22.11.1977
Sameinað þing: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

30. mál, skipulag orkumála

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja með því að þakka margar ágætar ræður, sem hér hafa verið fluttar um þetta mál, og þá sérstaklega þann stuðning sem fram hefur komið í ræðum fjölmargra þeirra, sem tekið hafa hér til máls. Ég get stytt mál mitt, því að sumir meðflm. mínir að þessari till, hafa leiðrétt nokkuð þann misskilning, sem hefur komið fram.

Í ágætri ræðu hv. síðasta ræðumanns kom fram einn lítilfjörlegur misskilningur, sem mun líklega vera frá mér sprottinn. Vil ég leiðrétta það. Orkuspáin frá febr. 1976 gerir ekki ráð fyrir því, að vatnsorkan verði þrotin í kringum 2050 eða 2060, hún nær aðeins fram til ársins 2000, gerir þá ráð fyrir 6370 gwst. notkun, sem er 4% aukning á ári, og með því að framreikna það, sem þýðir tvöföldun á hverjum 20 árum, yrði vatnsorkan þrotin í kringum miðja öldina. Þetta er aðeins mín lauslega ágiskun, en þó byggð, eins og kom réttilega fram hjá honum, á þessari orkuspá. En vel má vera að sérfræðingar dragi enn úr árlegri aukningu eftir 2000. Eins og fram kemur í orkuspánni gera þeir það nokkuð markvisst fram til aldamóta og þá mun þetta sjálfsagt endast lengur. En aðalatriðið er að sjálfsögðu, að þetta er ekki óþrjótandi orkulind, því fer víðs fjarri.

Ég vil þá koma lítillega að þessu með siðleysið. Ég sé að hv. þm., sem fór einna hörðustum orðum um siðareglur eða brot á siðareglum, er kominn inn. Ég átti satt að segja alls ekki von á öðru af hans hendi. Hann er maður augsýnilega mjög fróður um siðareglur og væri, ef ég þekki hann rétt, síðastur manna til þess að brjóta þær. A.m.k. mundi hann ekki — og ég sé að hann gerir það ekki — víkja af fundi áður en sá, sem hann veitist að, fær tækifæri til þess að svara, svo að ég mun gefa honum góða einkunn fyrir siðareglur að öllu leyti. Um þessar svokölluðu siðareglur vil ég segja þetta. Eins og hér hefur komið fram, er sú till., sem hér er flutt, byggð á ályktun aðalfundar miðstjórnar Framsfl. 1976. Þá fylgdu þeirri samþykkt eindregin tilmæli til þm. flokksins að flytja þessa till. helst strax. Við kusum hins vegar að gera grein fyrir henni hér í umr. Við gerðum það við mörg tækifæri. M.a. gerði ég það í Ed. við umr. um Orkubú Vestfjarða, þar sem — ég get skotið því inn — ég gat þess að við teldum að sumu leyti æskilegra að móta heildarskipulagið áður en einstakir landshlutar eru afgreiddir, ef orða má það svo. Við sem sagt drógum að flytja þessa till., þrátt fyrir tilmæli aðalfundar, og það má e.t.v. einnig nefna siðleysi. Okkur er sem sagt falið að flytja þessa till., en við gerðum það ekki, m.a. vegna þess að við vissum að þessi mál voru í athugun. Við biðum á annað ár, en okkur var ekki kleift að bíða lengur vegna þessarar samþykktar sem lá fyrir frá okkar fundi.

Ég á einnig ákaflega erfitt með að sætta mig við það, satt að segja, að nánast sé hægt að kippa einum manni úr umferð með því að skipa hann í nefnd og hann sé þar með eiginlega bundinn eins lengi og nefndin kýs að starfa. (Gripið fram í: Setja hann inn bara.) Já, það er eins gott að setja hann inn. Ég á ákaflega erfitt að sætta mig við það.

