17.11.1977
Sameinað þing: 19. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

30. mál, skipulag orkumála

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 30 flyt ég ásamt 12 öðrum þm. Framsfl. till. til þál. um skipulag orkumála. Till. þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að stefna skuli að jöfnun orkukostnaðar um land allt. Í því skyni skal lögð áhersla á að tengja saman raforkukerfi einstakra landshluta og tryggja þannig sem hagkvæmastar framkvæmdir og rekstur með samkeyrslu allra orkuvera og dreifikerfa. Í þessum tilgangi skal stefnt að eftirgreindu skipulagi orkumála:

1. Unnið verði að því að koma á fót einu fyrirtæki, sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta. Ríkisstj. taki í þessu skyni upp samninga við Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafveitu Vestmannaeyja, Rafveitu Siglufjarðar og aðrar rafveitur, sem eiga og reka orkuver, um sameiningu slíks rekstrar í einni landsveitu. Aðilar að þessu fyrirtæki og stjórn þess verði ríkissjóður og landshlutaveitur. Eignarhluti ríkissjóðs skal aldrei vera minni en 50%. Fyrirtækið undirbýr virkjanir og lætur virkja.

2. Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum, sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna. Þær sjá um framkvæmdir sem nauðsynlegar eru vegna viðkomandi rekstrar. Aðilar að slíkum landshlutaveitum og stjórnum þeirra verði sveitarfélögin og landsveitan.

3. Orkustofnun verði ríkisstj. til ráðuneytis um orkumál og annist upplýsingasöfnun hvers konar um orkulindir þjóðarinnar, geri áætlanir um nýtingu þeirra og annist frumrannsóknir fyrir virkjanir. Orkustofnun veiti landsveitunni og landshlutaveitum nauðsynlega þjónustu.“

Eins og fram kemur í grg. með þáltill. þessari byggist hún á samþykkt aðalfundar miðstjórnar Framsfl. vorið 1976, sem undirbúin var af sérstakri n, sem flokkurinn setti á fót haustið 1975 til að ræða og gera till. um skipulag orku mála.

Áður en ég kem nánar að efni till. þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um nokkur grundvallaratriði í orkumálum þjóðarinnar.

Oft er það nefnt að orkan í fallvötnum og jarðvarma sé ein mesta auðlind sem við eigum, og verður það ekki dregið í efa. Talið er að vatnsorkan, sem nýtanleg er, sé nálægt 35 þús. gwst. á ári, en hins vegar mun af hagkvæmniástæðum varla unnt að gera ráð fyrir að nýttar verði fleiri en 28 þús, gwst. á ári. Að öllum líkindum mun það takmarkast þó nokkuð meira af náttúruverndarsjónarmiðum. Ekki hefur enn verið tekin afstaða til nýtingar margra stórra orkulinda, margra fallvatna frá sjónarmiði náttúruverndaraðila. Þetta þarf að sjálfsögðu að gera og mun að öllum líkindum takmarka nokkru meira en ég hef nú nefnt nýtingu vatnsorku landsins.

Varmaorkan er talin vera um 80 þús. gwst. á ári. Hins vegar er það stærð sem er langtum óákveðnari en vatnsorkan, stórum erfiðara að gera sér grein fyrir magni varmaorkunnar. Einnig er nýting varmaorkunnar að ýmsu leyti óákveðnari en nýting vatnsorkunnar. Fer það mjög eftir því til hverra hluta varmaorkan er notuð. Varmaorka nýtist best til upphitunar, t.d. til upphitunar íbúðarhúsa, þar sem má fá fram 80% nýtingu, jafnvel enn betur við sérstakar aðstæður. Hins vegar er varmaorkan nýtt til raforkuframleiðslu, en nýtingin stórum minni, varla yfir 10% nema sérstakar aðferðir séu notaðar, sérstök tækni, sem er þá allkostnaðarsöm, en getur hins vegar vel komið til greina,

Vatnsorka landsins er nokkuð dreifð, en þó mest á tveimur svæðum, þ.e. sunnanlands eða suðvestanlands á Þjórsár- og Hvítársvæðinu, þar sem eru nálægt 16 þús. gwst. á ári virkjanleg orka, og síðan á Norðausturlandi. þar sem þessi tala er í kringum 8 þús. gwst, Önnur stór fallvötn eru þar í nágrenninu, t.d. Jökulsá á Fjöllum með nálægt 2 þús, gwst, ef allt er talið, Blanda með nm 1200 gwst., en annað er yfirleitt smærra.

