21.11.1977
Neðri deild: 16. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

62. mál, grunnskólar

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 68 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. nr. 63 1974, um grunnskóla. Meðflm. eru hv. þm. Gils Guðmundsson, 3. þm. Reykn., Jón Skaftason, 4. þm. Reykn., og Benedikt Gröndal, 2. landsk. þm. Frv. þessa sama efnis var lagt fram í lok síðasta þings, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Frv. er flutt að beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og mun ég nú í sem stystu máli greina frá efni þess.

Með 1. gr. frv. er lagt til að við 10. gr. laganna bætist ný mgr, sem heimili ráðh, að stofna sérstakt fræðsluumdæmi í sveitarfélagi með 10 þús. íbúum eða fleiri, ef sveitarstjórn óskar þess og fjárveiting er fyrir hendi. Í slíkum tilvikum mundi þá sveitarstjórn fara með hlutverk landshlutasamtaka samkv. lögunum.

Í 10. gr. grunnskólalaganna eru ákvæði um skiptingu landsins í fræðsluumdæmi. Hafnarfjörður telst til Reykjanesumdæmis samkv. 2. tölul. 2. mgr. 10. gr. Ástæðurnar fyrir því, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar fer fram á að þessi heimild um stofnun sérstaks fræðsluumdæmis verði tekin í lög, eru einkum tvær:

Í fyrsta lagi er íbúafjöldi Hafnarfjarðar yfir 12 þús. eða meiri en í sumum fræðsluumdæmum landsins sem ná yfir heil kjördæmi. Hafnarfjarðarbær hafði þegar á árinu 1969 stofnað eigin fræðsluskrifstofu og ráðið fræðslustjóra samkv, sérstökum samningi við menntmrn. Þannig hafði Hafnarfjörður að eigin frumkvæði komið upp þessari stjórnunar- og þjónustuaðstöðu í sínum skólamálum mörgum árum áður en grunnskólalögin tóku gildi. Það verður því að teljast eðlilegt að svo fjölmennt sveitarfélag fái að halda þeirri aðstöðu áfram, sem það hafði komið upp.

Hin meginástæðan fyrir beiðni bæjarstjórnarinnar um flutning þessa frv. er sú, að Hafnarfjarðarbær er ekki aðili að samtökum sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi. Bæjarstjórnin á þannig ekki fulltrúa á aðalfundum þeirra samtaka, sem falið er það vald og sýndur er sá trúnaður að kjósa fræðsluráð fyrir fræðsluumdæmið. Nú eru landshlutasamtök sveitarfélaga í raun ekkert annað en áhugasamtök, sem að vísu hafa unnið ágæt störf, en ekki fengið sess í íslenskri löggjöf þrátt fyrir tilraunir í þá átt, að öðru leyti en því, að þeim hefur verið falið að leysa ákveðin verkefni í lögum, einkum þó grunnskólalögunum. Þær skyldur, sem þar voru lagðar á landshlutasamtökin, voru við það miðaðar að þau fengju ákveðna stöðu í sveitarstjórnarlöggjöfinni. Það varð ekki þrátt fyrir yfirlýsingar í þá átt þegar grunnskólafrv, var hér til meðferðar á hv. Alþ., og vegna þess verður að telja í hæsta máta óeðlilegt að landshlutasamtök hafi þetta vald. Þetta verður sérstaklega áberandi þar sem svo fjölmennt sveitarfélag sem Hafnarfjörður á ekki aðild að samtökunum sem að nokkru ráða málum sem svo mjög varða hag viðkomandi bæjarfélags. Og þar sem ekkert bendir til að landshlutasamtökunum í sinni núverandi mynd verði veitt sú lögfesting, sem þau hafa óskað eftir, og um skylduaðild einstakra sveitarfélaga er ekki að ræða, þá verður að teljast eðlilegt að svo fjölmennt sveitarfélag sem Hafnarfjörður geti orðið sérstakt fræðsluumdæmi, einkum þegar þess er gætt, að um aðild bæjarfélagsins að landshlutasamtökunum er ekki að ræða, eins og ég áður tók fram.

Um þennan þátt þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð. Ég bæti þó aðeins við til að fyrirbyggja misskilning, að með því að taka þetta heimildarákvæði inn í lögin er ekki verið að brjóta niður það skipulag sem lögin ákveða um skiptingu landsins í fræðsluumdæmi. Þau önnur sveitarfélög, sem gætu notfært sér heimildina, eru Kópavogur og Akureyri, en ekki er vitað um áhuga í þeim bæjarfélögum í þessa áttina, enda eiga þau sveitarfélög aðild að viðkomandi landshlutasamtökum. Hér er raunverulega verið að veita Hafnarfjarðarbæ möguleika til að hafa sömu skipan á þessum málum og Reykjavíkurborg hefur samkv. gildandi lögum.

Samkv. 1. gr. þessa frv. er sett það skilyrði fyrir heimild um stofnun slíks fræðsluumdæmis, að fjárveiting sé fyrir hendi til greiðslu kostnaðar.

Með 2. gr. frv. er kveðið á um að hlutaðeigandi sveitarsjóður greiði allan kostnað af rekstri slíkrar fræðsluskrifstofu annan en föst laun fræðslustjóra, helming kostnaðar við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og helming húsaleigu, eins og segir í a-, b- og e-lið 85. gr. laganna.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég legg til, hæstv. forseti, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv, menntmn.