Ég vil einnig vekja athygli á því, sem kom fram í ágætri ræðu hv. 3. þm. Vestf., sem er formaður í umræddri nefnd, að þetta mál er mjög margslungið og þarf að ræða ítarlega, áður en svona skipulag er komið á, m.a. hvernig verður farið með eignayfirtöku slíks fyrirtækis og margt fleira, sem hann nefndi, sem er hárrétt, þannig að mér sýnist það auðvelda mjög störf nefndarinnar, eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, að vilji Alþ. komi fram, þannig að nefndin viti hver pólitískur vilji er í meginatriðum í þessu sambandi. Mér virðist það raunar þegar hafa komið fram. Hér hafa talsmenn a.m.k. þriggja þingflokka og auk þess hv. þm. Karvel Pálmason lýst sig í meginatriðum fylgjandi þessari till, Ég tel að þegar með því sé töluvert unnið. Og ég skildi ekki betur hv. 3. þm. Vestf. en svo, að hann gæti sætt sig við mörg atriði í þessari till. og vísaði henni alls ekki frá. Ég tel mjög mikilvægt að þetta er komið fram, mikilvægt fyrir störf nefndarinnar.

Ég vil auk þess vekja athygli á því, að eðlilegt er að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, sendi þessa till. til viðkomandi nefndar til umsagnar. Hún getur mætavel gert það.

Ég verð að sjálfsögðu að taka því, að menn meta siðferði misjafnlega. Ég met það á minn máta. Ef mönnum þykir ég hafa gerst brotlegur, verð ég að sætta mig við það. Ég fæ ekki breytt skoðunum manna á því. En þetta er sem sagt gert af þeim ástæðum, sem ég hef nú rakið, og fyrst og fremst vegna þess að við álítum málið svo mikilvægt, að það megi ekki bíða, og við höfum ákveðin fyrirmæli um að flytja þetta mál. Ég þarf vitanlega ekki að vera á till., en það eru 12 aðrir þm. Framsfl. á þessari till. og þeim var vitanlega frjálst að flytja hana. Þeir óskuðu eftir því, að ég yrði 1. flm., af þeim ástæðum, sem hér hafa komið fram, að ég hef unnið töluvert í þessu máli.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf., að í annarri nefnd, mþn. um byggðamál, hafði ég lagt á það áherslu, að meðlimir nefndarinnar flyttu ekki mál á eigin vegum. Þetta er misskilningur. Sú nefnd er að vísu á allt annan máta upp byggð. Hún er nefnd þm., kjörin af þinginu, og þar geta allir þm. flutt mál og einnig getur nefndin flutt mál. Hitt er sérfræðinganefnd. þótt svo vilji til, að við erum þar tveir, tveir af átta, sex eiga þess alls ekki kost að flytja mál að sjálfsögðu. Mér dettur auk þess satt að segja ekki í hug, að ég geti stöðvað að hv. 5. þm. Vestf., flytji mál, þótt ég beiti mér af alefli. Ég held, að hann sé vel þekktur fyrir að fara sínu fram. Ég mundi ekki reyna það. dytti það ekki í hug. Hins vegar er að sjálfsögðu ánægjulegt, ef menn í einni nefnd koma sér saman um að flytja mál. Mbn. um byggðamál hefur gert það í ýmsum tilfellum og það er ekkert nema gott um það að segja vitanlega. Ég ætla svo að láta útrætt um þessar siðareglur og reyna að koma nánar að fáeinum atriðum sem ekki hefur verið svarað.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson taldi, að í þessari till. kæmi fram sá vilji að ríkissjóður ætti 50% í öllum þessum fyrirtækjum. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., því að í grg segir svo:

„Ef slíks er óskað, virðist eðlilegt að sveitarfélög geti átt meirihlutaaðild að slíkum veitum og stjórn þeirra“ — það er átt við landshlutaveiturnar Mér finnst sjálfsagt að heimamenn eigi þar meiri hluta ef þeir óska þess. Hins vegar hefur þetta verið nokkuð breytilegt. Eftir því sem ég veit best hafa Austfirðingar t.d. ekki óskað eftir meiri hluta eða að fyrirtækin séu í þeirra eigu. Ég leyfi mér því að leiðrétta þennan misskilning. Hann ræddi nokkuð um héraðanefndirnar. Ég hef út af fyrir sig ekkert við þær að athuga, en ég hefði talið eðlilegra, að nefnd til að athuga heildarskipulagið væri fyrst sett á fót og síðan störfuðu héraðanefndirnar innan þess ramma, sem sú nefnd hefði komist niður á, þetta er mín persónulega skoðun. Önnur leið var farin. En út af fyrir sig hef ég ekki neitt við héraðanefndirnar að athuga, þó að ég hefði kosið að það væri á þennan máta gert.

