23.11.1977
Neðri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

21. mál, kosningar til Alþingis

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það hefur nógsamlega verið fram tekið, en rétt þykir mér þó að geta þess þegar í upphafi máls míns, að það efni, sem hér er til umr., komst fyrst verulega á dagskrá á opinberum vettvangi í þessari lotu eftir samtalsþátt í sjónvarpi, fyrir rúmum tveimur mánuðum mun það vera, þar sem formenn allra flokka, sem menn eiga á þingi, voru til kvaddir að ræða aðdraganda kosninganna sem fram fara á næsta ári að réttu lagi. Þessar umr. flokksformanna tóku brátt að snúast um það einkanlega, hvort rétt væri að gera þá breytingu á kosningalögum að auka áhrif kjósenda á það, hverjir af framboðslistum hljóti kosningu. Það var minn skilningur, en ég tók þátt í þessum umr., að formennirnir allir hefðu í meginatriðum lýst fylgi sínu við breytingu á þennan veg, og sérstaklega var rætt um breytingu í þá átt, sem gert er ráð fyrir í frv. hv. 4. þm. Reykn. á þskj. 21. Það vil ég ekki fullyrða eftir minni, að sá háttur á breytingu, að kjósendur raði einir frambjóðendum í þeirri röð sem þeir hljóta þingsæti, hafi hlotið eindregnar undirtektir þeirra sem þarna ræddu málið, en a.m.k. var henni alls ekki hafnað af neinum þeirra og ég skildi undirtektirnar sem jákvæðar.

Nú hefur það komið á daginn, eins og hv. flm. skýrði frá í framsöguræðu sinni, að upptaka á þessum samtalsþætti hefur farið gersamlega í handaskolum hjá sjónvarpinu, svo að engin leið er að gera sér grein fyrir samhengi viðræðnanna af þeim slitrum af uppskrift sem ég hef séð. Ég tel þetta mjög miður farið. Það er mjög bagalegt að þar sem talsmenn og formenn allra flokka landsins koma saman og ræða mál sem varðar hvern og einn einasta kjósanda í landinu, þá skuli það ekki liggja fyrir hjá þeirri stofnun, sem annast þetta samtal og sendir það út til landslýðsins, nákvæmlega hvað þeim fór á milli, svo að hægt sé að glöggva sig á orðaskiptum eftir á þannig að þar fari ekkert á milli mála. Af þessu tilefni langar mig til að beina nokkrum orðum til hæstv. menntmrh., sem var hér í salnum þegar ég hóf mál mitt, en virðist nú hafa vikið af fundi, og þætti mér vænt um ef hæstv. forseti léti gera honum viðvart. (Forseti: Ég vil tjá hv. ræðumanni að það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að gera hæstv. menntmrh. viðvart og hann kemur hér áreiðanlega í salinn, ef nokkur leið er fyrir hann að komast hingað á örskammri stundu. Hann kann að vera kominn úr húsinu.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir skjótar og góðar undirtektir undir þessa heiðni mína, og meðan beðið er menntmrh. mun ég halda áfram máli mínu um önnur atriði sem ekki varða beint það sem ég vildi heina til hans.

Þá er þar til að taka, að þetta mál var síður en svo nýtt af nálinni þegar það kom til umr. á fundi flokksformannanna í sjónvarpssal. Það hefur verið meira og minna á dagskrá allt síðan ungliðasamtök þriggja stjórnmálaflokka gerðu sameiginlega álitsgerð um breytingar á kosningalögum, þar sem tillögur þeirra gengu m.a. mjög í þá átt, að breytt yrði frá ríkjandi fyrirkomulagi í það horf að auka áhrif kjósandans á hverjir frambjóðendur verða fyrir vali til þingsetu í stórum kjördæmum, þar sem hlutfallskosning fer fram eins og hjá okkur hefur verið regla frá 1959.

Þó að þessar umræður hafi átt sér stað, m.a. hefur þetta mál borið á góma hér á þingi og einnig í blöðum, þá veit ég ekki til að talsmenn stjórnmálaflokkanna hafi formlega tjáð sig um þetta atriði fyrr en í þessum sjónvarpsþætti fyrir tveimur mánuðum rúmlega.

