16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

25. mál, almannatryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Sem einn af samningsaðilum verkalýðshreyfingarinnar í tryggingamálum, sem frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, sem hér liggja fyrir, fela í sér, lýsi ég yfir stuðningi við þau. Ég vil þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þátttöku hennar á s.l. tveim árum í því að greiða fyrir samkomulagi um lífeyrismál sem horfir til framfara í þessum málum. Það hefur nú gerst tvívegis frá því í ársbyrjun 1976, svo sem ég mun rekja nokkuð.

Í upphafi er vert að vekja athygli á því, að það var ekki fyrr en með samningum verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda hinn 28. febr. 1976 sem fyrsta skrefið var stigið til að verðtryggja almennan ellilífeyri. Ríkisstj. átti veigamikinn þátt í því, að samkomulag um þetta tókst, og var aðill að því. Án aðildar hennar að málinu tel ég að þessir áfangar hefðu ekki náðst. Nægir í því sambandi m.a. að benda á að ríkissjóður er einn helsti greiðandi þeirra tryggingabóta sem samkomulag þetta og framlögð frv. ná til, og mun ég víkja að því hér á eftir.

Ég hef einnig athugað nokkuð hversu mikil kjarabót til handa ellilífeyrisþegum felst í þeirri leið sem farin var í upphafi ársins 1976 að því markmiði að verðtryggja ellilífeyri. Ég mun víkja að því síðar í ræðu minni, en vil segja strax, að ég hefði þó heldur kosið að hv. Alþ. og aðilar vinnumarkaðarins hefðu fallist á þá leið að tryggja öllum ellilífeyrisþegum verðtryggðan elli- og örorkulífeyri á grundvelli frv. til l. um Lífeyrissjóð Íslands sem ég lagði fram á Alþ. í ársbyrjun 1976. En að svo stöddu get ég sætt mig við þá áfanga sem þau frv. fela í sér sem hér eru til umr. Hins vegar hlýt ég að lýsa yfir því, að mér finnast þessir áfangar ekki fullnægjandi og fjarri því lokamarkmiði sem ég vil að nái fram að ganga hið fyrsta vegna örorku- og ellilífeyrisþega, sem er fullur verðtryggður ellilífeyrir á grundvelli ævitekna. Ég harma það, hvað þessi mál hafa mætt — ég vil segja tiltölulega miklu tómlæti á hv. Alþ. og þá almennt talað. Ég minnist þess, að þegar ég lagði fram frv. mitt um Lífeyrissjóð Íslands í febr. 1976 voru umr, litlar um málið. Það hafði þó ákveðna þýðingu fyrir framþróun lífeyrismála í landinu og framkallaði miklar umr. um þessi mál í þjóðlífinu og m.a. innan verkalýðshreyfingarinnar og samtaka vinnuveitenda sem fjölluðu um þessi mál um svipað leyti.

Ég er enn sannfærður um að frv. um Lífeyrissjóð Íslands fól í sér hina einu réttu leið í þessu máli, því að þótt bráðabirgðasamkomulag sé gott í bili felur það ekki í sér megingrundvöll að endanlegri lausn þessara mála, auk þess sem núverandi kerfi almannatrygginga og trygginga lífeyrissjóðanna er að verða slíkur frumskógur að enginn venjulegur maður fær skilið það án aðstoðar sérfræðinga. Ég lét gera skrá yfir allar þær bætur, sem til greina koma í almannatryggingakerfinu, hjá umsjónarnefnd eftirlauna og hjá lífeyrissjóðunum, alþm. til fróðleiks og ætta að lesa hana hér upp til þess að sýna hversu erfitt hlýtur að vera fyrir gamalt fólk og öryrkja að gera sér grein fyrir því, hvað felst í þessu kerfi.

Þær bætur sem koma frá almannatryggingum eru: ellilífeyrir, örorkulífeyrir, örorkustyrkur, makabætur, barnalífeyrir látinna, barnalífeyrir örorkulífeyrisþega, barnalífeyrir ellilífeyrisþega, barnalífeyrir ófeðraðs barns og vegna fanga, mæðra- og feðralaun, ekkilsbætur í 6 mánuði, ekkjubætur í 12 mánuði, ekkjulífeyrir, tekjutrygging, einstaklingsuppbót, uppbót á elli- og örorkulífeyri, slysadagpeningar, slysa- og örorkulífeyrir, slysa- og makalífeyrir vegna örorku lífeyrisþega, slysa-barnalífeyrir, ekkilsbætur 8 ár vegna slysadauða, ekkilslífeyrir vegna örorku- og slysadauða, barnalífeyrir vegna slysadauða, sjúkradagpeningar.

