaust að framfarirnar í útvarpstækni hafa orðið stórstigar og það er ekki ýkjakostnaðarsamt að reka stöðvar, sem nota örbylgjutækni til þess að koma útvarpsefni frá sér til takmarkaðra svæða. Öðru máli gegnir um sjónvarpstæknina. Þar er rekstrarkostnaður með allt öðrum hætti og tækjakostur og miklu torveldara að koma upp í landi eins og okkar og með jafnfámennri þjóð kerfi sjálfstæðra sjónvarpsstöðva.

Það er almennt viðurkennt að í flestum löndum nálægt okkur í Evrópu varð skipan útvarpsrekstrar að verulegu leyti samkv. fordæmi sem skapaðist í Bretlandi þegar Breska ríkisútvarpið tók til starfa. Nú er nokkuð liðið á annan áratug, líklega farið að nálgast tvo áratugi, síðan einkaleyfi Breska ríkisútvarpsins var afnumið og þar komið upp sjálfstæðum útvarps- og sjónvarpsrekstri með allflóknu kerfi sem ekki þarf að lýsa hér frekar. Þessi breyting í Bretlandi hefur síðan dregið dilk á eftir sér, aðrir hafa farið að þessu fordæmi, eins og frsm. lýsti að nokkru.

En til er önnur fyrirmynd sem ekki breiddist út eins og sú breska. Það er hollenska fyrirmyndin. Þar hefur útvarps- og síðan sjónvarpsrekstri verið háttað á þann veg, að frá sendistöðvum, sem eru í ríkiseign eða einkaaðila, hafa allir aðilar, sem fullnægja ákveðnum skilyrðum, haft rétt á að fá sendingartíma og útbúa dagskrár á eigin ábyrgð. Þar hafa komið mest við sögu stjórnmálaflokkar og trúfélög í Hollandi, en formlega er ekkert því til fyrirstöðu að hver sem er geti safnað um sig þeim hópi í hlustendafélagi sem gefi honum rétt á að fá aðgang að útsendingarkerfinu með þá dagskrá sem hann undirbýr. Þannig er hægt að leita fleiri fyrirmynda en frsm. benti á.

Það, sem ég tel varhugavert við það kerfi sem upp á er stungið, er að mér virðist að þar sé skrefið ekki stigið nema til hálfs til að rýmka frá því einkaleyfiskerfi sem nú ríkir. Þar er gert ráð fyrir mjög ríkri þátttöku Ríkisútvarpsins og stjórnaraðila þess um útvarps- og sjónvarpsrekstur í heild í landinu, þótt nokkur kerfisbreyting verði á. Það liggur t.a.m. í hlutarins eðli að hinar langdrægu stöðvar yrðu mjög fáar vegna þess hversu háttað er úthlutun tíðnisviða. Því yrði mjög erfitt og viðkvæmt mál að úthluta slíkum leyfum sem hér er gert ráð fyrir að sé alfarið á valdi ráðh., að fenginni umsögn aðila sem í raun og veru tilheyra Ríkisútvarpinu eftir sem áður. Það, sem ég tel að þurfi að gera, er að athuga þetta mál og finna eðlilegt fyrirkomulag sem geri rekstur sjálfstæðra stöðva með sjálfstæða dagskrárstjórn og dagskrárgerð mögulegan úti á landsbyggðinni. Ég tel höfuðatriði að þær stöðvar starfi í dagskrárgerð sinni eftir almennum reglum og þurfi ekki að leita með sín mál forsjár eða úrskurðarvalds hjá þeim aðilum sem stjórna Ríkisútvarpinu, sem gert er ráð fyrir og hlýtur að verða rekið eftir sem áður, enda þótt þar kæmu til fleiri aðilar en nú er. En þeir aðilar þurfa að vera sjálfstæðir og hafa ákvörðunarrétt eftir almennum reglum um dagskrárgerð sína. Annars er ekki náð því markmiði sem fyrir flm. vakir með því að taka upp þetta mál.