En nú er málið komið hér inn á þing og meira að segja í tveimur útgáfum, í þáltill., sem rædd var í Sþ. fyrir nokkrum vikum, og í því frv., sem hv. 4. þm. Reykn. flytur og nú er til umr. Í frv. hv. 4. þm. Reykn. er gert ráð fyrir gagngerri breytingu á kosningalögum á þann hátt, að flokkar beri fram óraðaða framboðslista, en kjósendur setji síðan þá röð á frambjóðendur, sem þeir álita rétta, og fari síðan eftir röðun kjósendanna hverjir af listum hljóta kosningu samkv. atkvæðamagni. Þetta er tvímælalaust mjög þýðingarmikið mál, sem varðar inntak almenns kosningarréttar í landinu, og því ekki óeðlilega að um það skuli hafa orðið allmiklar umræður.

Ég gerist nú úrkula vonar um að hæstv. menntmrh. sé tiltækur að hlýða á þau orð, sem ég vildi beina til hans, og vil því vænta þess, að þau berist til hans boðleið — eða inntak þeirra — með flokksbræðrum hans sem hér eru í salnum. Þau eru á þá leið, að ég vildi beina því til hæstv. ráðh. að þetta atvik, sem orðið hefur í sjónvarpinu, gefi fullt tilefni til að kannað yrði af dómbærum mönnum utan þeirrar stofnunar, hversu það má ske að upptaka af slíkum þætti, sem varðar stjórnmálastarf í landinu, fer í handaskolum þannig að enginn getur fortakslaust sagt um hvað þar hefur farið milli manna. Það ætti að mínum dómi að vera mjög auðvelt að ganga úr skugga um þetta, hvort þarna hefur verið um persónuleg mistök að ræða, hvort um hefur verið ræða gölluð tæki, en hefði svo verið eiga þau tæki að bera aðvörunarmerki og gera vart við, ef upptaka á sér ekki stað þegar tækin hafa verið stillt á upptöku. En hvernig sem í málinu liggur tel ég að sé nauðsynlegt að það komist á hreint, hvernig svona atvik vill til, ef það mætti verða til þess að slík mistök yrðu ekki aftur þegar svipað stendur á.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að taka þessa beiðni til greina og kynni Alþ. niðurstöður hennar þegar þær liggja fyrir, bæði orsakir þessara mistaka og eins þær ráðstafanir sem að athugun lokinni þykir rétt að gera til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig:

Þótt mál þetta hafi þegar komið fram í tveimur þskj., þá bar það með skjótum hætti á góma strax á fyrstu dögum þingsins, þegar það var tekið upp utan dagskrár, áður en nokkur þingmál voru komin á dagskrá, vegna fsp. hv: 9. þm. Reykv. til forsrh. Þá svaraði forsrh. á þá leið, að ríkisstj. hefði ákveðið að beita sér fyrir viðræðum milli þingflokkanna um hugsanlegar breytingar á kosningalögum, m.a. í þá átt að auka valfrelsi kjósenda um frambjóðendur. Síðan eru liðnar 6 vikur fyllilega og ekki lætur sú nefndarskipun eða þær viðræður, sem forsrh. boðaði; á sér kræla.

Það er því ekki að ófyrirsynju að einstakir þm. hafa séð ástæðu til að hreyfa þessu máli.

Eins og ég gat um áðan, hafa auk hv. 4. þm. Reykn. fimm þm. Alþb. með hv. 5. þm. Norðurl. v. í broddi fylkingar borið fram þáltill. sem tvímælalaust gengur í sömu átt og frv. á þskj. 21, en er þó alls ekki eins ákveðin um leiðir. Það var athyglisvert, að í ræðu hv. 2. þm. Austurl. um þetta mál kvað við allt annan tón heldur en í þáltill. flokkssystkina hans og sér í lagi framsöguræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. Hv. 2. þm. Austurl. túlkaði þetta mál þannig, að það væri í rauninni tilræði við stjórnmálaflokkana í landinu, sem væru kjölfesta stjórnmálastarfsins, og fann því allt til foráttu. Þann röðunarrétt kjósenda, sem fimm þm. Alþb, höfðu tjáð sig meðmælta kallaði hv. 2, þm. Austurl., ef ég man rétt, gervilýðræði eða sýndarlýðræði sem einskis væri vert í raun. Og ég get ekki annað en gert að umtalsefni sumar af þeim móthárum sem hv. 2. þm. Austurl. bar fram.

Til að mynda færði hann það fram í máli sínu, að það yrði allt of erfitt fyrir kjósanda að kjósa, ef hann þyrfti að merkja kjörseðilinn frekar en að gera einn kross við listabókstaf þess flokks sem hann velur. Þessi mótbára vekur satt að segja hjá mér endurminningar um sumar af þeim röksemdum sem á sinum tíma voru hafðar uppi gegn almennum kosningarrétti. Þá var því m.a. haldið fram af sumum, sem beittu sér gegn því að almennur kosningarréttur yrði upp tekinn, að hann mundi leiða til þess, að kapphlaupið milli frambjóðenda eða flokka snerist fyrst og fremst um að ánetja síðasta fáráðlinginn, eins og kallað var. Það er alls ekki gild mótbára að mínum dómi gegn auknu valfrelsi kjósenda, að það geti talist kjósendahópnum í heild ofætlun að gera meira á kjörstað en setja einn kross við listabókstaf.

