22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

30. mál, skipulag orkumála

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í umr. um þessa þáltill. á fundi s.l. fimmtudag, þá virðist mér að till. beri að með nokkuð sérkennilegum hætti. Upplýst er að hæstv. iðnrh. hefur skipað n. til þess að fjalla um heildarskipulag orkumála landsins og í þessari n. á sæti hv. 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Steingrímur Hermannsson.

Það eru að mínum dómi óvenjuleg vinnubrögð, að nefndarmaður í stjórnskipaðri n., sem falið hefur verið að vinna að lausn tiltekinna mála og leggja till. fyrir ríkisstj.., hlaupi allt í einu til og flytji málið inn á Alþ. meðan n. situr að störfum. Ég minnist þess ekki að þm. hafi yfirleitt staðið þannig að málum. Ég minnist þess ekki að stjórnarandstöðuþm. hafi talið það vera eðlileg vinnubrögð, hvað þá stjórnarstuðningsmenn. Fram hjá þessum siðareglum, sem þm. almennt hafa tamið sér, virðist hv. 1. flm. þessarar till. hafa farið og þær siðareglur ekki verið erfiður þröskuldur fyrir hann að stiga yfir. Þetta finnst mér að séu sérstæð og nokkuð einkennileg vinnubrögð.

Ég þarf ekki í sjálfu sér að svara fyrir þá n. sem hér situr að störfum, enda hefur formaður hennar þegar tekið þátt í þessum umr. En mér þótti einnig athyglisvert að heyra í framsögu hv. 1. flm., að samkvæmt hans áliti hindraði till. alls ekki starf n., hún jafnvel greiddi fyrir því. Svo var að skilja sem hann áliti að eðlilegt væri að n., sem að störfum situr, tæki þessa till. upp á sína arma og hæri hana fram til sigurs.

Nú þykist ég vera það kunnugur nefndarstörfum almennt um hin ýmsu viðfangsefni, að þetta sé næsta ólíklegt. Það er ekki til þess að greiða fyrir framgangi máls, meðan n, situr að störfum, að einstakir nm. taki sig til og beri fram einstaka þætti þeirra mála eða málin í heild í tillöguformi fram á Alþ. og ætlist síðan til að aðrir nm. taki því sem sjálfsögðum hlut og þar með sé málið leyst. Að minni hyggju er mikil hætta á því, að þessi vinnubrögð greiði ekki fyrir vinnubrögðum hinnar stjórnskipuðu nefndar, þau beinlínis torveldi störf hennar. Að þessu hygg ég að hv. 1. flm. hefði gjarnan mátt huga betur áður en till. var flutt.

Þá vil ég einnig láta það koma hér fram, að mér sýnist till. þessi ganga a.m.k. í veigamiklum atriðum gjörsamlega þvert á lögin um Orkubú Vestfjarða, og ekki er annað vitað en hv. 1. flm. og hv. þm. Gunnlaugur Finnsson hafi staðið alfarið að undirbúningi þeirra laga og stofnun Orkubúsins. Ég verð að segja það, að ég átta mig ekki nægilega vel á þessu, og e.t.v. mun einhverjum Vestfirðingum þykja ástæða til að spyrja hvernig í þessu liggi. Hafa e.t.v. þessir hv. þm. verið dregnir með til fylgis við stofnun Orkubúsins, undirbúning og framkvæmd á því máli þó að þeir hafi allan tímann verið á móti þeirri stefnu, sem þar birtist, og ætla sér að stefna allt annað, eins og þessi till. ber með sér?

Ég verð að segja það, að ég undrast þetta nokkuð og skil ekki fyllilega hvað hér er á ferðinni. Ég fæ ekki séð að það samrýmist sú stefna, sem Orkubú Vestfjarða er byggt á, og sú stefna, sem þessi till. felur í sér. Ég lit sem sé svo á, að aðdragandinn að þessu máli hvað snertir hv. 1. flm. þess og jafnvel hv. meðflm., Gunnlaug Finnsson, sé með sérkennilegum hætti og á annan veg en við þm. eigum að venjast.