Um varmaorkuna er það að segja, að hún skiptist í fyrsta Iagi í lágvarma sem er ekki gufuorka, og síðan í hávarmasvæði sem eru talin um 16 á landinu, og langsamlega mestur hluti af þessari varmaorku er að sjálfsögðu í háhitasvæðunum. Þau fylgja nokkuð jarðfræðilegu eldfjallabelti landsins, þ.e.a.s. frá Suðvesturlandi til Norðausturlands. Sum þeirra eru heldur óaðgengileg, eins og Torfajökulssvæðið, sem er það langsamlega stærsta jafnframt. Slíkt svæði verður að öllum líkindum fyrst og fremst nýtt til orkuframleiðslu.

Af þessari orku allri eru nú nýttar um það bil 3200 gwst. af vatnsafli sem nú eru vélar til að nýta, og er þá Sigalda með 800 gwst. talin með. Þetta eru um það bil 11.5% nýtanlegrar vatnsorku, þ.e.a.s. miðað við 28 þús. gwst., og hef ég þá ekki tekið tillit til að hvaða leyti það kann að vera skorið niður vegna náttúruverndarsjónarmiða.

Nýting jarðvarma er um það bil 3500 gwst. á ári, verg, en líklega fást úr því um það bil 2 þús. gwst. Þar er hins vegar aukning allhröð með hitaveitum sem nú eru í undirbúningi, t.d. á Suðurnesjum og Akureyri, og kann að breytast fljótlega. Engu að síður er ljóst að hér hefur aðeins verið nýttur tiltölulega lítill hluti af þessari miklu auðlind.

Orkuspá hefur verið gerð nokkuð ítarleg frá því í febrúar 1977, og hygg ég að þm. hafi flestir fengið hana. Hún virðist vera vandlega unnin og fróðlegt að skoða hana fram í tímann, en einnig er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig orkunotkun hefur aukist hér á landi á síðustu árum. Er eingöngu átt við raforku í því sem ég segi um það.

Árið 1940 var raforkunotkunin um 50 gwst., 1950 var hún orðin um 200 gwst., þ.e.a.s. aukningin er um 15% á ári hverju, hún fjórfaldast á þessum 10 árum. Árið 1960 er hún orðin um 550 gwst, þ.e.a.s. á þeim áratug, frá 1950–1960, er aukningin um 11%. 1960–1970 verður aukningin úr 550 gwst. í um 1400 gwst., og er það rétt undir 10% meðalaukningu á ári hverju. Árið 1975 er orkunotkunin orðin um 2 295 gwst. Áætlað er að hún verði árið 1980 3436 gwst., 1985 4110 gwst., 1990 4 767 gwst., og árið 2000 er áætlað að hún verði um 6 310 gwst. Það er athyglisvert að árleg aukning er áætluð fara minnkandi um 9% á ári fram til 1980, síðan lækkandi niður í um 8 og 7 og 6% og allt niður í 5% undir 1990 og síðan um 4% fram til ársins 2000.

Hér veldur fyrst og fremst tvennt. Bæði er áætlað að markaður til rafhitunar húsa, sem ekki yrði fullnægt með jarðvarma, mettist nokkuð og aukning þar verði tiltölulega minni á síðari árum. Í áætlun er ekki heldur gert ráð fyrir neinum orkufrekum iðnaði að marki, þ.e.a.s. iðnaði eins og áburðarverksmiðju, álverksmiðju, járnblendiverksmiðju, umfram það sem nú er þekkt. En að sjálfsögðu hafa þessi stóriðjufyrirtæki valdið langmestri aukningu í orkunotkun á undanförnum árum. Renna nú um 60% orkumagnsins til slíkra fyrirtækja.

