17.11.1977
Sameinað þing: 19. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

30. mál, skipulag orkumála

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég er sammála hv. flm. þessarar till., sem hér er til umr., að skipulag orkumála er í molum. Nauðsyn þess að skipulag raforkumála sé tekið til endurskoðunar með hliðsjón af breyttum aðstæðum hefur lengi legið ljós fyrir og fyrir löngu orðið tímabært að þessi mál væru tekin föstum tökum. Breyttar aðstæður hafa m.a. skapast við þá samtengingu raforkukerfanna, sem fyrir voru, og það er ekki hvað síst samtengingin, sjálfsögð samtenging allra landshluta í eitt raforkukerfi, sem kallar á það að einn aðili annist samrekstur þeirra virkjana sem hér á landi eru, einn aðili taki ákvarðanir um virkjunarrannsóknir og byggingu nýrra virkjana og loks að einn aðili sjái til þess að orkan verði tiltæk á sama heildsöluverði um land allt.

Stærstu ágallarnir á núverandi skipulagi eru einmitt þeir, að orkan er seld á mismunandi verði og misréttið er þannig í dag, að mjög viða úti um land er orkan seld á 50% hærra verði en t.d. hér á landsvirkjunarsvæðinu. Allt of margir aðilar fást við sjálfstæða orkuöflun og orkurannsóknir. Þar er um að ræða bæði Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Kröflunefnd og ýmsa smærri aðila, svo sem Skeiðsfossvirkjun.

Það hefur lengi legið ljóst fyrir, að þessum málum yrði að breyta, og árið 1972 skipaði þáv. iðnrh. sjö manna n. til að gera till. um skipan orkumála. Í till. n., sem lagðar voru fram í þinginu á sínum tíma, var gert ráð fyrir að stefnt yrði að því að eitt fyrirtæki annaðist þessi mál, en hins vegar var við það miðað að því takmarki yrði náð í áföngum og fyrsti áfanginn var sá að komið yrði upp landshlutafyrirtækjum. Er þá gert ráð fyrir að í síðari áfanga yrði um að ræða sameiningu.

Ég tel að þessi áfangaaðferð geti vissulega orkað tvímælis. Þó má kannske segja að slík leið sé óneitanlega spor í rétta átt. En hættan er sú að þróunin gangi ekki alla leið að settu marki, heldur staðni málin á miðri leið, landshlutafyrirtækin festi sig í sessi og verði að varanlegum stofnunum. Ef svo færi, þá tel ég satt að segja að verr væri af stað farið en heima setið.

Þessi þáltill. var ekki samþykkt á sínum tíma, enda var hún seint fram komin, og hún var ekki lögð fyrir Alþ. aftur.

En það er skemmst frá að segja, að í tíð núv. ríkisstj. hefur bersýnilega stefnt til vaxandi ringulreiðar og skipulagsleysis á þessu sviði, án þess að nokkur markviss tilraun hafi verið gerð til að koma á samræmdu skipulagi raforkumála. Nefndir hafa verið stofnaðar í hinum ýmsu landshlutum til þess að fjalla um þessi mál, og þær hafa komist að mjög ólíkum niðurstöðum. Þannig eru þær till., sem lágu fyrir um orkukerfi Vestfjarða, gjörólíkar till. um Norðurlandsvirkjun, sem nefnd á Norðurlandi hefur undirbúið, og till. um skipun raforkumála á Austurlandi, sem undirbúnar voru af n. sem ráðh. skipaði, voru með þriðja fyrirkomulaginu. Og ég hef ekki orðið var við það, að hæstv. ráð. hafi haft uppi neina tilburði til þess að móta samræmda stefnu í þessum málum, heldur hefur bersýnilega verið stefnt að mjög mismunandi fyrirkomulagi í hinum ýmsu landshlutum og þar með stefnt að vaxandi glundroða.