Hv. þm. Pálmi Jónsson minntist á ýmis önnur atriði, an hann vírðist horfinn af fundi, enda mun hann eiga að mæta á fundi fjvn. Ég vil samt leiðrétta í örfáum orðum misskilning, sem mér fannst koma fram hjá honum. Hann fullyrti, að með þessu væri gert ráð fyrir því — nú, hann er þarna — gert ráð fyrir því, að öll raforkuvinnslufyrirtæki landsins yrðu sameinuð 1 eitt. Ég undirstrikaði orðið „öll“. Þetta er misskilningur. Við segjum að meginraforkuvinnslan sameinist í eitt, og reyndar leggjum við á það áherslu og ég gerði það í framsögu. Ég upplýsti að með því að sameina tvö til þrjú fyrirtæki næðust yfir 90% orkuvinnslunnar í eitt, og þetta hefur komið fram hjá fleiri ræðumönnum hér. Hann taldi einnig að við vildum að Alþ. beitti sér fyrir því, að Laxárvirkjun nyti þess réttar, sem hún hefur í lögum um Landsvirkjun, að ganga þar inn. Það er misskilningur hjá honum, Að vísu sagði ég í ræðu minni að rétt væri að á þetta reyndi, ef Alþ. teldi þetta fyrirkomulag æskilegt, sem sagt að sameina í eitt. Með samþykkt svona till. kæmi að sjálfsögðu fram vilji Alþ., en það væri svo Laxárvirkjunar að ákveða hvort hún vill nota þessa aðstöðu. Ég er ekki með í huga — og vil leiðrétta það — að á nokkurn máta eigi að þvinga Laxárvirkjun til þess að nota þetta ákvæði — alls ekki.

Nokkuð hefur verið rætt um það hér, m.a. af hv. þm. Pálma Jónssyni og fleirum, að þetta gengi á einhvern máta á snið við Orkubú Vestfjarða. Menn hafa mismunandi skoðanir á því. Ég hef sagt fyrr í ræðu, að ég teldi æskilegra að heildarmyndin lægi fyrir áður en orkubúið væri sett á fót. Orkubúinu fylgja hins vegar margir mjög góðir kostir. Það sameinar ýmsar rafveitur. Það gerir ráð fyrir því að reka hitaveitur og rafveitur undir einni stjórn. Þetta eru hlutir sem hrjóta á engan máta í bága við það sem hér er gert ráð fyrir. Það eina, sem gengur gegn þessari stefnu, er, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, að Orkubú Vestfjarða tekur við um 11 mw. aflstöðvum frá Rafmagnsveitum ríkisins. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína, að ég hef talið bæði fyrir Vestfirðinga og fyrir þjóðina í heild æskilegra að reka þessar veitur með einni landsveitu, — ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína. Þetta eru hins vegar ekki nema 2.3% af afli í orkuverum landsins, þannig að í raun og veru skiptir sáralitlu máli hvar þetta liggur. Andakílsárvirkjun er 1.6%, sem skiptir heldur engu máli. Ef komið er á eina hönd vel yfir 90%, þá er það orðin meginraforkuvinnsla landsins, eins og við leggjum áherslu á í þessari till. okkar. Ég tel hins vegar að nú, þegar Orkubúið er komið á fót, eigi að sjálfsögðu að bæta inn í tillgr. viðræðum við Orkubúið um yfirtöku á þessum mannvirkjum. Það var ekki komið á fót, þegar till. var flutt, svo að við treystum okkur ekki til að setja það inn í. Ekki var ljóst að samningar næðust við ríkisvaldið. Þeir hafa nú náðst og að sjálfsögðu verður þá að ræða einnig um Orkubú Vestfjarða sem einn allstóran aðila í orkuvinnslu hér á landi.

En á eitt vil ég minna, sem ekki hefur verið minnst á hér. Þeir aðilar, sem standa að Orkubúi Vestfjarða, gerðu það að skilyrði, nánast því hver og einn, að Orkubúið byggði ekki línu frá byggðalínunni í Hrútafirði inn á Vestfirðina. Þetta hefur komið fram hér í umr. Það var gert að skilyrði á stofnfundinum, að sú lína yrði byggð annaðhvort af Rafmagnsveitum ríkisins eða öðrum aðila, sem hefði það hlutverk með höndum, og jafnframt gekkst hæstv, iðnrh. undir að beita sér fyrir því, að fjárveiting fengist í þessu skyni, eins og komið hefur fram. Þetta er e.t.v. eitt mikilvægasta atriðið, sem greinir Orkubú Vestfjarða frá fyrirtæki sem er með alla dreifingu, alla orkuvinnslu, alla orkuöflun sína á eigin hendi. Áhersla var sem sagt lögð á það, að Orkubúið vildi ekki taka í sínar hendur að leggja þessa línu. Þetta er að mínu mati ákaflega veigamikið atriði og gengur náttúrlega þvert á hugmyndir um það, að byggðalínu verði skipt niður á landshluta, Vesturlandsorkubúið taki við henni í Hvalfirði og eigi hana norður á Holtavörðuheiði o.s.frv., o.s.frv. Þetta stangast þvert á við það. Sem sagt, Vestfirðingar leggja áherslu á að línan sé bæði byggð og rekin af öðrum aðila, þannig að þó að í sambandi við Mjólkárvirkjun sé nokkur annmarki og rekist að nokkru leyti á það, sem hér er um að ræða, þá er það þó ekki nema mjög lítill þáttur í þessu heildarmáli og þáttur, sem áreiðanlega er auðvelt að ná samstöðu um að leiðrétta, ef þetta skipulag verður ofan á. Ég vísa því algerlega á bug, að við, sem höfum fylgt hugmynd um Orkubú Vestfjarða, getum ekki stutt og flutt þá till. sem hér er uppi, alls ekki, ég vísa því á bug.

Nokkuð hefur verið minnst á það af fleiri en einum aðila, að ekki væri getið nægilega um hitaveitur. Ég held að það sé satt að segja misskilningur og byggist á því, að till. hefur ekki verið lesin nægilega vel. Í 2. lið till. segir:

„Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum, sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna.“

Í grg. er þetta jafnframt undirstrikað, að mjög hagkvæmt sé að reka saman einmitt hitaveitur og fjarhitunarstöðvar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er jafnframt, að landshlutaveitur eigi og reki jarðvarmaveitur eða fjarhitunarstöðvar. Í ýmsum tilfellum kemur til greina að reka slíkar stöðvar þannig að nota megi hvort sem er jarðvarma eða raforku, auk svartolíu, eftir því sem þörf krefur. Nauðsynlegt getur því verið að samræma sem best rekstur raforkukerfisins og rekstur slíkra fjarhitunarstöðva. því er æskilegt, að þetta sé á einni hendi. Landshlutaveitur mundu þannig annast sölu á bæði raf- og hitaorku til notenda. Eðlilegast virðist, að slíkar landshlutaveitur verði sjálfseignarfélög og eignaraðild sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda.“