Lífeyrir frá umsjónarnefnd eftirlauna er þessi: ellilífeyrir, örorkulífeyrir, makalífeyrir, uppbót á ellilífeyri, uppbót á örorkulífeyri, uppbót á makalífeyri.

Svo komum við að lífeyrissjóðunum og þá er listinn sem hér segir: ellilífeyrir, örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnalífeyrir, verðbætur á ellilífeyri, verðbætur á örorkulífeyri, verðbætur á makalífeyri, verðbætur á barnalífeyri og annað.

Af þessum upplestri sést að það er brýn nauðsyn að einfalda þetta kerfi, gera það aðgengilegt fyrir almenning í landinu, auk þess sem þarf að gerbreyta tryggingagrundvellinum með stóraukinni verðtryggingu.

Skal þá vikið nokkuð að þeim áföngum sem unnist hafa á s.l. tveim árum í aukinni verðtryggingu ellilífeyris til hins almenna launamanns, en í samkomulaginu frá 22. júní, sem er í beinu framhaldi af samkomulaginu frá því í ársbyrjun 1976, felast eftirtaldar breytingar frá lífeyrissjóðssamkomulaginu sem gert var 28. febr.

1. Það er um að ræða bráðabirgðaráðstafanir um sérstaka uppbót fyrir þá lífeyrisþega sem njóta lífeyris samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Þessar ráðstafanir eru framlengdar um tvö ár, þ.e.a.s. til ársloka 1979.

2. Um er að ræða nýskipan lífeyriskerfisins sem mun taka gildi 1. jan. 1980 í stað 1. jan. 1978.

3. Frá og með 1. jan. 1977 skulu uppbótargreiðslur breytast ársfjórðungslega í stað tvisvar á ári.

4. Gert er ráð fyrir verðtryggingu lífeyris þeirra lífeyrissjóða á samningssviði aðila sem ekki eiga rétt samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum.

5. Frítekjumark tekjutryggingar hækkar úr 120 þús. kr. á ári í 180 þús. kr. fyrir einhleyping og úr 168 þús. kr. á ári fyrir hjón í 252 þús. kr. Hækkunin nemur 50%.

6. Lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum er hreytt á þann veg, að heimilt er að greiða fólki, sem búið hefur í óvígðri sambúð svo árum skiptir, makalífeyri á sama hátt og um ekkjur eða ekkla væri að ræða.

7. Tekin er upp sérstök heimilisuppbót á lífeyri allra einhleypra tekjutryggingarþega. Heimilisuppbótin nemur óskert 10 þús. kr. á mánuði.

8. Tryggt er að fólk, sem lýkur starfsævi sinni í þjónustu hins opinbera, fær sama lágmarksrétt og lög um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum og samkomulag aðila færa þeim sem þeirra njóta.

Af því, sem að framan er sagt, er óhætt að segja að töluvert hafi áunnist. En það hefur ekki komið fram, hvorki í framsöguræðu ráðh. né opinberlega, hvaða breytingar raunverulega felast í þessu með tilliti til þess ef samkomulag hefði ekki náðst um auknar tryggingar. Það er auðvitað atriði út af fyrir sig sem er mjög æskilegt og nauðsynlegt að hv. þm. hafi í huga þegar fjallað er um þetta frv. Einnig hef ég orðið var við að enginn slíkur samanburður hefur verið gerður til þess að kynna almenningi. Í stórum dráttum felst eftirfarandi í þessu samkomulagi, og mun ég taka nokkur dæmi þessu til glöggvunar:

Sem fyrr segir var samkv. samningnum 28. febr. 1976 tekin upp uppbót á lífeyri frá umsjónarnefnd, þ.e.a.s. miðað er við grundvallarlaun 4. taxta Dagsbrúnar 1. jan. og 1. júlí í stað meðaltals grundvallarlauna síðustu 5 ára. Þannig var samkomulagið 1976. Í framhaldi af því og á grundvelli þeirra samninga, sem gerðir voru núna, er vert að hafa í huga að frítekjumark almannatrygginga hækkaði úr 3865 kr. í 10 þús. á mánuði fyrir einstaklinga og úr 6955 kr. fyrir hjón Auk þess var tekinn upp örorkulífeyrir frá umsjónarnefnd. Þetta voru sem sagt grundvallaratriðin í samkomulaginu frá 28. febr. 1976.

