17.11.1977
Sameinað þing: 19. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

30. mál, skipulag orkumála

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega um mikilsvert mál að ræða og mér þykir miður að hæstv. iðnrh. skuli ekki vera viðstaddur þessar umr., því að ég geri ráð fyrir að hann vilji koma á framfæri einhverjum sjónarmiðum að því er orkumálin varðar. Ég vil því eindregið beina þeirri ósk til hæstv, forseta, að hann ljúki ekki þessari umr, án þess að hæstv. iðnrh, eigi þess kost a.m.k. að segja álit sitt að því er þetta mál varðar.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál hér. En ég vil fyrst segja það, að mér kemur nokkuð einkennilega fyrir sjónir að 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Steingrímur Hermannsson, á sæti í stjórnskipaðri n. sem á að gera till, um skipan orkumála í landinu. Ég segi þetta vegna þess að persónulega finnst mér þetta óeðlilegt og í öðru lagi vegna þess að ég á einnig sæti í n. sem kosin var á Alþ. á sínum tíma og fékk heitið Byggðanefnd, og hún er undir forsæti þessa hv. þm., Steingríms Hermannssonar. Ég veit ekki betur en hann hafi talið það alla tíð heldur óviðeigandi og latt menn þess að leggja fram eða standa að málum sem þessari n. væri ætlað að gera till, um, áður en n. sem slík hefði sagt sitt orð þar um. (Gripið fram í.)

Já, mönnum virðist vera orðið brátt sumum hverjum, En eigi að síður þurfa menn að hafa í heiðri eðlileg vinnubrögð, hvað sem því líður. Ég vil koma því hér á framfæri, að mér finnst þetta heldur óæskileg vinnubrögð hver sem í hlut á.

Ég vil í öðru lagi taka undir það sem segir hér í ályktuninni: „Alþingi ályktar að stefnt skuli að jöfnun orkukostnaðar um land allt.“ Um þetta hygg ég að enginn ágreiningur sé. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að vekja athygli á því, að nú er verulegur mismunur í þessum efnum í landinu, og því er þetta ákvæði að ég held, atriði sem allir geta tekið undir.

En það, sem ég vildi fyrst og fremst segja í sambandi við þessa till., er að hún fjallar einungis um raforku. Eins og hér hefur verið minnst á, voru á síðasta Alþ. samþykkt lög um Orkubú Vestfjarða og í þeim lögum er það nýmæli, að þar er ekki einungis um raforku að ræða, heldur einnig gert ráð fyrir hitaveitum og kyndistöðvum. Mér finnst því að við fyrstu athugun komi þessi þáltill., sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson og einnig hv. þm. Gunnlaugur Finnsson standa að, en stóðu að samþykkt Orkubúsins á öllum stigum, heldur á skakk við þau lög. A.m.k. er hér um að ræða einvörðungu þá hugsjón að koma jöfnun orkukostnaðar á að því er varðar raforku. Vel má vera, að þessir hv. þm, telji Orkubúið einn þátt í þessum efnum, það skal ég ekki um segja, en fyrir mínum augum er þetta að nokkru leyti á skakk við þau lög sem þeir sjálfir stóðu að.

Ég held að ég muni það rétt, að í viðtali við eitt dagblaðið ekki alls fyrir löngu hafi hv, þm. Steingrímur Hermannsson gert ráð fyrir því, að yrði þeirri skipan komið á sem hér er gert ráð fyrir, yrði hinum svokölluðu landshlutafyrirtækjum stjórnað af höfuðstöðvunum hér syðra. Að því er Orkubúið varðar er þetta allt annað. Þar er þeim málum stjórnað heima í héraði. Sé þetta rétt munað hjá mér, sem ég vil ekki á neinn hátt fullyrða, — en ef það er ekki, þá verður það væntanlega leiðrétt hér á eftir, — þá er þetta á annan veg en gert er ráð fyrir að því er orkubú Vestfjarða varðar.

Ég held sem sagt að það væri nauðsynlegt, einnig til upplýsinga, að hæstv. iðnrh. fengi til þess tækifæri að tjá sig um þessa till„ ekki kannske síst vegna þess að hér standa að flutningi slíkrar till, einstaklingar sem jafnframt hafa verið til þess skipaðir að gera heildartillögur um skipan orkumála í nafni stjórnvalda.

En ég vil sem sagt ítreka þá ósk mína til hæstv. forseta, að hann ljúki ekki þessari umr. fyrr en hæstv. iðnrh. hefur gefist kostur á að tjá sig um þetta mál.