Eitt frv. um þessi efni hefur verið samþykkt í tíð núv. ráðh., en það eru lög um Orkubú Vestfjarða. Nú skal ég að vísu taka það fram, að lög um Orkubú Vestfjarða hafa ýmsa kosti sem ekki er hægt að vanmeta, m.a. þann kost að þar er verið að sameina ýmsar smærri rafveitur sem þurftu sameiningar við og þar er verið að taka á jarðvarmamálum með talsvert athyglisverðum hætti. Ég tel það hins vegar aðalgallann á lögum um Orkubú Vestfjarða, að Orkubúið verður sjálfstæður virkjunaraðili sem á að hafa uppi sjálfstæðar virkjunarrannsóknir. Ég tel að engum sé greiði gerður með slíku skipulagi, hvorki Vestfirðingum né öðrum landsmönnum. Ég vil láta þess getið í þessu sambandi, að þegar lög um Orkubú Vestfjarða voru til afgreiðslu hér í þinginu flutti ég í Ed. svofellda brtt., að aftan við frv. kæmi ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Stefnt skal að því að endurskipuleggja skipan raforkumála á landinu öllu með það fyrir augum, að allir landshlutar tengist saman í eitt orkuveitusvæði, en ein samstarfsstofnun ríkis og sveitarfélaga annist virkjunarrannsóknir og taki ákvarðanir um nauðsynlegar virkjanir og selji jafnframt rafmagn í heildsölu til dreifingaraðila á sama verði um land allt. Meðan þessi skipan raforkumála er ekki orðin að veruleika, annast Orkubú Vestfjarða virkjunarrannsóknir og byggingu og rekstur raforkuvera á Vestfjörðum, en með nýrri skipan raforkumála skal ráðh. beita sér fyrir endurskoðun þessara laga.“

Sams konar till. var borin fram í Nd, af hálfu okkar Alþb.-manna. Hér kemur fram sú afstaða, að við erum í sjálfu sér ekki andvígir því að Orkubú Vestfjarða sé selt á stofn, ef það er gert með ákveðið heildarmarkmið í huga og við það miðað að stofnun Orkubúsins sé aðeins skref í ákveðna átt til samræmds skipulags.

Þessi afstaða okkar Alþb.-manna hefur lengi legið fyrir og hefur verið sett fram á undanförnum árum í ýmsum till. af okkar hálfu. Ég vil sérstaklega láta hér getið um stefnumótun okkar Alþb.-manna í orkumálum sem gerð var á flokksráðsfundi okkar haustið 1976, en þá fjölluðum við með ítarlegum hætti um allar hliðar orkumála, gáfum út bæði stefnuyfirlýsingu um þau mál og mjög ítarlega grg, ásamt fskj. þar sem gerð var grein fyrir flestum atriðum þessara mála sem taka verður tillit til. Þetta var 200 bls. bók sem kom út þá um haustið og vakti talsvert mikla athygli. Í þessari stefnuskrá okkar í raforkumálum segir m.a., með leyfi forseta:

„Eitt fyrirtæki opinberra aðila annist raforkuvinnslu og flutning raforku um landið og selji hana í heildsölu á sama verði til dreifiveitna hvar sem er á landinu. Tryggð verði eðlileg áhrif einstakra landshluta í stjórn fyrirtækisins. Jarðvarmaveitur, dreifikerfi og smá sala með raforku og jarðvarma til notenda getur verið í höndum sveitarfélaga og/eða ríkisins eftir samkomulagi. Jafnrétti allra landshluta verði tryggt hið fyrsta varðandi orkuver um öryggi og raforkuöflun með samtengingu orkuveitusvæða, skynsamlegri dreifingu virkjana, nægu varaafli, styrkingu og fjölgun flutningslina og sem bestu dreifikerfi í þéttbýli og strjálbýli.“

Þessu til viðbótar er rétt að nefna till. okkar Alþb.-manna sem flutt var hér á Alþ. í fyrravetur, en það var till. sem má segja að hafi byggst í grundvallaratriðum á þessu nál. sem ég nú var að vitna í, og þar var kannske enn glöggar komist að orði um það, hvernig halda ætti á þessum málum, vegna þess að þar er beinlínis lagt til að um verði að ræða samruna Landsvirkjunar, Laxárvirkjunar og annarra stórra orkufyrirtækja. Ég tel því rétt að ég lesi þá till., með leyfi forseta, en hún var svo hljóðandi, — ég les aðeins seinustu mgr. till. því að aðrir liðir till. koma ekki þessu máli við, en seinasti liðurinn var þannig orðaður:

„Stefnt verði að samruna Landsvirkjunar, Laxárvirkjunar og annarra stórra orkufyrirtækja í eitt orkuöflunarfélag, Íslandsvirkjun, er annist byggingu virkjana, samrekstur allra helstu orkuvera landsins og selji jafnframt orkuna á sama verði um allt land til dreifingaraðila. Íslandsvirkjun skal starfrækt í deildum eftir landshlutum með þátttöku allra sveitarfélaga til að tryggja eðlileg áhrif heimamanna í stjórn hennar.“