Orkunotkun á hvern íbúa hér á landi er nm 10 980 kwst., en er til samanburðar í Noregi 17 800, í Kanada 11 700 kwst. og erum við þriðju í röðinni. Síðan koma lönd eins og Svíþjóð og Bandaríkin rétt fyrir neðan og síðan minnkandi.

Ég vil svo fara fáeinum orðum um orkuverð.

Orkuverð byggist í sambandi við vatnsaflsvirkjanir að mjög verulegu leyti á fjármagnskostnaði við virkjanir, en hann er allbreytilegur eftir stærð og annarri afstöðu, þannig að t.d. Sigölduvirkjun með spennuvirkjum og háspennulinu er talin munu kosta um 20 milljarða ísl. kr., en uppsett afl er um 150 mw., þannig að þar er kostnaður á hvert mw. um 133 millj. kr. Þessi stofnkostnaður getur orðið lægri við enn hentugri virkjanir og talið að hann geti farið niður fyrir 100 millj. kr. fyrir mw. En hann getur einnig auðveldlega orðið langtum hærri, t.d. 300 millj. kr. á mw. við minni virkjanir. Um 85% orkukostnaðar eru fjármagnskostnaður, þ.e.a.s. fastur kostnaður sem breytist ekki eftir því hvort nýting viðkomandi mannvirkis er lítil eða mikil, breytist ekki með því. Aðeins um 10–15% eru breytilegur kostnaður.

Í des. 1976 var verð frá landsvirkjun um 2.88 kr. á kwst. miðað við 5 þús. stunda nýtingu. Frá öðrum veitum má nefna verð frá Laxárvirkjun 2.73 kr., einnig miðað við 5 þús. standa nýtingu, Rafmagnsveitur ríkisins með 3.22 kr., og frá Andakílsárvirkjun var þá tvenns konar verð: 2.69 kr. og 3.38 kr., allt miðað við 5 þús. stunda nýtingartíma. Hér ber þó að gæta þess, að þetta verð breytist nokkuð með afhendingarspennu. Frá Landsvirkjun er miðað við afhendingu rafmagns, 132 kw. málspennu. Í dag hefur verðið hækkað nokkuð og mun nú verð á svipuðum grundvelli frá Landsvirkjun vera nálægt 3.50 kr. kwst., þ.e.a.s. miðað við 5 þús, stunda nýtingu og 132 kw. spennu.

Ég vil einnig geta þess, að Landsvirkjun hefur nýlega sett fram verð á svonefndri afgangsorku, — sú orka, sem ég hef hingað til nefnt, mætti nefna forgangsorku, — afgangsorku, sem er á þeim tíma þar sem orkunotkunin er minnst og nýting vélakosts þess, sem fyrir hendi er, léleg, og er það verð nú um 57 aura hver kwst.

Samtenging á orkuverum og orkusvæðum landsins hefur miðað nokkuð áfram síðustu árin og nú síðast tekið eitt stærsta skrefið í því sambandi þegar svonefnd byggðalína til Akureyrar og reyndar lengra austur var tekin í notkun. Má þá segja að Landsvirkjunarsvæðið, því Landsvirkjun setur orku inn á þá línu, sé orðið allt frá Suðurlandi og norður um og farið að nálgast Austurlandið, þannig að fyrst og fremst vantar nú til að ná yfir landið, annað en Vestfirðina, línu frá Mývatni austur á firði og á Suðurlandi austur á bóginn. Þarna hefur því miðað verulega áfram. En hins vegar er, eins og kunnugt er, ekki hafin nein framkvæmd við tengingu Vestfjarða við þetta kerfi.