Samkv. samningum 22. júní 1977 á að miða lífeyri umsjónarnefndar við grundvallarlaun fjórum sinnum á ári, þ.e.a.s. 1. jan., 1. apríl, 1. júlí og 1. okt. 1977, 1978 og 1979. Þá var gefið fyrirheit um að frítekjumark almannatrygginga yrði hækkað í 15 þús. kr. fyrir einstakling og 21 þús. kr. fyrir hjón. Uppbótin hækkar lífeyri umsjónarnefndar núna, þ.e.a.s. frá 1.7. 1977, um 153%. Mun ég nú koma með dæmi og tek það sem ég kalla algert dæmi.

Það er ellilífeyrisþegi, einhleypur, án eigin tekna og án lífeyris úr lífeyrissjóði. Með samkomulaginu fær þessi maður miðað við 1. 7. 1977 86897 kr., en hefði samkomulag ekki verið hefði hann aðeins fengið 63888 kr., hér er sem sagt um að ræða 36% grundvallarhækkun á tryggingum hans. Til fróðleiks get ég getið þess, að með samkomulaginu fær þessi ellilífeyrisþegi, einhleypur maður, 10 þús, kr. frá umsjónarnefnd, 16 300 kr. sem uppbót frá umsjónarnefnd, 30497 kr. sem er ellilífeyrir almannatrygginga, tekjutryggingin er 21100 kr. og fjölskylduuppbót 10 þús. kr. Án samkomulags hefði hann ekkert fengið frá umsjónarnefnd og enga fjölskylduuppbót.

En hvaðan kemur fjármagnið? Fjármagnið kemur í fyrsta lagi frá ríkissjóði 55 473 kr., það eru 63.8%, frá lífeyrissjóði 15 300 kr., sem er 17.6%, frá Atvinnuleysistryggingasjóði 7500 kr., sem er 8.6%, og frá atvinnurekendum 8624 kr., eða 10%. Samtals eru þetta 86897 kr. Hafi lífeyrisþeginn lífeyri frá lífeyrissjóði kemur sá lífeyrir til frádráttar lífeyri frá umsjónarnefnd og breytast lífeyristekjur lífeyrisþegans því ekki nema lífeyrir fari yfir 10 þús. kr.

Skal ég þá koma með annað dæmi. Hér er um stórar tölur að ræða, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og fyrir þjóðina í heild. Fyrir hvern einstakling, sem þarf að byggja á þessu, skiptir það miklu máli hver upphæðin er, og fyrir þjóðfélagið er um að ræða hundruð millj. í þessum dæmum.

Ellilífeyrisþegi án eigin tekna: Með samkomulaginu fengi hann 89147 kr., án samkomulagsins fengi hann 66138 kr. Skiptingin er sem hér segir hjá þessum aðila: Með samkomulaginu fær hann sem uppbót frá umsjónarnefnd 15 300 kr., lífeyri frá lífeyrissjóði 15 þús. kr., ellilífeyri almannatrygginga 30491 kr., tekjutryggingu 18 350 kr., fjölskylduuppbót 10 þús. kr. Án samkomulags fengi viðkomandi maður aðeins 66138 kr. sem mundu skiptast þannig: Lífeyrissjóðurinn hefði greitt 15 þús., almannatryggingar 30491 kr. og tekjutryggingin hefði orðið hjá honum 20 641 kr. Hækkun vegna samkomulags hjá þessum ellilífeyrisþega er sem sagt 34.8% á grundvelli þess samkomulags sem ríkið og samningsaðilar vinnumarkaðarins gerðu til aukinna trygginga fyrir ellilífeyrisþega.