Síðasta setningin er að sjálfsögðu óviðkomandi þessum hitaveitum. Ég veit ekki, hvernig er hægt að undirstrika þá skoðun okkar betur en gert er. Við teljum sem sagt rétt og eðlilegt að rekstur hitaveitna sé einnig á hendi landshlutaveitna. En vera má að mönnum hafi þótt óeðlilegt að ekki skuli vera getið um rekstur hitaveitna í fyrsta lið till., þar sem rætt er um landsveituna. Um þetta var mikið fjallað hjá okkur, en við hurfum frá því, því að sjálfsögðu, eins og ég þarf ekki að segja hv. þm., verður hitaorkan ekki flutt á milli landshluta. Allt öðru máli gegnir um hitaorku en raforku. Hitaorkan er staðbundin og virðist vera ákaflega litið við það unnið að fela einni landsveitu að reka hitaveitur sem eru staðbundnar við ákveðna landshluta. Slíkur samrekstur getur alls ekki leitt til þeirrar hagkvæmni sem er augljós í samrekstri á raforkuöflun. Þarna er um allt annað mál að ræða. Ég vona að mér hafi tekist að leiðrétta þennan misskilning. Við teljum m.ö.o. að ekki eigi að gera ráð fyrir því að landsveita yfirtaki rekstur allra hitaveitna, alls ekki. Við teljum það rangt.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson flutti allítarlega ræðu. Ég gat ekki heyrt annað en hann styddi þessa till. mjög eindregið. Mér fannst hins vegar að fram kæmi, að ýmsir vildu Lilju kveðið hafa. Ég gat ekki merkt annað. Mér heyrðist hann styðja hvert atriði sem fram kemur í till., en leitaði þó eftir einhverjum leiðum til að gera aths. Hann gerði m.a. þá aths., að ekki fylgdu till. eða málflutningi mínum nægilegar tölulegar upplýsingar. Ég biðst afsökunar á þessu. Ég vil segja, þótt hv. þm. sé reyndar farinn, að ég gekk satt að segja í einfeldni minni út frá því, að hv. þm. hefðu aðgang að upplýsingum sem er dreift mjög víða, m.a. frá Orkustofnun, í riti Orkustofnunar sem kemur út reglulega, Orkumálum, og hér er fylgirit Orkumála sem veitir mjög ítarlegar upplýsingar. Hérna er einnig, gefið út af Sambandi ísl. rafveitna reglulega, yfirlit um orkumálin, allt saman ákaflega aðgengilegt. Vitanlega er auðvelt að kasta svona skjali eða jafnvel þessari bók allri í prentun hjá Alþ., það er ákaflega auðvelt, og ég hef tekið eftir því, að sumir gera það. En ég get nú ekki séð að því fylgi neinn sparnaður í rekstri þingsins. Ég held að mikið skynsamlegra væri að gera ráðstafanir til að allir þm. fái það sem þegar er til á prenti, og ef þess er óskað skal ég með ánægju gera það. Ég ætla ekki að lesa upp hér töflu yfir 24 rafveitur, smásöluverð þeirra, — eða finnst hv. þm. að tíma okkar væri vel varið til þess? Hér er raforkusala 1975 og hér er hún 1976 og hér er getið um meðalverð frá 24 rafveitum á landinu. Ég tók þann kostinn að lesa styttri töflu um heildsöluverð raforku, m.a. vegna þess að með þessari till. teljum við okkur vera að stefna að verðjöfnun í heildsölu fyrst og fremst. Ég tek undir það, sem var sagt áðan af einum hv. þm., ég hygg að það hafi verið hv, þm. Jón Árm. Héðinsson, um erfiðleikana á algerum jöfnuði í smásölu. En mér fannst það skipta miklu máli að gera grein fyrir þeim verðmismun sem er núna í heildsölu raforkunnar, sem er e.t.v. meiri en þm. kunna almennt að gera sér grein fyrir. En sem sagt, ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki látið prenta þessar bækur upp að nýju hér á hinu háa Alþingi.