Raforkuvinnslufyrirtækin í landinu eru talin 14. Stærð þeirra er hins vegar mjög breytileg. Ef litið er á vatnsaflið er Landsvirkjun langsamlega stærsta fyrirtækið. Að meðtalinni Sigölduvirkjun er uppsett afl hjá Landsvirkjun um 428 mw., hjá Rafmagnsveitum ríkisins um 24.3 mw., Laxá 20.5, Andakílsá 7.9, Rafveitu Siglufjarðar 4.9 og annað 6.2 mw. Á þessu er nú hins vegar að verða nokkur breyting þar sem Orkubú Vestf jarða er orðið áð veruleika og hefur tekið við eignum Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum. Mun vatnsafl það, sem Orkubú Vestfjarða hefur til ráðstöfunar, verða í kringum 11 mw. Landsvirkjun ræður þannig yfir um 87% uppsetts vatnsafls á landinu, Rafmagnsveitur ríkisins rétt undir 5% — þá er að vísu meðtalið það sem Orkubú Vestfjarða hefur nú tekið við, Laxárvirkjun um 4.16%, Andakílsá 1.6%, Rafveita Siglufjarðar um 1.0%, og Orkubú Vestfjarða verður með um 2.3% uppsetts vatnsafls.

Ég hef nú reynt að rekja í sem stystu máli megingrundvallaratriði í sambandi við orkuforða og orkuöflun í þessu landi. Um það mætti hafa miklu lengra mál, en fyrir þá, sem vilja kynna sér það sérstaklega, má benda á ágætt rit Orkustofnunar um orkumál, sem kemur út reglulega, og ýmis fleiri gögn sem fyrir liggja um orkubúskap landsmanna.

Ég vil þá snúa mér að þeirri till. til þál. sem hér liggur frammi.

Segja má að till. okkar sé þríþætt í aðalatriðum. Í fyrsta lagi fjallar hún um dreifingu orkunnar innan landshluta og sölu orkunnar. Í öðru lagi fjallar hún um framleiðslu orkunnar og dreifingu til landshlutanna, þ.e.a.s. háspennudreifingu orkunnar. Og í þriðja lagi fjallar hún um undirbúning og rannsóknir á orkusviðinu.

Um dreifingu innan landshluta vil ég segja þetta: Ýmislegt bendir til þess að hagkvæmast sé að sameina dreifingu og sölu orkunnar innan eins landshluta eins og landfræðileg mörk frekast leyfa.

Í fyrsta lagi getur samstillt stjórn á slíkri dreifingu með ýmsu móti komið til leiðar bættri nýtingu þeirrar orku sem tekið er við frá landsveitu, t.d. með því að nýta orkuna þegar hentar til upphitunar í fjarkyndistöðvum eða til þess að dreifa álaginu á milli fyrirtækja, þannig að nýtingartíminn verði sem lengstur. Þannig má að sjálfsögðu lækka heildsöluverðið, því að heildsöluverðið breytist hjá t.d. Landsvirkjun með lengdum nýtingartíma.

Okkur finnst eðlilegt að stjórn slíkrar landshlutaveitu verði í höndum heimamanna sjálfra, en þó komi þátttaka hins opinbera þar inn í, þannig að samræming verði með rekstri slíks fyrirtækis og t.d. rekstri landsveitu.

Rafveiturnar í landinu voru í des. 1976 taldar 24. Á þessu hefur orðið nokkur breyting nú. Orkubú Vestfjarða hefur verið stofnað og þar hafa runnið saman strax tvær rafveitur sem starfandi voru á Vestfjörðum, auk starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins, og væntanlega mun þriðja rafveitan þar fljótlega sameinast Orkubúi Vestfjarða.

