23.11.1977
Neðri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

21. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Frv. það, sem við höfum hér verið að ræða á nokkrum þingfundum, hefur hlotið í hv. d. nokkuð misjafnar undirtektir þeirra sem talað hafa. Fyrir fram þóttist ég vita að svo mundi verða, enda efni frv. þess eðlis að ekki verður talið óeðlilegt að mönnum sýnist sitt hvað um það. Ég vil, áður en ég vík að því sem fram hefur komið í umr., sérstaklega þakka undirtektir tveggja hv. þm, við frv. og þá sérstaklega þess, sem nú var síðast að tala á undan mér, hv, þm. Magnúsar T. Ólafssonar, sem flutti hér mjög skilmerkilega ræðu og vék að ýmsum þeim aths. og mótbárum sem komið hafa fram í umr. gegn frv. Ég sé líka ástæðu til þess að þakka formanni Alþfl., Benedikt Gröndal, fyrir jákvæðar undirtektir, þó að hann hefði ýmsar aths. fram að færa við efni frv., enda hef ég tvívegis látið í ljós að ég er opinn fyrir allri samvinnu um breytingar á frv. í meðferð þingsins. Takmark mitt er það eitt að gera rétt hins almenna kjósanda í landinu meiri en hann er nú til þess að ráða því hverjir skipa hér þingbekki.

Enn fremur vil ég í tilefni af ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, sem tók hvað minnst undir frv. af öllum þeim sem talað hafa, taka það fram, að ég hlýt að þakka 5 flokksbræðrum hans, sem eru flm.þáltill. um sama efni og frv. varðar og hreyfa þar hugmyndum sem fara mjög svo saman við það sem ég legg til í mínu frv., — ég hlýt að þakka þeim þann stuðning við hugmynd þá sem frv. mitt felur í sér. Og í lok þeirrar ræðu, sem ég ætla að halda núna, ætla ég að víkja nokkuð að þeim sjónarmíðum, sem hafa komið fram á hv, Alþ. í mjög svo misjöfnum skoðunum hv. þm. Alþb. á þessum mjög svo mikilsverða rétti, kosningarrétti í lýðræðisþjóðfélagi.

Ég held að ég hafi getið um það hér í annarri þeirra tveggja ræðna, sem ég hef áður flutt um þetta mál, að kveikjan að þessu frv., sem hér er verið að ræða, varð til hjá mér við þann sjónvarpsþátt flokksforingjanna sem ég hygg að hafi átt sér stað í sept. s.l. Það var áberandi að þeir tóku allir mjög svo jákvætt undir þær hugmyndir og undir þá umræðu sem uppi hefur verið í þjóðfélaginu um að auka rétt kjósenda til að ráða því hverjir skipa Alþ. Ég er einn í hópi þeirra sem telja að prófkjörum og skoðanakönnunum flokkanna fylgi verulegir ókostir og það sé ekki hið rétta svar við þeim takmarkaða rétti kjósenda, sem ákveðinn var með lagabreytingunni 1959, þegar kjósendum var nánast gert ókleift að breyta röðun á framboðslista.

Hv. þm. Magnús T, Ólafsson gat um það í sinni uppbyggilegu ræðu áðan, að komið hefði fram hjá mér að hljóðupptaka í sjónvarpi á þessum þætti hefði mjög svo brenglast, og þetta er rétt. Ég fékk lánaða spóluna hjá sjónvarpinu og fékk hana afritaða hér í Alþ. og er með það afrit á borðinu mínu. En það er eins og ýmsir þm., sem fengið hafa að sjá afritið, geta borið vitni um, að þar vantar mjög mikið í samfellt mál. Þar eru langar eyður og sumt þannig að ekki er gott að fá út hvað þeir, sem í þessum sjónvarpsþætti tóku þátt, raunverulega meintu. En þegar neyðin er stærst þá er stundum hjálpin næst, og það gerðist einmitt skömmu eftir að þetta var hér upplýst, að hv. þingbróðir minn, Kópavogsbúi eins og ég, Jón Árm. Héðinsson, hafði samband við mig og sagði að hann hefði tekið þennan þátt upp á segulband heima hjá sér og ætti hann allan óskemmdan. Hann var mér svo innan handar að hann lét vélrita þessa upptöku og ég er með hana hér fyrir framan mig, þannig að úr þessu er hægt að bæta.

Mig langar, áður en ég vík að efni frv, og þeim andmælum sem fram hafa komið gegn því, að víkja nokkuð að atriðum sem komi fram í þessum sjónvarpsþætti.