Ég tel að sama máli gegni um þá röksemd, sem uppi hefur verið höfð, að kosning af óröðuðum lista, þ.e.a.s. lista sem fram væri borinn af flokki með nöfnum í stafrófsröð, mundi verða til þess að bæta mjög hlut þeirra manna sem framarlega eru í stafrófinu. Það er algjörlega ómakleg aðdróttun að íslenskum kjósendum, að þeir séu svo illa að sér að þeir kunni ekki stafrófið og geti ekki fundið nöfn þeirra manna sem þeir vilja að gangi fyrir um þingsetu, hvort sem þau eru framarlega eða aftarlega í stafrófinu. Svo er það algjör misskilningur, að kosningafyrirkomulag það, sem gert er ráð fyrir í frv. á þskj. 21, leiði til þess, að þeir, sem raði ekki gagngert á listann, heldur velji það að merkja eingöngu við listabókstafinn, — þeir greiði atkv. með þeim hætti að þeir, sem efst standi, vegna þess að nöfn þeirra eru framarlega í stafrófinu, hljóti stærri hluta úr atkvæði en aðrir. Þvert á móti, atkv. þannig greidd skiptast algjörlega jafnt á frambjóðendur, hvort sem nöfn þeirra byrja á A eða Ö. Það, sem þessi aðferð felur í sér, er að þeir kjósendur, sem treysta sér til og vilja hafa fyrir því að raða frambjóðendum á óröðuðum lista, þeir ráða því algjörlega í hvaða röð frambjóðendur hljóta kosningu. Atkv. þeirra, sem ekki kjósa að raða, heldur greiða aðeins listanum atkv., skiptast hnífjafnt milli frambjóðenda. Þarna er því ekki um það að ræða að mínum dómi að aðferðin sjálf hafi í sér fólgna neina mismunun eftir því hvernig listi væri skipaður af flokksins hálfu, hvort sem hann væri í stafrófsröð, öfugri stafrófsröð eða nöfnunum raðað eftir hlutkesti. Og það er algjörlega úr lausu lofti gripið og tilefnislaust að gera því skóna, að íslenskir kjósendur séu svo miklum mun verr að sér, sérstaklega í stafrófinu, eftir allar þær umr. um bókstafi sem farið hafa fram á Alþ., að þeim sé ekki trúandi fyrir rétti og vanda sem kjósendur í öðrum löndum hafa notið árum ef ekki áratugum saman og farið með án allra slysa og að því er virðist við mikla ánægju kjósenda og flestra flokka. T.a.m. í Danmörku, þar sem flokkarnir ráða því sjálfir hvort þeir raða frambjóðendum í forgangsröð eða láta kjósendur um það, þar hafa allir flokkar nema tveir, eftir því sem ég hest veit, tekið þann hátt upp að bera fram óraðaða lista og láta kjósendurna um alla forgangsröðun á frambjóðendunum. Hugsanlegt er auðvitað hér, ef einhverjir flokksforingjar vantreysta svo kjósendum sinum að þeir telja þá ekki færa um að fara með röðunarréttinn, að hafður verði svipaður háttur á og í Danmörku, að flokkunum sé þetta í sjálfsvald sett. En það er sannfæring mín að brátt mundi færast í það horf, þótt flokkarnir hefðu þetta valfrelsi, að þeir mundu allir sýna kjósendum það traust og þann trúnað sem í því felst að röðunarrétturinn sé þeirra.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því, að þessi röðunarréttur kjósendanna allra með tölu, sem kjósa hvern flokk, er langtum yfirgripsmeiri og að mínum dómi miklu heilbrigðari og heilladrýgri en sá prófkjörsréttur sem sumir flokkar hafa gert mikið að því að heimila flokksmönnum sínum eða stuðningsmönnum. Það hefur verið bent á ýmsa vankanta á þessu prófkjörsfyrirkomulagi, svo sem að ýmsir, sem erindi ættu í framboð, séu tregir til að taka þátt í þeirri baráttu innan flokks, sem því fylgir, sömuleiðis þegar tiltölulega fámennir flokkar eiga í hlut, þá geti fylgismenn annarra flokka hæglega komið af hrekkvísi inn í prófkjör þeirra og haft þar áhrif. Fyrir allt slíkt er girt ef röðunarréttur kjósandans er viðurkenndur á þann hátt sem ráð er fyrir gert í frv. á þskj. 21. Þá standa allir jafnt að vígi sem kjósa að greiða ákveðnum flokki atkv. Þá hafa þeir allir jafna aðstöðu og jafnan rétt til þess að ráða í hvaða röð frambjóðendur af þeim lista taka þingsæti.