Ef litið er á þessa till. efnislega, þá skal ég ekki fara um hana sem slíka mörgum orðum. Efnislega séð og án tillits til þess, hvernig till. ber að, gæti hér verið um eðlilegt innlegg að ræða í þá umr. og þá tillögugerð sem nú fer fram um skipulag orkumála í landinu. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég er því sammála, eins og flestir aðrir ræðumenn hafa hér lýst yfir, að stefnt sé að jöfnun orkukostnaðar í landinu, a.m.k. að sem mestu leyti. Í till. þessari er í fyrstu lotu a.m.k. einungis átt við jöfnun orkukostnaðar hvað snertir vinnslu og heildsölu raforkunnar, og það er kunnugt að heildsöluverð raforku hér á landi er minni hluti lokaverðsins. Þetta er samt að mínum dómi stefna sem ég hygg að flestir hv. alþm. geti aðhyllst.

Þessu hyggjast hv. flm. till. ná með því að stofnað verði eitt fyrirtæki sem annist orkuöflun og orkuflutning eftir aðalflutningslínum. Það má segja um þennan þátt till., að því fylgja í sjálfu sér augljósir kostir að einn aðill annist yfirstjórn orkuvinnslunnar. Hvort það er eitt fyrirtæki, eins og hér er lagt til, eða sterk samstjórn fleiri fyrirtækja má um deila. Að þessum þætti málsins kom hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson mjög rækilega í sínu máli og skal ég ekki fara um það mörgum orðum. Hitt er ljóst, að þó að horfið verði að þeirri stefnu að fleiri en einn aðili ynnu að orkuöflun og heildsölu raforku, þá er augljóst að slík fyrirtæki þurfa að koma á sterkum aðila með samstjórn sín á milli til þess að fjalla um orkuöflunina og samrekstur slíkra fyrirtækja. Með því móti er dregið úr hættu á því að landshlutasjónarmið eða hreppasjónarmið ráði of miklu í orkuöflunarmálum, heldur verði unnið eftir þeim leiðum sem hagkvæmni og skilyrði til orkudreifingarinnar gefa hest tilefni til.

Það er auðvitað nokkurt álitamál, hversu raunhæft það er að leggja til að öll orkuöflunarfyrirtæki landsins verði sameinuð í eitt. Hv. flm. gat um í framsöguræðu sinni, að í lögum um Landsvirkjun voru ákvæði er heimiluðu Laxárvirkjun að gerast aðili að Landsvirkjun. Þetta er hárrétt. En mér virtist það koma fram hjá hv. flm., að hann teldi að atbeina Alþ. þyrfti til þess að þetta kæmist í framkvæmd.

Ég hef litið svo til, að í lögum þessum sé þetta fullkomlega heimilt og atbeina Alþ. þurfi þar alls ekki við. Athyglisvert er, að þrátt fyrir að þessi heimild hafi verið í lögum í mörg ár, þá hefur þessi sameining ekki komist á og svo virðist sem vilji til hennar hafi ekki verið fyrir hendi hjá stjórn Laxárvirkjunar, því að ella væri væntanlega um eitt fyrirtæki að ræða nú orðið. Þetta gefur tilefni til þess að ætla að nokkrir örðugleikar væru því samfara, ef knýja ætti öll orkuöflunarfyrirtæki landsins og þau fyrirtæki, sem selja raforku í heildsölu, í eitt. Hitt er auðvitað jafnljóst, að ef Landsvirkjun og Laxárvirkjun væru sameinaðar í eitt, þá væri þar orðið um svo yfirgnæfandi meiri hluta orkuöflunar þjóðarinnar að ræða í einu fyrirtæki að þessi stefna væri orðin ráðandi í raun.