Við teljum yfirgnæfandi rök hníga að því, að rétt sé að öflun og háspennudreifing orkunnar sé á einni hendi. Eins og ég hef áður nefnt, er fjármagnsskortur við virkjanir gífurlega mikill og langstærsti liðurinn í orkuverði. Fjármagn þetta er hægt að nýta stórum betur með því að samræma framkvæmdir fyrir landið allt. T.d. getur fjármagnsfrek framkvæmd komist stórum fyrr í full afköst og þannig nýst betur með stærri markaði sem að sjálfsögðu fæst með samtengingu og sameinuðum rekstri fyrir landið allt. Einnig er hægt að nýta einstakar virkjanir stórum betur með tilliti til þess, að aðstaða er mjög breytileg milli virkjana. Sumar virkjanir eru svokallaðar rennslisvirkjanir, sem nýta vatnið eins og það rennur, án þess að aðstaða sé fyrir hendi til þess að safna því saman til hentugri tíma, tíma þar sem meiri orkuþörf kann að vera. Dæmi um slíka virkjun má nefna virkjun Laxár í Þingeyjarsýslu. Aðrar virkjanir hafa hins vegar meiri miðlunarmöguleika, geta m.ö.o. geymt vatnsaflið. Þær eru því miður ekki nægilega margar og stórar hér á landi, en færast þó í vöxt. Miðlun við Þjórsárvirkjanir hefur verið stóraukin, sérstaklega með miðlunarmöguleikum í Þórisvatni. Í mörgum tilfellum getur verið hentugt og nánast nauðsynlegt að geta flutt orku frá rennslisvirkjunum, sem hvort eð er þurfa helst að ganga, en stöðva þá þær virkjanir, sem hafa miðlunarmöguleika, og gefa þeim þannig tækifæri að safna vatnsforða til þess tíma þegar orkuþörfin verður meiri. Þetta atriði er mjög mikilvægt og ákaflega stórt í allri hagkvæmni í rekstri vatnsaflsstöðva. Ég nefndi áðan að unnt getur verið að virkja stærra, og hagkvæmni þar er fyrst og fremst fólgin í því að stærri virkjanir eru yfirleitt ódýrari, það þarf ekki alltaf að vera, en yfirleitt eru þær ódýrari fyrir hvert mw. af uppsettu afli, en þá er forsendan að unnt sé að nýta þá miklu fjárfestingu á viðunandi tíma.

Í fjórða lagi vil ég nefna öryggi í sambandi við rekstur orkukerfisins. Með samtengingu þess og samræmdum rekstri á að geta náðst aukið öryggi. Að vísu þarf þá að fylgja slíkum rekstri að virkjað sé sem viðast um landið, því að stofnlinur geta verið varasamar að sjálfsögðu, a.m.k. ef þær eru ekki því öflugri og þá tvær eða fleiri til sama svæðis. En engu að síður á skynsamlegur samrekstur að leiða til meira öryggis.

Þá vil ég í fimmta lagi nefna að með þessu móti er auðveldast að koma við verðjöfnun á milli landsmanna. En við, sem þessa till. flytjum, teljum það markmið út af fyrir sig að landsmenn sitji allir við sama eða svipað verð með tilliti til raforkunnar. Verðjöfnun í heildsölu á að vera auðveld með slíkum samrekstri öflunarfyrirtækja eða sem sagt öflun á einni hendi.

Og í sjötta og síðasta lagi vil ég leggja mikla áherslu á að með þessu móti sameinast á eina hönd reynsla og þekking sem er ákaflega mikilvæg við allar framkvæmdir á þessum sviðum. Framkvæmdir eru mjög kostnaðarsamar, oft flóknar, og þar þarf að vera fyrir hendi veruleg þekking og reynsla ef vel á að fara. Raforkuvinnslufyrirtækin í landinu eru nú talin vera 14 talsins. Þau stærstu hef ég þegar nefnt, og eins og ég nefndi í því sambandi, þá er Landsvirkjun langsamlega stærst af þessum fyrirtækjum og mun nú vera með um 87% af uppsettu afli, en allar hinar fyrir neðan 5%. Stundum hefur því verið hreyft, að erfitt kynni að vera að sameina þessi fyrirtæki. Við teljum ekki svo vera. Við vekjum athygli á ákvæði í lögum um Landsvirkjun sem heimilar Laxárvirkjun að ganga inn í Landsvirkjun ef óskað er. Sú heimild er enn fyrir hendi og er sjálfsagt að á hana reyni, ef hv. Alþ. er því sammála að stefna beri að þessu samræmda skipulagi. Rafmagnsveitur ríkisins, sem eru næststærsti aðilinn, eða voru það áður en Orkubúið fékk nokkrar virkjana þeirra, ætti að sjálfsögðu að vera í hendi ríkisins að sameina Landsvirkjun. Ef þetta tvennt næst, þ.e.a.s. Rafmagnsveitur ríkisins og Laxárvirkjun sameinast Landsvirkjun, er málið í raun og veru unnið. Þá eru á einni hendi komin 97% af uppsettu vatnsafli í landinu og raunar skiptir annað þá engu máli. Jafnvel má færa að því rök, að það skipti sáralitlu máli þótt Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafveita Siglufjarðar og annað slíkt kysu að starfa sjálfstætt. Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins ráða yfir meira en 90% af uppsettu afli, og ef þeirri stefnu yrði fylgt hér eftir, að hið opinbera veitti aðeins þessu fyrirtæki virkjunarleyfi, sjá allir í hendi sér að þá er raunar megintilgangi þessa máls náð: að ná allri meginraforkuvinnslunni í landinu á eina hönd. Þetta dæmi er því satt að segja miklu auðveldara en í fljótu bragði kann að virðast og ekki ástæða til að mikla þennan vanda fyrir sér.

