23.11.1977
Efri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

90. mál, iðjuþjálfun

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram um iðjuþjálfun, hefur verið samið í heilbr.- og trmrn. eftir beiðni Iðjuþjálfafélags Íslands.

Það mun hafa verið snemma árs 1976 að þessi beiðni barst, en þá lá einmitt fyrir Alþ. frv. til l. um sjúkraþjálfun sem fól í sér gagngera endurskoðun og breyt. á l. nr. 31 frá 1962 um sama efni. Það frv. varð síðan afgreitt frá Alþ. sem lög á árinu 1976.

Frv, það, sem nú liggur fyrir, er efnislega samhljóða lögum um sjúkraþjálfun eins og þau voru endanlega samþykkt hér á Alþ. Hér er um að ræða hliðstæðar stéttir þótt menntun sé önnur og störfin þar af leiðandi ekki heldur þau sömu.

Stétt iðjuþjálfa er ung hér á landi, þótt iðjuþjálfun í einhverri mynd eigi sér að sjálfsögðu lengri sögu. Gildi starfs eða iðju til hjálpar geðsjúku fólki hefur t.d. verið þekkt síðan á dögum Forn-Grikkja. Markvíss notkun á iðju eða störfum til læknismeðferðar fyrir allar tegundir sjúklinga hefur hins vegar aðeins verið viðurkennd síðan 1918. Meðferð eða lækning með iðjuþjálfun fer þannig fram, að iðjuþjálfinn notar gagnlegar athafnir eða störf, aðlagar þau og sníður til í þeim tilgangi að mæta fjórum mikilvægum þörfum sem fólk hefur yfirleitt: þörf fyrir vinnu, skemmtun eða tómstundaiðju, þörf fyrir menntun og þörf til þess að skapa. Meðferð sjúklingsins stefnir almennt að því að gera hann færan um með sem allra minnstri hjálp annarra að klæða sig, matast, fara í bað, fara á salerni, annast um heimili, komast um inni og úti og stunda vinnu eða tómstundaiðju við sitt hæfi. Stundum þarf að fara heim með sjúklingnum, gera tillögur um breytingar á húsnæði, svo hann geti verið heima, t.d. ef hann er í hjólastól eða þarf önnur slík hjálpartæki til að komast um. Þá er stundum þörf fyrir einfaldar spelkur og önnur slík hjálpartæki og kemur því oft í hlut iðjuþjálfans að búa slíka hluti til eða hjálpa til við að útvega þá. Í stuttu máli má segja að iðjuþjálfun afmarkist ekki af notkun neinna ákveðinna athafna út af fyrir sig svo sem handavinnu, heldur eru það verkefnin hverju sinni sem ákvarða meðferðina og er þá næstum hv að sem vera skal notað sem meðferðartæki.

Eins og áður sagði er þessi starfsgrein mjög ung hér á landi. Um 15 iðjuþjálfar með fulla menntun og réttindi eru nú við störf á Íslandi, bæði við geðlækningar og líkamlega endurhæfingu. Iðjuþjálfafélag Íslands var stofnað í mars 1976. Rétt til inngöngu í það hafa allir löggiltir iðjuþjálfar sem lokið hafa prófi frá viðurkenndum iðjuþjálfaskóla, þ.e.a.s. viðurkenndum af Alþjóðasambandi iðjuþjálfa. Slíkur skóli er ekki til hér á landi, en áætlun hefur verið gerð um menntun iðjuþjálfa við Háskóla Íslands í tengslum við nám í sjúkraþjálfun sem nú hefur verið tekið upp.

Nám iðjuþjálfa tekur víðast hvar um 3 ár, sums staðar þó 4 ár, á einstaka stað aðeins 2 ár. Námið er allviðamikið og vil ég í því sambandi vísa í upptalningu á bls. 3 í grg. með framlögðu frv.

það er mat heilbr: og trmrn., að tímabært sé orðið að setja lög um iðjuþjálfun og iðjuþjálfa og veita þannig þessari stétt lögverndaða viðurkenningu á starfsréttindum og starfsheiti.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er frv. þetta samið með hliðsjón af þeirri afgreiðslu sem frv. til l. um sjúkraþjálfun fékk á Alþ. á sínum tíma, og er því von mín að frv. um iðjuþjálfun geti fengið góða og greiða meðferð á Alþ. Um einstakar greinar frv. sé ég ekki á þessu stigi ástæðu til að fjalla, en leyfi mér að vísa til athugasemda með frv.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn.