22.11.1977
Sameinað þing: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

314. mál, laun forstjóra ríkisfyrirtækja

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp., sem hér eru á dagskrá, var beint til hæstv. fjmrh, sem hefur svarað þeim. Laun forstjóra Íslenska járnblendifélagsins hafa hins vegar verið rædd hér alveg sérstaklega. Eins og hæstv. fjmrh. gat um, beindi ráðuneyti hans spurningunni til iðnrn. Ráðuneytisstjóri iðnrn. svaraði alveg réttilega, að ráðuneytinu væri ókunnugt um laun þessara forstjóra, þeir væru ráðnir af stjórnum viðkomandi félaga, en í samþykktum Járnblendifélagsins er skýrum stöfum tekið fram, að stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður launakjör hans, þannig að launakjörin hafa alls ekki verið undir iðnrn. borin né iðnrn, frá þeim skýrt. Þess vegna er svar ráðuneytisstjórans, sem hæstv. fjmrh. las hér upp, alveg rétt.

Hitt er annað mál, að mér finnst sjálfsagt að verða við óskum hv. þm. um að reyna að afla þessara upplýsinga. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir því við stjórn Járnblendifélagsins, að hún gefi þessar upplýsingar.