Hæstv. forsrh, sagði þá m.a., þegar verið er að ræða um aukinn rétt kjósenda til þess að ráða vali þm., eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég get aftur á móti fallist á það langtum frekar og er raunar fylgjandi því, að þessum auknu tengslum milli kjósenda og þm., umbjóðenda þeirra á þingi, sé framfylgt með breytingum á kosningalögum í þá átt t.d., eins og er í Danmörku eða Belgíu, þar sem persónuleg atkv. á óröðuðum lista í Danmörku eða persónuleg atkv. á röðuðum lista að vissu marki í Belgíu geta ráðið úrslitum, hverjir eru kosnir af hverjum lista.“ Enn fremur: „Allt þetta tel ég vera viðfangsefni við endurskoðun stjórnarskrárinnar, en þó er möguleiki að breyta kosningalögunum án stjórnarskrárbreytingar, t.d. með þeim hætti að taka upp óraðaða lista eða raðaða lista með einhvers konar ákvæðum samsvarandi þeim sem eru í Danmörku og Belgíu. Að þessu leyti get ég verið inni á þeirri leið persónulega,“

Hæstv. dómsmrh., Ólafur Jóhannesson, sagði m.a. eftirfarandi í þessum sjónvarpsþætti, — ég held að ég verði að lesa spurninguna fyrst til þess að samhengið sé ljóst. Stjórnandi þáttarins spyr:

„Já, ég ætla aðeins að víkja máli mínu til Ólafs Jóhannessonar og heyra hvað hann segir um það. Nú er verið að endurskoða stjórnarskrána, eins og oft hefur komið fram, en mætti hugsanlega taka þessi mál út úr og gera breytingu fyrir næstu kosningar þannig að kjósandinn hafi meiri áhrif í raun, t, d. þessa dönsku uppstillingu, sem Ragnar Arnalds er að tala um?“ Ólafur Jóhannesson svarar:

„Jú, það er hugsanlegt. Það er hugsanlegt að gera ýmsar breytingar á kosningalögunum án þess að stjórnarskránni sé breytt, og þ. á m. hef ég gert ráð fyrir því, að tekið yrði til athugunar í vetur hvort hægt væri að koma fram breytingum í þessa átt, sem menn hafa nú verið að koma fram með hugmyndir um að reyna, sem sagt að gera kjör persónulegra. Það er það sem menn sakna, eftir að stofnað var til þessara fjölmennu kjördæma og horfið frá einmenningskjördæmunum, að sambandið á milli þm. og kjósandans sé ekki eins persónulegt eins og áður. Og ég álít, að það sé mjög æskilegt að reyna að gera þetta persónulegra.“

Hv. þm. Ragnar Arnalds, þáverandi form. Alþb., hafði þetta að segja m.a.:

„En ég tel persónulega að það væri miklu eðlilegra að breyta kosningalögunum þannig, að flokkarnir bara stilltu upp frambjóðendum í ónúmeraðri röð og síðan væri það kjósendanna, sem greiddu þessum flokkum atkv., að velja hvaða menn þeir vildu að væru fulltrúar á hverjum lista. Þetta er danska fyrirkomulagið, og ég held að það væri sem sagt miklu heilbrigðara og eðlilegra, að allir kjósendur viðkomandi flokks tækju þátt í því að velja þann, sem þeir vildu að væri fulltrúi þess flokks, um leið og þeir kjósa, en ekki hitt, að eitthvert tilviljunarkennt brot af kjósendum og eins og Ólafur sagði hér áðan, jafnvel kjósendur annarra flokka, stuðningsmenn annarra flokka, taki þátt í sérstökum hanaslag, sem snýst fyrst og fremst um persónulega verðleika einstakra manna.“

Hv. þm. Benedikt Gröndal, form. Alþfl., sagði við þetta tækifæri m.a. þetta:

„Hitt er svo rétt, að ég er alveg sammála ykkur öllum um það, að við þurfum að gera kosninguna persónulegri og við ættum að leita að leiðum til þess að kjósandinn geti valið úr þeim mönnum, sem hver flokkur stillir upp í kjördæminu.“

Og síðast vil ég vitna til hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar, sem þarna var líka staddur. Hann sagði m.a.:

„En hins vegar tel ég að þessar umr. okkar hafi sýnt, að það er orðið mjög aðkallandi að breyta sjálfu kosningafyrirkomulaginu, svo að allir kjósendur fái aukinn rétt til þess að velja sína þm., og ég vildi að þessi einhugur, sem er við þetta borð, yrði til þess að þetta mál kæmist á rekspöl þegar á næsta Alþ., svo að við gætum kosið eftir nýjum kosningalögum, sem gæfu hverjum kjósanda aukinn rétt, þegar kjörtímabilið rennur út næsta vor.“ Og enn fremur: „En það, sem ég vildi sérstaklega koma hér að, er að ég sé ekki á nokkurn hátt að breyting á kosningalögum í þá átt, sem við höfum verið að ræða hér og teljum allir æskilega, þurfi að rekast á það starf sem unnið er í stjórnarskrárnefnd. Þessi ákvæði eru hreinlega í kosningalögunum, og á hverju stigi sem starf stjórnarskrárnefndar er, þá er mér ómögulegt að sjá að það ætti að geta tafið framkvæmd þessa þarfa máls, sem hér hefur verið drepið á, aukin áhrif kjósandans á kjör þm, þurfi að stranda á því, að stjórnarskrárnefnd sé ekki tilbúin með till. um kjördæmaskipun og annað slíkt.“

Fleira gætt ég lesið upp úr þessum umr. svipaðs eðlis og það sem ég hef þegar lesið upp, en skal ekki lengja tímann með því.