Ég gat þess áðan, að hv. 3. þm. Vestf. flutti hér ítarlega ræðu um orkumálin, og fagna ég því. Ég vil þakka honum fyrir þær upplýsingar og þau sjónarmið sem þar komu fram. Hv. þm. ræddi málefnalega um þessa till. og fann á henni bæði kosti og lesti. Ég get verið sammála mjög mörgu. Ekkert skipulag er svo gott að algilt sé og eingöngu gott, Hins vegar var heildarniðurstaða mín af málflutningi hv. þm., að í flestum atriðum sæi hann raunar kosti við þetta skipulag. Hv. þm. gat þess réttilega, að að sjálfsögðu væri auðveldara að ná samræmingu með heildarstjórn, og þetta held ég að við þm. getum allir verið sammála um. Hann óttaðist hins vegar, að heildarstjórn kynni að leiða til of mikillar miðstýringar og sérstaklega yrði ekki dregin fram nægilega góður rekstur einstakra rafveitna. Þessu hefur hv. þm. Halldór Ásgrímsson svarað og ég get út af fyrir sig verið sammála því. En ég vil þó til viðbótar vekja athygli á því, að við gerum ráð fyrir landshlutafyrirtækjum um land allt, eins og landsmenn kunna að kjósa. Að sjálfsögðu kemur fram í rekstri þessara landshlutaveitna góður og slæmur rekstur, svo að það er langt frá því að fyrir þetta sé girt.

Ég er því alveg sammála, sem hv. þm. sagði, að vitanlega er samtenging hugsanleg með mörgum fyrirtækjum. Ég hef engan heyrt halda því fram að hún væri ekki hugsanleg í mörgum fyrirtækjum. En ég vil halda því fram, að rekstur slíkrar samtengingar sé stórum auðveldari á einni hendi heldur en t.d.. eins og stundum hefur verið slegið fram, að skipta samtengingunni eftir því hvar hún gengur í gegnum landið. Ég hef aldrei getað fellt mig við þá hugsun, að landshlutaveita í einum landshluta eigi að reka háspennulínuna meðan hún fer þar í gegn. Hvernig verður þegar bilar, eins og gerðist hér um daginn? Eiga þá allar þessar landshlutaveitur að kalla út sitt viðgerðarlið til að leita að bilun? Er ekki miklu betra að þetta sé á einni hendi og samræmt í einu fyrirtæki? Við höfum því um rekstur slíkrar samtengingar okkar efasemdir.

Hv. þm. gat þess, að verðjöfnun væri auðveldari með þessu móti. Þetta er að okkar mati mjög stórt atriði. Við viljum, og teljum það yfirlýsta stefnu Alþ., að að verðjöfnun, a.m.k. í heildsölu. verði stefnt. Rætt hefur verið nokkuð um rekstrarhagkvæmni. stórar einingar. Ég vil vísa til þess, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði um það.

Eitt kom fram í ræðu hv. þm. sem ég verð að minnast lítillega á. Það er hvort beita eigi eignarnámsheimild til þess að taka hlut t.d. Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun eða jafnvel að taka eignir Laxárvirkjunar. Ég vona að aldrei komi til slíks. Í fyrsta lagi, eins og ég hef nefnt, hefur Laxárvirkjun heimild til þess að ganga inn í Landsvirkjun og hið opinbera er þar náttúrlega ákaflega stór aðili, og það er von mín að fyrir tilstilli ríkisvaldsins verði Landsvirkjun tilleiðanleg til þess að verða landsveita, þetta náist með samkomulagi. Ef sá heildarrammi, sem hér er rætt um, verður samþykktur gæti t.d. sú nefnd, sem hér hefur oft verið nefnd, athugað þetta, hún gæti kannað þetta hjá Landsvirkjun. Þarna er eitt mjög verðugt verkefni fyrir þessa nefnd, sem hún ætti gjarna að snúa sér að, þótt verkefnin séu mörg. Ég vil því lýsa þeirri von minni, að ekki komi til eignarnáms. Hitt er svo annað mál, að ef hv. Alþ. ályktar að eitthvert meginskipulag skuli verða, þá verður vitanlega að beita þeim ráðum sem nauðsynleg eru til að ná því, en ég vona að ekki komi til eignaupptöku. Ég hygg satt að segja, að mönnum sé að verða ljósara og ljósara, að rétt sé að reka orkuver landsins á samræmdan máta, og skilningur á því fari mjög vaxandi.