Ég hef talið rétt að gera hér skýra grein fyrir stefnumörkun okkar Alþb.-manna á þessu sviði og rekja þær till. sem við höfum komið fram með. Þessum till. til viðbótar er rétt að benda á till. um sama efni sem hv. þm. Magnús Kjartansson hefur flutt hér í þinginu og mun vafalaust mæla fyrir innan tíðar, en hún gengur nákvæmlega í sömu átt. Ég vil lýsa því yfir, að ég fagna till. þeirra framsóknarmanna vegna þess að ég tel að þessi tillöguflutningur sýni að hér á Alþ. er mikill meiri hl. fyrir endurskipulagningu þessara mála í þá átt sem allar þessar till. gera ráð fyrir.

Ég vil í þessu sambandi aðeins nefna hér skipulag raforkuframkvæmda við Kröfluvirkjun, bæði vegna þess að hv. 1. flm. till, nefndi það mál áðan og vegna þess að ég hef talsvert hugleitt þau mál. Ég tel að þar sé um og ræða einn angann af þessu margþætta vandamáli. Eins og kunnugt er var á sínum tíma ákveðið að þrír sjálfstæðir aðilar önnuðust það verk að byggja Kröfluvirkjun og koma orkunni frá henni inn á flutningskerfið. Í fyrsta lagi var þar um að ræða Orkustofnun sem annast hefur gufuöflunina, í öðru lagi Kröflunefnd sem annast hefur byggingu orkuversins og í þriðja lagi Rafmagnsveitur ríkisins sem annast hafa byggingu flutningsvirkja. Ég tel að viss rök hafi verið fyrir því á sínum tíma að standa þannig að málum að fela þessum þremur aðilum framkvæmd verksins, þótt ég viðurkenni að um þan rök megi deila. En mér virðist að hitt sé aðalatriðið og atriði sem ætti að vera öllum ljóst, að nú þegar framleiðsla orku frá Kröfluvirkjun er rétt í þann veginn að hefjast, þá er mjög illt til þess að vita að ekki skuli enn vera búið að koma skipulagsmálum virkjunarinnar í viðunandi horf, Ég persónulega tel að það sé löngu kominn tími til að mál Kröfluvirkjunar séu lögð í hendur þeim aðila sem ætlast er til að reki þessa virkjun í framtíðinni, og meðan nýju skipulagi hefur ekki verið komið á í orkumálum tel ég langeðlilegast, að þessi aðili sé Rafmagnsveitur ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins annast dreifingu raforku á öllu Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum, nema á Akureyri og í nágrenni, og Rafmagnsveitur ríkisins reka þar að auki margar stórar og smáar virkjanir. Því á það að vera fremur auðvelt fyrir Rafmagnsveiturnar og langhandhægast af öllum þeim aðilum, sem til greina koma, að fella framleiðslu Kröfluvirkjunar inn í rekstrarkerfi sitt. Ég vil taka það fram, að ég hef ekki legið á þessari skoðun minni í viðræðum við hæstv, iðnrh, og hef margoft hvatt hann til að taka þessi mál fastari tökum en gert hefur verið, því að ég tel að það sé alls ekki forsvaranlegt, að þessum málum sé ekki hið fyrsta komið í varanlegt horf. Hæstv. ráðh. hefur hins vegar ekki mér vitanlega gert neinar ráðstafanir enn sem komið er til þess að breyta skipulagi þessara mála við Kröflu. Þess vegna hefði verið mjög æskilegi að fá að vita hverjar eru ráðagerðir hans. En líklega er til lítils að bera slíkar spurningar upp nú, þar sem því miður er ráðh, ekki viðstaddur, sem þó hefði að sjálfsögðu verið æsilegast og eðlilegast.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Í samræmi við það, sem ég hef hér sagt nm stefnumörkun okkar Alþb.-manna á mörgum liðnum árum, þá tel ég að till. þeirra framsóknarmannanna sé eindregið mjög jákvætt innlegg til þessar mála, og ég er sem sagt sannfærður um það, að þegar hefur skapast meiri hl. hér á Alþ. fyrir því, að skipulagi raforkumála verði komið í viðunandi horf.