Í framhaldi af þessu vil ég geta þess, að 2. og 3. liður þessarar þáltill. virðast mér vera eðlilegir í stórum dráttum. Mér sýnist eðlilegt að Orkustofnun verði efld til þess að hafa yfirstjórn þessara mála, a.m.k. vissra þátta þeirra, og ég geri ráð fyrir, að það sé ekki mikill meiningarmunur um 2. liðinn. En form á landshlutaveitum eða héraðaveitum, miðað við 2. tölul. þessarar till., hlýtur að ráðast af því, hver niðurstaðan verður í sambandi við heildarskipulag á orkuvinnslunni og heildsölu raforkunnar.

Ég skal ekki lengja mikið mál mitt um þessa till. efnislega. Ég tel þess ekki gerast þörf. Ég tel eðlilegt að sú n., sem situr að störfum, vinni þetta verk til enda. Og ég legg áherslu á að það er þýðingarmikið að hún skili till. sínum sem allra fyrst, helst svo að unnt væri að lögfesta þær breytingar, sem hún leggur til, áður en þessu þingi lýkur. Það væri mikilsvert. Ég tel að hv. 2. þm. Vestf. hefði betur unnið að því með störfum innan n. heldur en með því að leggja fram sérstakt þskj. um þetta efni, eins og hér hefur verið gert.

Hv. flm. þessarar till. hóf ræðu sína með nokkrum almennum orðum um orkumál, ekki síst um stóraukna orkuþörf þjóðarinnar á komandi árum. Þarna var að mínum dómi margt vel sagt og réttilega og óhætt að þakka honum fyrir það sem þar kom fram. Þær tölur, sem hann fór með í því sambandi, byggjast, eftir því sem ég fæ séð á niðurstöðum orkuspánefndar frá öndverðu þessu ári og í samræmi við þær.

Nú er það svo, að enn meiri vandi kann að vera á höndum fyrir okkar þjóð í orkumálum heldur en þarna kemur fram. Um allan heim velta menn því nú mjög fyrir sér, hvernig mætt verði stóraukinni orkuþörf mannkynsins í framtíðinni. Það er vitað að aðeins um 10% af orkunotkun mannkynsins, eins og hún er í dag, er aflað frá orkugjöfum sem endurnýjast sjálfkrafa, þ.e. vatnsorku eða varmaorku. 90% af þeirri orku, sem mannkynið notar eins og nú standa sakir, eru frá orkugjöfum sem eyðast. Sumir þessir orkugjafar eru á því stigi að þeir munu ganga til þurrðar á næstu árum eða áratugum. Því er spáð af sérfræðingum, að olían, sem er einn mikilvirkasti orkugjafi heimsins eins og nú standa sakir, gangi til þurrðar á 30–40 árum. Því er einnig spáð af sérfræðingum margra þjóða, að á árunum 1985–1995 verði svo komið að olíuskortur geri vart við sig og orkuþörfinni í heiminum verði ekki lengur mætt með olíu þegar líður að aldamótum. Þetta eru vitaskuld alvarleg tíðindi og alvarlegar niðurstöður sem sérfræðingar hafa komist að. Þess vegna er það keppikefli allra þjóða og sérfræðinga á þessu sviði að reyna að bæta úr, finna orkulindir sem ekki eru að ganga til þurrðar og geta tekið við af olíunotkuninni.

Ég skal ekki fara út í það hér að rekja hugmyndir manna um þessi efni, en þær eru vitaskuld margvíslegar, þó að ekki sé hægt að segja til um það á þessari stundu hverjar af þeim hugmyndum er raunhæfar. Hitt er ljóst, eins og nú standa sakir t.d. með kjarnorku sem framleidd er í stórum kjarnorkuverum, að á slíkri framleiðslu eru þeir annmarkar enn sem komið er að ekki hafa fundist leiðir til þess að eyðileggja úrgangsefnin og koma í veg fyrir skaðsemi þeirra. Ef ekki finnst ný tækni er erfitt að gera ráð fyrir því, að kjarnorka geti í miklum mæli mætt orkuþörf mannkynsins á komandi árum. Á því eru stórkostleg vandkvæði sem auðvitað getur fundist lausn á, en það hefur ekki tekist enn sem komið er.

