17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

Umræður utan dagskrár

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. of mikið, en það eru nokkur atriði sem mig langar til að gera að umtalsefni.

Það kom fram í fyrstu ræðunum sem haldnar voru hér við þessar umr. af hálfu stjórnarandstæðinga, að þeir létu í ljós nokkra undrun á því að ríkisstj. skyldi ekki fyrr hafa gefið Alþ. skýrslu um þetta mál. Ég læt í ljós undrun á því að stjórnarandstæðingar skyldu ekki fyrr hafa beðið ríkisstj. um það hér utan dagskrár á Alþ. að skýra frá gangi mála. Ég er nokkuð undrandi á því, hversu langur tími hefur liðið, meðan verkfall hefur staðið, án þess að stjórnarandstæðingar gerðu þetta mál að umræðuefni hér utan dagskrár á Alþingi.

Varðandi málið sjálft eru það nokkur atriði sem sérstaklega hafa verið rædd í þessum umr. Þar á meðal er endurskoðunarrétturinn sem ég mun koma nokkuð að síðar.

Frv. til laga um kjarasamninga BSRB var ávöxtur langra og mjög ítarlegra samninga milli BSRB og ríkisvaldsins á sínum tíma, og í þeim samningi var m.a. byggt á því, að hinn svokallaði endurskoðunarréttur félli niður. Það var einnig byggt á því, að æviráðning starfsmanna ríkisins yrði þrengd frá því sem verið hefur og að verkfallsréttur væri háður skynsamlegum takmörkunum, án þess að það væri nánar skilgreint þegar kom að því að semja lög og reglur um framkvæmd verkfalla opinberra starfsmanna.

Ég er talsvert undrandi á því, að menn skuli deila um það, að endurskoðunarrétturinn yrði felldur niður, vegna þess að það kemur skýrt fram við undirbúning málsins og í lögunum sjálfum, sérstaklega þó í lagafrv. Segir um þetta atriði í 8. gr. laganna fyrst, að kjarasamningar skuli gerðir til tveggja ára, eða til eigi skemmri tíma en tveggja ára miðað við mánaðamót, og síðan segir í athugasemdum við þessa 8. gr. svo hljóðandi:

„Kjarasamningar verði gerðir til eigi skemmri tíma en tveggja ára og gætu orðið lengri, þannig að kjarasamningar yrðu ekki alltaf lausir á sama árstíma. Ekki er gert ráð fyrir lögbundnum endurskoðunarrétti á samningstímanum þótt kjarabreytingar eigi sér stað á vinnumarkaðinum.“

Samt eru menn að deila um þetta atriði hér í umr. Mér finnst það nú allt að því fyrir neðan virðingu Alþ. að deila um svona mál sem svona skýrt er ákveðið í aths. við frv. Það er kunnar en frá þurfi að segja, að það liggja fyrir margir dómar Hæstaréttar þar sem lög eru skýrð með hliðsjón af því hvað segir um lagafrv. í aths. við það, og það þarf ekki að leita lengi í þessum aths. til þess að ganga úr skugga um þetta atriði. En það er fleira sem kemur fram í aths. við lagafrv. Þar segir svo hljóðandi, með leyfi forseta :

„Við gerð aðalkjarasamnings milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh. nú í vor gerðu samningsaðilar samkomulag um takmarkaðan verkfallsrétt opinberra starfsmanna innan vébanda Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Yfirlýst var að lagafrv., sem samið yrði á grundvelli samkomulagsins, yrði lagt fram á þessu þingi, sem stjórnarfrv. Síðan eru taldir upp margir liðir eða samtals 18. Í einum þessara liða segir svo orðrétt:

„Aðalkjarasamningur gildi skemmst í 24 mánuði frá gildistökudegi miðað við mánaðamót, uppsagnarfrestur verði skemmstur 3 mánuðir.“ Og svo segir: „Lögbundinn endurskoðunarréttur með gerðardómi eða verkfallsrétti fylgir ekki aðalkjarasamningi.“

Þrátt fyrir þetta deila menn hástöfum um það hér í löngum umr. hvort endurskoðunarrétturinn fylgi eða skuli falla niður. Mér finnst þetta svo skýrt sem verða má og um það þurfi ekki að deila.

