18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég mun leitast við að svara þeirri fsp. sem hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, flytur hér og hefur gert grein fyrir.

Spurningin er: Hvers vegna framkvæmdi ríkisstj. ekki þann einróma vilja Alþ. að gera ráð fyrir fjárveitingu til byggingar sundlaugar við Endurhæfingardeild Borgarspítalans þegar fjárlög fyrir árið 1978 voru undirbúin?“

Ég skal strax taka það fram, að ég hefði talið eðlilegra hvað snertir undirbúning fjárlaga og þá gagnrýni sem e.t.v. má lesa út úr fsp., að ekki sé sérgreindur liður í fjárlagafrv. varðandi þennan framkvæmdakostnað, hefði fsp. réttilegar verið beint til fjmrh., en varðandi efnisatriði málsins um byggingu sundlaugar við Endurhæfingardeild Borgarspítalans, Grensásdeildina, væri fsp. beint til heilbrrh. Ég ætla mér ekki að bera fyrir mig nein slík formsatriði og mun leitast við að svara fsp. sjálfri. En ég get þessa hér til þess að þetta svar mitt verði ekki fordæmi um það, að fsp. um mál, er samkv. verklagsreglu og verkaskiptingu ríkisstj. heyrir undir sérstakan ráðh., verði ekki eftir sem áður beint til þeirra.

Fsp. sem slík gengur út frá því að fyrir liggi skjallega í afgreiddri þáltill. einróma viljayfirlýsing Alþ. Hv. þm. spurði mig, hvort ég teldi það ekki skyldu ráðh. að framkvæma einróma vilja Alþ. Ég get út af fyrir sig svarað þeirri fsp. játandi almennt. En hér liggur ekki fyrir, eins og málin voru afgreidd, einróma viljayfirlýsing Alþ. hvað þetta málefni snertir með afgreiðslu þáltill. Það var velviljaður og mjög jákvæður rökstuðningur fyrir till. um að vísa málinu til ríkisstj., en þáltill. hv. þm og meðflm. hans fékk ekki efnislega afgreiðslu á síðasta þingi. Ég vil taka það fram vegna þeirra sem eru ókunnugri þingstörfum en hv. þm. eiga að vera, að hér er aðeins um þingsköp og vinnubrögð í þingi að ræða og þetta ætti svo reyndur þm. sem hv. þm. Magnús Kjartansson greinilega að vita.

Varðandi afstöðu ríkisstj. er svo það að segja, að í fjárlagafrv. er samkv. venju ekki tiltekinn sundurliðun um einstakar framkvæmdir sem fé verði ætlað til á sviði heilbrigðismála. En í fjárl. er sérstakur liður, sem heitir: Bygging sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva og læknisbústaða, annarra en ríkissjúkrahúsa, og er áætlað að verja 1 milljarði 300 millj. kr. til þessa. Hér undir falla framkvæmdir eins og bygging sundlaugar við Endurhæfingardeild Borgarspítalans. Þetta er að finna á bls. 75 í fjárlagafrv. fyrir 1978. Það er ekki venja að ríkisstj. sundurliði við framlagningu fjárlagafrv. þennan lið frekar en gert er í fjárlagafrv., þ.e.a.s. tilgreini hann í einni tölu. Síðar fær fjvn. fjárlagafrv. til meðferðar og fjallar um till. um skiptingu þessarar heildarfjárveitingar á milli hinna mismunandi framkvæmda á þessu sviði í landinu. Og ég get lýst því yfir, að mér er kunnugt um að bæði hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. munu leggja áherslu á að til þessara framkvæmda, sem hv. þm, hefur hér reifað, verði varið fjárveitingu, til þess að unnt sé að framkvæmdir fari af stað og nái eðlilegum áfanga á næsta ári, enda náist samkomulag við borgaryfirvöld þar að lútandi hvað snertir þátttöku þeirra í þessum framkvæmdum. Ég efast heldur ekkert um að aðrir ráðh. liti á málin með sama velvilja, og raunar líta þm. á þetta málefni einnig með miklum velvilja. Ég veit að þetta málefni á út af fyrir sig viðtækan stuðning hér á þingi. En það þarf ekki að lýsa fyrir þm.fjvn. þarf að taka afstöðu til fjárveitinga til einstakra framkvæmda, ekki hverrar fyrir sig, heldur í heild við afgreiðslu fjárlagafrv.

Ég ætla aðeins til glöggvunar á hvernig mál þetta var afgreitt að geta um það — með leyfi hæstv. forseta — að frá fjvn. var till. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar o.fl. afgreidd með svo hljóðandi tillögu:

„Nefndin hefur rætt till. Samkv. till. er gert ráð fyrir að Alþ. beiti sér fyrir framlagi til byggingar sundlaugar við Endurhæfingardeild Borgarspítalans við Grensásveg á fjárl. ársins 1977. Svo varð ekki: Hins vegar lítur fjvn. svo á, að í þáltill. þessari sé hreyft mikilsverðu nauðsynjamáli sem athuga þarf við undirbúning næstu fjárl. Fjvn. hefur orðið sammála um að leggja til að till. verði vísað til ríkisstj.

Ég þarf ekki að bæta fleiri skýringarorðum við, hvað felst í þeirri afgreiðslu Alþ. að vísa till, til ríkisstj. Og síst af öllu þarf ég að veita hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni kennslustund í því, hvað í því felst. Ég vil aðeins til frekari skýringar — með leyfi forseta — einnig vitna hér í það sem hv. frsm. fjvn., Ingi Tryggvason, sagði þegar hann fylgdi þessari till. fjvn. úr hlaði:

Fjvn. hefur rætt þáltill, um sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans. Till. varð ekki fullrædd áður en gengið var frá fjárl. ársins 1977, en í till. stendur raunar að verkefni það, sem hún fjallar um, verði tekið til greina á fjárl. fyrir árið 1977. Till. var ekki rædd fyrr en eftir að þessi fjárlög voru samþykkt, þar sem svo varð þótti þó rétt að minna á það verkefni, sem till. fjallar um, og gera það með þeim hætti að vísa till. til ríkisstj., þannig að efni till. kæmi til álita í sambandi við undirbúning næstu fjárl. Það varð sem sagt niðurstaða fjvn. að leggja til að till. verði vísað til ríkisstj.

Og einn af meðflm. hv, þm. Magnúsar Kjartanssonar, hæstv. utanrrh., Einar Ágústsson, segir þá:

„Þar sem ég hygg að ég sé eini flm, þess arar till. sem hér er staddur nú vil ég geta þess fyrir a.m.k. mína hönd og hv. 1. flm. Magnúsar Kjartanssonar, að við erum eftir atvikum ánægðir með þessa afgreiðslu fjvn. og teljum að sá rökstuðningur, sem fylgir áliti n., sé á þann veg, að hann muni verða til þess að málið verði tekið til efnislegrar afgreiðslu við gerð næstu fjárlaga.“

Nú er aðeins fyrsta stig í fjárlagaafgreiðslunni komið fram á Alþ., þ.e.a.s. frv. til fjárl., og í því efni er farið að venju og þingsköpum. Framhald málsins verður að fjvn. fjallar um skiptingu þessarar fjárveitingar í heild sinni milli einstakra framkvæmda. Ég sé enga ástæðu til að ætla annað en tillit verði tekið til þessarar mikilvægu framkvæmdar og hennar sjáist staður í endanlegri skiptingu fjvn. Ef svo illa færi að það væri ekki, sem ég held að sé engin ástæða til reyndar að ætla, þá getur þingið allt tekið til sinna ráða og afgreitt fjárl, með þeim hætti sem vilji þingsins stendur til.