Við teljum að stjórn umræddrar landsveitu ætti að vera blönduð af fulltrúum ríkisvaldsins og fulltrúum landshlutaveitna. Við leggjum á það ríka áherslu, að landshlutaveitur eigi aðild að þessari stjórn, og við teljum það mikilvægt, að heimamenn verði þannig þátttökuaðilar ekki aðeins í dreifingu raforkunnar innan síns landshluta, heldur einnig í öflun hennar.

Í þessu sambandi hef ég ekki nefnt að neinu ráði sölu til orkufreks iðnaðar, Ég vil aðeins skjóta því inn hér, að það ætti að mínu mati að sjálfsögðu að vera á hendi slíkrar landsveitu, og ég get einnig lýst þeirri skoðun minni, að sala til orkufreks iðnaðar ætti að vera með sama verði og til annarra sem kaupa raforku í heildsölu hér á landi, að sjálfsögðu tekið tillit til nýtingartíma og annarra aðstæðna, en allir ættu að hafa aðgang að orku með sömu kjörum. Þessu verður fyrst og fremst að ná með einni landsveitu, og eru það raunar enn ein rökin fyrir því skipulagi.

Í þriðja lið leggjum við til að Orkustofnun verði ríkisstj, til ráðuneytis um orkumál og annist upplýsingasöfnun o.s.frv. Við teljum eðlilegt að til sé ríkisstofnun sem geti veitt nauðsynlegar upplýsingar bæði ríkisstj. og Alþ. við alla ákvarðanatöku á þessu sviði. Einnig teljum við eðlilegt að innan slíkrar stofnunar sé safnað saman þeim rannsóknaaðilum, þeim sérfræðingum, sem á þessu sviði starfa, eins og frekast er unnt, og þannig sé fyrir hendi á einum stað, í einu ríkisfyrirtæki sú þekking sem er nauðsynleg til þess að undirbúa vel virkjanir, hvort sem um er að ræða vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarmavirkjanir.

Ég get aðeins getið þess, að erlendis er skipulag að þessu leyti nokkuð breytilegt. Á Norðurlöndunum, t.d. í Noregi, eru starfandi mjög mörg fyrirtæki á sviði orkuöflunar. Þau risu upp mjög skipulagslaust á sínum tíma, bæði vegna einkaleyfa til virkjana, sem norsk stjórnvöld veittu allt frá síðustu aldamótum og jafnvel fyrr, og til virkjana einstakra sveitarfélaga, þannig að þessi orkuöflunarfyrirtæki eru ákaflega mörg. Hins vegar hófu Norðmenn að kanna þessi mál fyrir alllöngu og komust að þeirri niðurstöðu, að samræmdur rekstur þessara fyrirtækja væri ákaflega nauðsynlegur. En með tilliti til þess, hve þetta skiptist á fjölmargar hendur í Noregi og ekki neinn einn aðili svo afgerandi eins og hjá okkur, treystu Norðmenn sér ekki til að sameina þennan rekstur þar í eitt fyrirtæki, en tóku þann kostinn að setja yfir þennan rekstur í Noregi sérstakt ríkisfyrirtæki, samkeyrslufyrirtæki, sem hefur mikil völd til þess að samræma og raunar skipa fyrir um rekstur orkuöflunarfyrirtækja í landinu. Ég held að ljóst hljóti að vera, að þetta er nánast neyðarráðstöfun, og ég legg á það áherslu, að hjá okkur er sem betur fer ástandið að þessu leyti ekki orðíð það sama og var í Noregi þegar Norðmenn vildu kippa þessu í lag. Eins og ég hef bent á er orkuöflunin hér fyrst og fremst á einni hendi og því auðvelt um vik að taka upp það skipulag sem hentugast er. Annars staðar hefur hins vegar skrefið verið stigið þrátt fyrir erfiðleika og slíkur rekstur sameinaður. Má í því sambandi nefna Bretland.