Þá hefur því verið haldið fram, að fólk muni reynast seint að taka við sér og nota röðunarréttinn í kosningum þótt honum væri komið á. Ég tel það hreina getgátu að svo færi. Þvert á móti tel ég að stjórnmálaáhugi sé svo ríkur með Íslendingum og kjördæmin ekki stærri eða fjölmennari en það, að allur þorri kjósenda muni treysta sér til að hafa áhrif á röðun frambjóðenda til þingsæta og muni nota sér þann rétt. En eins og ég gat um, þá er það ekki skylda að nota sér þennan rétt. Þeir, sem aðeins vilja greiða flokknum atkv., en ekki hafa áhrif á röðun frambjóðenda til þingsæta, geta greitt sitt fulla atkv., en það skiptist þá jafnt á alla frambjóðendur á listanum. Það eru þeir, sem hafa fyrir því að raða frambjóðendum, sem ráða því, í hvaða röð þeir hljóta þingsæti eftir atkvæðamagni flokksins.

Aftur á móti er tvímælalaust að prófkjörin gera þeim kjósendum, sem eru flokksbundnir og vilja tjá fylgi sitt opinherlega, mun hærra undir höfði en þeim hluta kjósenda, sem ekki kærir sig um að láta flokksfylgi sitt uppi, heldur lætur það aðeins koma fram í lokuðum kjörklefa á kjördag. En þeir eiga einnig sinn rétt að mínum dómi, sem aðeins verður tryggður og virtur á þann hátt, að röðunarréttur kjósenda sé viðurkenndur í kosningalögunum.

Hv. 4. þm. Austf. sagði hér í umr. um daginn að 10–20% kjósenda mundu ráða, hverjir þingsæti hlytu, ef þessi háttur væri upp tekinn. Ég tel þetta algera fjarstæðu og leiddi rök að því áðan, að þátttaka í röðun á kjördag yrði tvímælalaust almenn og margfalt meiri en þetta. Svo var það nokkurt einkenni á ræðu hv. 4. þm. Austf., að hann talaði mjög um útstrikanir, gamla útstrikunarréttinn, eins og það væri hann sem fyrst og fremst væri til umr. Með þeirri breytingu, sem gerð yrði ef þetta frv. yrði að lögum, væri í rauninni útstrikunarrétturinn úr sögunni, enda var eðli hans, og að sumu leyti notkun, aðalröksemdin fyrir því, að breytt var svo kosningalögum 1959 að réttur kjósanda til að hafa áhrif á röðun á framboðslista var rýrður um 2/3 og í rauninni að engu gerður, eins og reynslan í kosningum síðan hefur sýnt. Það er tíska, sagði 4. þm. Austf., að kalla það lýðræði að sem allra fæstir hefðu tök á að breyta röð frambjóðenda. Þetta er algert öfugmæli miðað við efni þess frv. sem hér liggur fyrir. Hér er þvert á móti hverjum og einum kjósanda gefinn jafn réttur til að ráða því, í hvaða röð frambjóðendur hljóta kosningu. Það er miklu rýmri réttur, það er miklu almennari réttur heldur en sá sem tíðkaður er, jafnvel í prófkjörum, sem hingað til hafa verið viðtækasta aðferðin til að gefa kjósendum tækifæri til áhrifa á röðunina.

Það er alveg ljóst, að ríkt er í hugum ýmissa hv. þm. að með þeirri hreytingu, sem gert er ráð fyrir í frv. hv. 4. þm. Reykn., væri vegið að flokkunum og staða þeirra skert. Slík skoðun er á misskilningi byggð að mínum dómi. Eftir sem áður væru það flokkarnir, félög þeirra eða ráð, sem ákvæðu hverjir á framboðslistann færu. Það væri hins vegar tvímælalaust stuðningur og styrkur við þá alþm., sem næðu kosningu með þessari aðferð, að hafa slíka eindregna persónulega stuðningsyfirlýsingu kjósenda sinna að haki. Það væri meiri styrkur og meira traust að því fyrir alþm. heldur en að flokkur hefði skipað þeim á lista í sæti sem samkv. fylgi flokksins mætti telja öruggt, að frambjóðandinn næði kosningu eingöngu vegna útnefningar flokksins í öruggt sæti og kjósendahópurinn gæti í rauninni, eins og málum er nú háttað, ekki haft áhrif á þá niðurstöðu.