Við Íslendingar búum betur en flestar aðrar þjóðir hvað það snertir, að við eigum völ á orkugjöfum frá orkulindum sem endurnýjast sjálfkrafa að miklu leyti. Við eigum mjög mikið ónotað af vatnsafli og varmaafli og það hlýtur að vera keppikefli okkar á komandi árum að undirbúa það að taka þessa orkugjafa í notkun og nýta þá þjóðinni til heilla í sem allra ríkustum mæli. Það verður enda alger nauðsyn, því ef svo fer sem sérfræðingar spá, að olíuskortur verði þegar farinn að gera vart við sig á árunum 1985–1995 og olían þrotin áður en 40 ár eru liðin, þá líða ekki mörg ár þangað til mikil verðsprenging verður á olíuverðinu.

Fyrir fjórum árum var talið, miðað við heildarinnflutning á olíu til Íslands, að um 60% af orkunotkun þjóðarinnar væru fengin frá olíu. Mikið hefur vissulega áunnist síðan og mun gera það á komandi árum. En þetta hlutfall verður að breytast. Áður en mjög mörg ár líða verðum við að reyna að haga svo okkar málum, að olían verði hér sem minnst notuð nema til þess að knýja flutningatæki á landi, sjó og í lofti. Til þess fer verulega mikill hluti af olíunotkun þjóðarinnar, og er vandséð hvernig hjá því verði komist á komandi árum, nema ný tækni finnist.

Það er ljóst, að til þess að komast hjá olíunotkun til annarra þarfa þjóðarinnar þarf að vinna stórvirki í virkjunum, bæði á sviði fallvatna og jarðvarma. Þess vegna megum við ekki slá slöku við undirbúning slíkra framkvæmda. Við þurfum að vinna að þeim framkvæmdum með mikilli framsýni og mikilli fyrirhyggju, vegna þess hve framkvæmdir á þessum vettvangi eru dýrar og tekur mörg ár að undirbúa þær svo að vel megi fara.

Ég vildi gjarnan láta þetta koma hér fram til viðbótar við það sem hv. 1. flm. þessa máls sagði um orkumálin almennt, til þess að það væri ljóst að við megum ekki slaka á í þessum efnum. Við þurfum að vera við því búnir að olían sem orkugjafi verði hvort tveggja miklu dýrari en nú er og að innan tíðar muni hún e.t.v. ganga til þurrðar, eða eins og sérfræðingar spá á 30–40 árum.

Ég vil svo aðeins segja það út af því sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér á fimmtudaginn var, þar sem hann sló því föstu að núv. hæstv. iðnrh. hefði ekki haft uppi neina tilburði, eins og hann orðaði það, til stefnumótunar í skipulagi orkumálanna, og hann fengi ekki betur séð en að vanandi glundroði hefði verið að skapast á undanförnum árum. Hv. þm. virðist hafa verið algerlega ókunnugt um það starf sem unnið hefur verið að undanförnu til að leysa þessi mál. Þarf raunar ekki önnur orð til þess að svara því en það sem fram kom í ræðu hæstv. iðnrh. hér í dag.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt um þetta efni, en ég ítreka þá skoðun mína, að það sé ákaflega þýðingarmikið að þeirri n., sem að störfum situr, takist að ljúka því viðfangsefni sem hún hefur með höndum. Ég tel að það sé ekki hyggilega að málum staðið ef einstakir nm. hlaupa til og flytja það verkefni, sem n. er ætlað, inn á Alþ. í formi tillögugerðar eða frv.gerðar eins og hér hefur verið gert.