16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

28. mál, útvarpslög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að bæta nokkrum orðum við þessar umr.

Hv. síðasti ræðumaður tók allvel þessu frv. og sagði margt skynsamlegt og í samræmi við það sem flm. þessa frv. ber fyrir brjósti þegar hann flytur frv. um að einkarekstur útvarpsins verði ekki lengur í höndum ríkisins. Hvað mundu Íslendingar segja, ef ríkið hefði einkarétt á ú:gáfu blaða og enginn mætti gefa út dagblað eða vikublað á Íslandi annar en ríkið? Það er að vísu þannig í kommúnistaríkjunum, eins og Sovétríkjunum, en hvað mundu Íslendingar segja við slíku?

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði orð sem vöktu mikla furðu hjá mér, en mér finnst að sé best að fylgja eftir og láta rannsaka. Hún segir, að síðan núv. útvarpsráð tók við af útvarpsráði vinstri stjórnarinnar hafi yfirleitt ekki verið um að ræða annað — ég hef nú ekki skrifað þetta eftir henni svo að ég tek bara aðalefni málsins — en að það, sem heyrðist í Ríkisútvarpinu, væri frá ríkisstj. Má nú ekki af þessari ástæðu fela Ríkisútvarpinu rannsókn á því, hvernig dagskráin var, hversu oft komu t.d. ráðh. vinstri stjórnarinnar fram í útvarpi, hversu oft tilkynningar frá ríkisstj., vinstri stjórninni, og miða svo við það sem hefur gerst nú í seinni tíð? Það er augljóst mál þeim, sem nokkuð hafa fylgst með rekstri útvarpsins, að hér varð auðvitað gerbreyting á frá því sem var þegar vinstri stjórnin var við völd. Þá var alltaf útvarpað því sem ríkisstj. var með á prjónunum og ráðh. voru mjög oft í útvarpinu og miklu oftar en áður hafði tíðkast, a.m.k. í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og tíðkast hefur í seinni tíð. Um þetta er ekki ástæða til þess að vera að deila hér, en þetta má rannsaka, það væri þess virði. En ég er sammála því, sem fram hefur komið hjá hv. síðasta ræðumanni, að auðvitað er margt sem ber að athuga í sambandi við frjálsan útvarpsrekstur.

Ég byrjaði á því að tala um hvað menn segðu um það, ef ríkið eitt hefði heimild til þess að gefa út blöð. En hvenær kæmi að því, að Samband ísl. samvinnufélaga fengi að útvarpa, ef það væri heimilt? Er það ekki viða að verki? Það er á verslunarsviðinu, það er á iðnaðarsviðinu, það er á flugsviðinu, það er í hótelrekstrinum og á mörgum öðrum sviðum sem ég þarf ekki að telja upp. Það þyrfti auðvitað að tryggja um leið, að stórrekstur eða einkarekstur einkafyrirtækja gæti ekki átt hér einkaaðstöðu. M.ö.o.: Það þyrfti að setja hér löggjöf svipaða og er í öðrum lýðræðisríkjum til að hamla gegn því að yfirtökin á einstökum sviðum kæmust í hendur einstakra aðila, stóraðila fyrst og fremst, eins og er nú orðið hér á landi og tekur engu tali.

Þar á ég við það ófrelsi, sem er hér, eða forréttindin, sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur miðað við einstaklinga í atvinnurekstri. Þeir eru líka á bankamálasviðinu og tryggingamála o.s.frv., o.s.frv. En það snertir ekki beint þetta mál, svo að ég skal ekki fara lengra út í það í bili.

Ég vil ítreka og láta það verða mín lokaorð, því að mér skilst að ekki sé svo ýkjamikil seta þm. undir þessum umr., að núv. útvarpsráð taki sér fyrir hendur að rannsaka það sem haldið var fram hér af einum hv. þm., að einhverjar breytingar hafi átt sér stað í þá átt að Ríkisútvarpið væri nú miklu fremur en áður á sviði þeirra mála sem snertu ríkisstj. og vörðuðu hana. Ég man eftir því, að þegar vinstri stjórnin var ofbauð mér alveg hversu Ríkisútvarpið var í höndum ríkisstj. og hversu oft ríkisstj. eða fulltrúar ríkisstj. voru í Ríkisútvarpinu. En eins og ég sagði, þetta getur verið rangt hjá mér. En þá er ekkert annað en rannsaka þetta og fá hreinlega úr þessu skorið og það á að vera hægt. Og ég skora á núv. útvarpsráð að taka sér það fyrir hendur og gera síðan Alþ. grein fyrir hvernig niðurstaðan af slíkri rannsókn verður.