Þá hefur það verið haft á orði að þessi breyting á kosningafyrirkomulagi mundi ýta undir klíkuskap, klíkumyndun í flokkum, og í því tilefni hefur einnig verið vitnað til reynslunnar af útstrikunarreglunni gömlu. Það er alveg rétt, sem fram hefur komið, að með þá reglu að bakhjarli gátu takmarkaðir hópar fylgismanna flokka með nokkrum hætti komið aftan að flokkssystkinum sínum með því að bindast með meiri eða minni leynd samtökum um hreytingar á þeirri röðun sem flokkarnir höfðu ákveðið. En þetta snýr allt öðruvísi við eftir að röðunarreglan væri orðin almenn. Þá væri ekki um það að ræða að komið væri aftan að einum né neinum, allir gengju að því frá öndverðu að það væri kjósendaviljinn, sem röðinni réði, og allir stæðu jafnt að vígi í því efni. Þar yrði ekki neinum launráðum við komið.

Ég tel því algerlega ástæðulaust að halda því fram, að þetta fyrirkomulag, sem lagt er til hér, ýti undir klíkuskap í flokkum frekar en alltaf á sér stað. Það er alltaf einhver meiningarmunur um menn og málefni í flokkum og eðlilegt að það komi fram í afstöðu til frambjóðenda. Það gerist hver svo sem háttur er á framboði og kosningu.

Þá hefur því einnig verið haldið fram, að röðunarréttur kjósandans mundi ýta undir lýðskrum einstakra frambjóðenda í kosningum. Ég bið þá, sem þessu halda fram, að leiða hugann að því, hvort prófkosningafyrirkomulagið, sem tvímælalaust mundi ryðja sér til rúms enn meira en orðið er ef engin breyting væri að þessu leyti gerð á kosningalögum, ýti síður undir lýðskrumstilhneigingar. Lýðskrum getur alltaf átt sér stað, hvernig svo sem frjálsu stjórnmálastarfi er fyrir komið, og ráðið við því er ekki einhverjar tilteknar reglur um framboð, heldur það traust sem lýðræðisskipulaginu samkv. er borið til kjósendahópsins, þar sem hann kemur allur saman, þar sem hann skilar sér á kjördegi í allri þeirri fylkingu sem kærir sig um að hafa áhrif á skipun löggjafarsamkomu þjóðarinnar.

Ég held, þvert á móti því sem fram hefur verið haldið hér, að það mundi verulega rýra traust almennings, traust kjósenda á flokkunum, eftir það sem á undan er gengið, eftir það sem formenn þeirra allra hafa sagt í áheyrn alþjóðar, þótt það finnist nú hvorki á segulbandi né blaði, svo að ég viti til. (Gripið fram í.) Ég gleðst yfir því, að hv. 4. þm. Reykn. virðist hafa fengið þetta þýðingarmikla plagg einhvers staðar hjá aðilum sem hafa betri upptökutæki eða kunna betur með þau að fara heldur en sjónvarpsmenn. En ég vil hafa það mín síðustu orð hér, að fráhvarf frá þessu ráði, sem mikið hefur verið rætt og á sér tvímælalaust mikið fylgi meðal kjósenda, mundi verða til þess að rýra traust manna á flokknum. Það er ekki vænlegt fyrir flokkana, eftir það sem á undan er gengið, að láta það verða niðurstöðu málsins að þeir vilji halda þessum málum í sínum höndum með sama hætti og verið hefur, þeir vilji í hæsta lagi efna til prófkjöra eftir einhverjum ákveðnum reglum sem þeir setja sér hver um sig eftir sinum sjónarmiðum og sínum hagsmunum, en þeir vilji alls ekki fallast á almennan röðunarrétt allra kjósenda á framboðslistanum á kjördegi. Það verður ekki til að auka álit flokkanna ef slík verður niðurstaðan af þessu máli.

Og því lengur sem málið er rætt, þeim mun ljósara er, að á miklu ríður að ríkisstj. geri alvöru úr yfirlýstri ætlun sinni að beita sér fyrir viðræðum þingflokkanna um málið. Ég skora því á ríkisstj. og sér í lagi hæstv. forsrh. að hafa hraðan á. Frammistaða ríkisstj. í þessu máli getur ráðið úrslitum um það, hvort málið nær fram að ganga á þessu þingi eða ekki.