Hér á hinu háa Alþ. hefur þessum málum oft verið hreyft. Ég ætla ekki að fara að rekja það langt aftur í tímann, en ég vil minna á þáltill. sem lögð var fram í tíð vinstri stjórnarinnar síðustu um þessi mál, 1972 minnir mig, þar sem gerð var tilraun til að marka ákveðna stefnu í skipulagi orkumála. Sú till. var ekki afgreidd, eða hygg ég að mönnum hafi orðið ljóst, að þar var ekki gengið nægilega langt og þessi mál þurfti að skoða töluvert nánar. Síðan hafa verið fluttar hér þáltill. bæði um skipulag orkumála af ýmsum þm. á síðasta þingi og einnig um orkumálin mjög almennt af þm. Alþb. Þessi mál hafa þannig verið hér mjög til umr. upp á síðkastið og reyndar einnig mjög í sambandi við einstakar framkvæmdir, eins og t.d. Kröflu o.fl. Okkur hefur virst vera hér mjög ákveðinn vilji til þess að skipa þessum málum í ákveðið horf. Það hefur komið fram í umr. um þessi mál öll. Hæstv. iðnrh. hefur einnig sýnt vilja sinn til þess að skipa þessum málum og kanna þessi mál.

Hæstv. ráðh. setti á s.l. vori á fót n. til að skoða orkumálin á mjög breiðum grundvelli. Sú n. hefur starfað töluvert og hefur aflað sér mjög viðtækra upplýsinga þegar, rætt við fjölmarga aðila sem tengdir eru orkumálum þjóðarinnar. Sú n. á að sjálfsögðu einnig að athuga skipulag orkumála. Ég tel fyrir mitt leyti að sú till., sem hér er lögð fram, hindri á engan máta starfsemi þeirrar n. Hér er fyrst og fremst um rammaskipulag orkumála að ræða. Að sjálfsögðu á eftir að vinna það miklu ítarlegar en hér er gert, og til þess þarf nákvæma athugun. Mér sýnist því að með samþykkt slíkrar þáltill. yrði starfsemi n. einmitt verulega auðvelduð. Hún hefði þá viljayfirlýsingu frá hinu háa Alþ. og gæti þá beint starfsemi sinni að skipulagi orkumála innan þessara marka. Það er því von flm. þessarar till. að samþykkt hennar verði til þess að flýta mjög skipulagi orkumála, þ.e.a.s. flýta mjög viðunandi skipulagi í þessum ákaflega mikilvæga málaflokki.

Herra forseti. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því, að skipa eigi orkumálum eins og lagt er til í till. til þál. á þskj. 30. Ég hef fært rök fyrir því, að með því móti má ná stórum meiri hagkvæmni, bæði á framkvæmdum á sviði orkumála, í rekstri og þá að sjálfsögðu lægra orkuverði. Ég hef fært rök fyrir því, að nauðsynlegt er að nýta þessar orkulindir eins og hagkvæmast má vera, og við flm, þessarar till. teljum, að með slíku skipulagi verði stigið mikilvægt skref í þá átt að allir landsmenn geti haft aðgang að nægri orku, öruggri orku og ódýrri orku.