Fjármagnið í þessu tilviki mundi skiptast sem hér segir: Frá ríkissjóði 50 608 kr., eða 56.8%, frá lífeyrissjóði 30 800 kr., eða 34%, og frá vinnuveitanda 8239 kr., eða 9.2%, samtals 89147 kr. Ef lífeyrisþeginn hefur eigin tekjur koma 55% þeirra til frádráttar tekjutryggingunni, þar til hún er uppurin. Sem dæmi vil ég nefna ellilífeyrisþega með 38 þús. kr. á mánuði sem eigin tekjur og með lífeyri úr lífeyrissjóði. Eftir samkomulaginu mundi dæmið líta þannig út hjá þessum manni: Uppbót frá umsjónarnefnd 15 300 kr., ellilífeyrir úr lífeyrissjóði 15 þús. kr., ellilífeyrir almannatrygginga 30 497 kr., fjölskylduuppbót 10 þús. Það eru þessar 10 þús. sem gert var sérstakt samkomulag um vegna einhleypinga. Samtals eru þetta 70 797 kr. En hvernig hefði þetta dæmi litið út fyrir viðkomandi einstakling ef umrætt samkomulag hefði ekki tekist? Hann hefði aðeins fengið úr lífeyrissjóði 15 þús, kr. og frá almannatryggingum 30 427 kr., eða 45 497 kr. Samtals hækkar því ellilífeyrir þessa aðila um hvorki meira né minna en 55.6%. Fjármagnið í þessu dæmi mundi koma frá aðilum, sem hér segir: Frá ríkissjóði 34827 kr., eða 49.2%, frá lífeyrissjóði 30 300, eða 42.8% og frá vinnuveitanda 5670 kr., eða 8%. Samtals eru það 70 797 kr.

Að síðustu ætla ég að koma hér með eitt dæmi um giftan lífeyrisþega án eigin tekna og án lífeyris úr lífeyrissjóði. Geri ég þá ráð fyrir að maki hafi ekki rétt frá umsjónarnefnd eða eigin tekjur. Samtals mundi lífeyrir hjóna, sem þannig væri ástatt um, vera sem hér segir eftir samkomulaginu: Ellilífeyrir frá umsjónarnefnd 10 þús. kr., uppbót 15 300 kr., ellilífeyrir almannatrygginga 54 895 kr., tekjutrygging 42 881 kr., eða samtals 123 076 kr. Án .samkomulags hefðu þessir aðilar fengið 108 466 kr., þannig að hækkunin er 13.5% á tekjugrundvelli þessa fólks.

Fjármagnið, sem kemur til að greiða þetta, skiptist í þessu dæmi sem hér segir: Frá ríkissjóði 86 987 kr. eða 70.4%, frá lífeyrissjóði 15 300, eða 12.4%, frá Atvinnuleysistryggingasjóði 7500 kr., eða 6.1% og frá vinnuveitendum 13689, eða 11.1%, samtals 123076 kr.

Mér hefur orðið tíðrætt um þetta, taldi það enda skyldu mína að koma með dæmi um þetta mál fyrir hv, Alþ. til þess að skýra enn betur hvað hér er um að ræða.

Ég efast ekki nm vilja Alþ. til að samþykkja þau frv. sem hér liggja fyrir, enda hafa þau yfirleitt gengið greiðlega í gegnum þingið, gengu greiðlega í gegnum þingið á sínum tíma, þegar bráðabirgðasamkomulag var samþykkt vegna samninganna í ársbyrjun 1976. Hins vegar hlýtur að vera æskilegt að þm. fái sem gleggstar upplýsingar um hvað felst í þeim lögum sem þeir eru að samþykkja.

Ég endurtek, að af því, sem ég hef þegar sagt, kemur í ljós að mikið hefur áunnist í þessum málum fyrir þá lífeyrisþega sem eru aðilar að óverðtryggðum lífeyrissjóðum. Án samkomulags ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins væri staða þeirra núna mun lakari. Það má því segja að stefnan er góð, en hraðinn að settu marki mætti vera meiri. Beini ég þessum orðum mínum ekki hvað síst til aðila vinnumarkaðarins og hv. þm. sem hafa það náttúrlega á valdi sínu hvort þeir vilja taka upp þráðinn á grundvelli þessa frv. sem ég lagði fram á sínum tíma og að sjálfsögðu er hægt að endurflytja.