Hæstv. iðnrh. flutti ræðu hér áðan, og þótt hann sé ekki á þessum fundi vil ég þó nefna nokkur atriði í því sambandi. Hæstv. iðnrh. henti réttilega á samþykktir, bæði Sambands ísl. rafveitna og Sambands ísl. sveitarfélaga frá 1972 og 1973, sem m.a. lögðu saka áherslu á sameign sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Í okkar till. leggjum við einnig ríka áherslu á sameign ríkisvalds og sveitarfélaga, bæði í landsveitunni, þar sem við teljum þó eðlilegra að sameiginlegur aðili eins og ríkisvaldið eigi 50%, og einnig í landshlutaveitunum, sem sveitarfélögin mættu gjarnan eiga að meiri hluta, ef þau óska, að mínu mati.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að síðan 1972 og 1973 hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar breytingar hafa orðið. Ekki var byrjað á Kröflu 1972–1973, og grunur minn er sá, að sumir í hugsaðri Norðurlandsveitu muni hugsa sig um tvisvar áður en þeir taka við Kröflu. sem er á þeirra svæði, og mig grunar, og satt að segja hefur það komið fram í þeirri nefnd, sem hér hefur oft borið á góma, að afstaða Norðlendinga kunni að hafa gerbreyst af þeim hlutum, sem orðið hafa síðan. Norðlendingum er ljóst. að ef þeir taka við Kröflu yrðu þeir að tryggja sér gífurlega mikið verðjöfnunargjald til þess að ná sama raforkuverði og t.d. er hér á Suðvesturlandi. Ég held að þeir séu ekkert sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að stofna til slíks. Þetta er að sjálfsögðu persónulegt mat mitt á því sem fram hefur komið hjá mönnum, sem bæði ég hef rætt við persónulega og ásamt fleirum. Ég vil einnig vekja athygli á því, að í starfi sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur síðan unnið í þessum málum, þar sem rætt er um skiptingu sveitarfélaga og ríkisvalds, hefur þessi mál borið á góma og mér er kunnugt um að áhersla á landshlutaveitur með orkuöflun virðist vera mjög minnkandi. En það er allt rétt og satt, sem hæstv. ráðh, sagði, þótt ég veki athygli á því, að ýmislegt hefur breyst í þessu sambandi.

En það sem ég vildi fyrst og fremst ræða um í sambandi við ræðu hæstv. ráðh. voru tilmæli hans um að ekki yrði svo þrýst á að þessi till. hlyti samþykki hér á þingi áður en títtnefnd nefnd um orkumál hefur starfað nokkru lengur. Ég fellst á þessi tilmæli. Við munum alls ekki þrýsta svo á, að þessi till. fái sérstaklega hraða afgreiðslu. Ég vil leggja áherslu ú að sjálfsögðu, að till. verði samþ. á þessu þingi, en ég vil hins vegar vekja athygli á því, að tilganginum hefur að nokkru verið náð með yfirlýsingum. Fyrst og fremst liggur fyrir afstaða Framsfl. í þessu máli. Ef ég skil rétt afstöðu fyrrv. form. Alþb., þá liggur fyrir afstaða Alþ. í þessu máli. Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði skýrum orðum að Alþfl. væri fylgjandi slíku skipulagi. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur einnig tjáð sig samþykkan þessu skipulagi í meginatriðum. Þannig hefur náðst fram þegar í þessari ágætu umr. viljayfirlýsing meiri hl. hv. Alþ. Það sýnist mér vera ákaflega gott veganesti fyrir þá n., sem um þessi mál fjallar, og ætti að auðvelda störf hennar. En ég vil gjarnan láta það berast til hæstv. ráðh., að við munum alls ekki þrýsta svo á, að þessi till. fái óvenju hraða afgreiðslu, og verð því við tilmælum hans í þessu sambandi.

Ég vil svo lýsa ánægju minni með þessar umr. og margt sem hér hefur komið fram. Ég vil að lokum nefna það, að mér mun hafa láðst í framsögu minni að mæla með n., en ég vil þá gera það nú. Ég legg til að máli þessu verði vísað til atvmn. að lokinni þessari umr.