Síðan er annað atriði, sem ég hef orðið nokkuð undrandi á, og það er að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir stöðu málsins í frumræðu sinni hér við þessa umr, og sagði þá orðrétt, að því er mig minnir:

„Hins vegar hefur legið fyrir vilji ríkisstj. til þess að binda sig við það að BSRB hafi aldrei lakari verðbótatilhögun en almennt gerist.“

Mér finnst að það komi svo skýrt fram sem verða má, að annars vegar sé endurskoðunarrétturinn, en ekki heimilt að fylgja honum eftir með verkfalli samkvæmt lögunum, hins vegar yfirlýsing af hálfu ríkisstj. um að sama verðbótatilhögun skuli gilda um samninga eða launakjör opinberra starfsmanna sem annarra launþega.

Varðandi framkvæmd verkfallsins skal ég vera stuttorður, vegna þess að verkfallinu er ekki lokið og það er eðlilegra að ræða um þau mál þegar því er lokið. Þá hafa menn heildaryfirsýn yfir það sem hefur gerst. En það er engin spurning um að framkvæmdin hefur farið úr skorðum í mörgum atriðum. Það er alveg ljóst. Og það er engin spurning um það, að það er fjöldi fólks í landinu, kannske miklu fleiri en ég og aðrir halda, mjög undrandi á því sem er að gerast. Það er engin spurning um það.

Nú er það svo með verkföll og lögbrot, að ég hef verið þeirrar skoðunar, — það kann að vera rangt hjá mér, — að það sé nú ekki oft sem landslög hafa verið brotin í verkföllum. En eigi að síður er það ljóst, að hér hefur allt farið úr skorðum. Ég held að það sé mikil afturför að flytja átök um kjaramál inn í skóla og uppeldisstofnanir í þjóðfélaginu. Ég held að það sé mikil afturför. Og ég álít að það sé engin þörf á slíku. Ég held að menn geti deilt og tekist á um þessi mál án þess að flytja átökin inn í skólana.

Það er margt fleira sem mætti minnast á í sambandi við framkvæmd verkfallsins, eins og t.d. það, að ég álít að það sé alls ekki gætt öryggis. É'g hef fengið kvartanir og upphringingar utan af landsbyggðinni, þar sem menn kvarta yfir því að þeir hafi takmarkaða möguleika til þess að komast í gegnum símakerfið síðan verkfallið hófst. Ef einhverjir válegir atburðir gerast og menn þurfa að ná skilyrðislaust sambandi við ýmsa aðila, t.d. lækna, þá hafa menn hringt til mín og sagt mér að þessi mál væru engan veginn í því ástandi sem nauðsynlegt væri, þótt svo eigi að heita að svokallaðar neyðarvaktir séu. Það er mikið álag á sjálfvirka símanum t.d. — geysilegt — og erfitt að komast í gegnum hann. Og þá álít ég mikinn galla að Ríkisútvarpinu skuli vera lokað. Það er mikið öryggisatriði í okkar nútímaþjóðfélagi að Ríkisútvarpið sé opið og starfandi, vegna þess að það geta gerst atvik skyndilega sem enginn sér fyrir, sem valda því að nauðsynlegt, allt að því lífsnauðsynlegt sé að nota Ríkisútvarpið til þess að aðstoða við það, hvaða ráðstafanir eru gerðar, og hafa samband við almenning og senda út tilkynningar o.s.frv.

Það erindi, sem ég átti í ræðustólinn, var kannske fyrst og fremst að lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég er þeirrar skoðunar hiklaust, þó að verkfallinu sé ekki lokið og það geti gerst ýmsir atburðir í sambandi við verkfallið sem menn sjá ekki fyrir nú, að það þurfi að taka þessi mál til endurskoðunar — rækilegrar athugunar og endurskoðunar — þegar þessu verkfalli og þessum átökum lýkur.