En það er eitt atriði sem mér hefur alltaf fundist vanta inn í umr. um þetta mál þegar frv. um staðfestingu bráðabirgðasamkomulags um auknar lífeyristryggingar hafa verið hér til umr., og það er að hv, þm. hafa ekki verið upplýstir um það, hvernig þeir peningar skiptast sem koma frá lífeyrissjóðunum sjálfum til umsjónarnefndar, þ.e.a.s. í hinn sameiginlega tryggingasjóð. Ég tel að hv. alþm, ættu raunverulega að hafa hér fyrir framan sig lista yfir þá sjóði sem greiða í þennan sameiginlega lífeyrissjóð sem að vissu marki er fyrsti vísirinn að landssjóði, þó að hann eigi eingöngu við þá sem eru aðilar í stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins. En hann gefur ákveðna ábendingu um hvað hægt er að gera með sameiginlegu átaki. Ég tók þess vegna með mér þennan lista, sem er ekki trúnaðarmál, fyrir hv. alþm. þeim til upplýsingar, þ.e.a.s. það er bráðabirgðayfirlit eða réttara sagt bráðabirgðauppgjör umsjónarnefndar eftirlauna á greiðslu uppbótar á eftirlaun aldraðra. Það er uppgjör sem sýnir hver eru áætluð iðgjöld þeirra sjóða, sem standa að þessari sameiginlegu tryggingu, og hvernig þessar greiðslur skiptast á einstaka sjóði. Þetta er ekki óverulegt atriði, heldur mjög þýðingarmikið. Það vill svo til að sumir okkar, sem hér erum á hv. Alþ., eru aðilar að sumum þessara sjóða og það er æskilegt að fram komi hvernig þessi skipting er, m.a. með tilliti til þess að undirstrika þann vilja sem ég tel að hafi komið fram af hálfu þess fólks, sem myndar þessi verkalýðsfélög, til þeirrar leiðar sem við erum hér að fjalla um með framlagi ríkissjóðs.

Samkv. þessu bráðabirgðauppgjöri umsjónarnefndar fyrir árið 1976 er gert ráð fyrir að iðgjöld umræddra lífeyrissjóða verði á árinu 1976 3 mill jarðar 849 millj. kr. Áættað framlag lífeyrissjóðanna til umsjónarnefndar er 239.6 millj. og skiptist mjög misjafnt á sjóðina, þ.e.a.s. hvort fólk í þeim verkalýðsfélögum, sem standa að sjóðunum, er viðtakendur eða greiðendur í þeirri samábyrgð sem hér um ræðir. Sem dæmi má nefna að sumir lífeyrissjóðir greiða stórar upphæðir í þennan sameiginlega tryggingasjóð okkar á sama tíma sem önnur félög eru stórir viðtakendur og er það sjálfsagt og eðlilegt. Á því byggist samhjálpin um samtrygginguna. Sem dæmi vil ég nefna að Lífeyrissjóður verslunarmanna borgar 19.5 millj, kr. meira inn í sjóðinn en hann tekur út eða greitt er til þeirra bótaþega sem eru þarna aðilar að, en Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar fær aftur vegna sinna félagsmanna umfram það, sem hann greiðir, 22.3 millj. kr. Er þetta mjög skiljanlegt og eðlilegt, vegna þess að í þeim stéttarfélögum, sem standa að Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar, er mun eldra fólk en t.d. það fólk sem fellur undir lífeyrissjóð verslunarmanna, og það er sjálfsagt og eðlilegt, enda hefur afstaða verið tekin í þessum félögum með þeim hætti, að gert hefur verið hinum yngri að greiða þarna inn í tryggingasjóðinn til þess að styrkja þá eldri, og er það góðra gjalda vert. Þá má einnig geta þess að lífeyrissjóður sjómanna kemur með framlag upp á 16 millj. umfram það sem er greitt til baka til tryggingaþega sem hafa verið í þessum sjóði. Þá má einnig geta þess, að í Lífeyrissjóð samvinnustarfsmanna eru greiddar 10.6 millj. kr. Fleiri dæmi mætti nefna. Ég tel sjálfsagt og hefði raunverulega talið æskilegt að þessi listi lægi hér frammi, svo að hv. þm. gætu kynnt sér hann, því að skoðun mín er sú, að við séum nú raunverulega komnir á það stig í þessum málum að undan því verði ekki komist að hv. alþm. taki þessi mál fastari tökum og kynni sér þau til hlítar.

Að endingu vil ég segja þetta: Þau mál, sem við erum hér að fjalla um, snerta hvorki meira né minna en 21800 manns, miðað við lífeyrisþega 1. jan. 1977, þannig að hér er um stórmál að ræða, bæði gagnvart þeim mikla fjölda lífeyrisþega, sem hér eiga beinan hlut að máli, og svo einnig gagnvart þjóðinni í heild sem hlýtur að taka æ ríkari þátt í lausn þeirra mála sem hér eru til umr.

Ég hef, herra forseti, tekið nokkuð langan tíma í að ræða þessi mál. Ég geri það vegna þess að ég tel sjálfsagt og eðlilegt að þau séu rædd ítarlega og í beinu samhengi við þann hugsanlega möguleika sem kom fram í því frv. sem ég lagði fram á sínum tíma um Lífeyrissjóð Íslands, sem er um það að koma á einu allsherjar lífeyrissjóðskerfi, þar sem allir lífeyrisþegar búa við sambærileg kjör.