21.11.1977
Efri deild: 16. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

85. mál, skráning og mat fasteigna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að gildistöku nýs fasteignamats verði á árinu 1977 frestað frá 1. des. til áramóta eða til 31. sama mánaðar. Þessi breyting er nauðsynleg þar sem sýnt er að ekki tekst að ljúka við undirbúning að framreikningi matsverðs og frummati nýrra gagna fyrir 1. des, eins og lögin gera ráð fyrir. Ein meginástæða þessarar tafar er að nokkrum sveitarfélögum hefur reynst erfitt að ljúka vinnu og skila nauðsynlegum gögnum og upplýsingum til Fasteignamats ríkisins á tilsettum tíma. Hér er einungis lagt til að þessi frestun gildi fyrir árið í ár, þar sem þess er vænst að hér sé um byrjunarörðugleika að ræða og þurfi því ekki að koma til þess aftur, án þess þó að nokkuð skuli um það fullyrt, en ekki talin ástæða til annars en að hér sé um eins skiptis ákvörðun að ræða.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vil mælast til þess, þar sem senn líður að mánaðamótum, að nefndin hraði störfum svo og d., þannig að frv, verði að lögum fyrir mánaðarlok.