Mig langar þessu næst að víkja að nokkrum þeim gagnrýnisatriðum sem fram hafa komið í þeim umr., sem hér hafa orðið um þetta frv., þó að um sumt geti ég verið mjög fáorður vegna þess að Magnús T. Ólafsson vék að því, Almennt held ég að ég geti sagt um þau flest að þau eru afar lítilfjörleg, lítilfjörlegar mótbárur sem fá ekki staðist nákvæma skoðun. Þeir, sem hér hafa orðið fyrst og fremst til þess að gagnrýna frv., eru hv, þm. Lúðvík Jósepsson, Ingvar Gíslason og Tómas Árnason.

Það er nú svo, að þegar verið er að ræða ýmis stórmál, sem menn eru á móti af misjöfnum ástæðum, þá eru gjarnan tínd til einhver minni háttar atriði, reynt að breiða sig út yfir þau og á þann hátt reynt að tefja fyrir framgangi málsins og jafnvel drepa það á þann hátt. Allir þessir hv. þm. þrír, ágætismenn, eru þannig á lista settir að þeim er næsta lítil hætta á því að falla. Þeir hafa að sumu leyti svipaða stöðu og opinberir starfsmenn, sem ekki er hægt að segja upp starfi. En að þetta geti og eigi að ráða afstöðu til frv. get ég eigi fallist á. Hér hefur m.a. Lúðvík Jósepsson og raunar fleiri breitt sig út yfir það, að þeir, sem á framboðslista standi á undan í stafrófsröð, hafi mikil forréttindi umfram þá sem síðar skipi listann sé hann í stafrófsröð. Þessu er haldið fram af þessum hv. þm., þrátt fyrir það að ég hafi tekið greinilega fram í ræðu, þegar ég fylgdi frv. úr hlaði, að það, hvar menn standa á lista röðuðum í stafrófsröð, eigi ekki að hafa áhrif. Í umr, sem fóru fram 9, nóv. um frv, sagði ég m.a. þetta og les þá beint upp úr þingtíðindum:

„Það er staðan, sem upp kæmi ef enginn kjósandi notaði rétt sinn til þess að númera frambjóðendur og kysi aðeins flokkinn, því að sá sem er á undan í stafrófsröð á ekkert meiri rétt til þingsætis en sá er síðar er á listanum.“

Það kom fram í þessari ræðu minni, að það er aðeins röðun kjósandans sem ræður því hvaða frambjóðendur af listum komast á Alþingi. Það er rétt, sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson sagði áðan, ef einhver kjósandi notar aðeins rétt sinn til þess að kjósa ákveðinn flokk, en notar ekki rétt sinn til þess að raða frambjóðendum, þá eiga allir frambjóðendur jafnan rétt á því atkv. flokksins. Það er röðun kjósendanna á frambjóðendum sem ræður úrslitum, og ég hef þá trú og hef raunar spurst fyrir um það sérstaklega úti í Danmörku núna fyrir einum eða tveim dögum, hvort þátttaka kjósenda í því að raða frambjóðendum hafi ekki verið mikið notuð hjá þeim flokkum sem ekki hafa lagt fram raðaða lista, og ég fæ engar upplýsingar aðrar en þær, að langalgengast sé að kjósendur noti þennan rétt sinn til röðunar.

Þá hefur því verið haldið hér fram að með þessu frv. væri sérstaklega verið að ráðast á stjórnmálaflokkana í landinu og að stjórnmálaflokkarnir í landinu væru hornsteinar lýðræðis. Það er fjarri mér, að sá sé tilgangur minn með flutningi þessa frv. Ég vil ekki viðurkenna að ég sjái ekki alveg eins þörfina og þeir hv. þrír þm., sem ég hef nefnt, á því að til séu starfandi stjórnmálaflokkar á Íslandi. Ég tel mig geta metið það alveg eins vel og þeir. Hitt er svo allt annað mál, og við skulum vera menn til þess að viðurkenna það, að uppi er í þjóðfélaginu í dag allnokkuð gagnrýnin umræða um stjórnmálaflokkana og það er ekki alveg rétt af okkur, sem hér skipum bekki Alþ., að loka augum og eyrum fyrir þeirri umr. Magnús T. Ólafsson vék að því áðan, að þrátt fyrir samþykkt frv. yrði engin breyting á því að flokkarnir sjálfir ákveða frambjóðendalista. Á því er ekki nokkur minnsti vafi. Það eru stjórnmálaflokkarnir og það eru kjördæmaráðin og hvað þær nú heita, stofnanir flokkanna, sem mundu ákveða framboðslistana eftir þeim reglum sem gilda um það hjá hverjum flokki fyrir sig.

Ég held að árið 1959 hafi stjórnmálaflokkarnir gengið allt of langt í því að takmarka rétt kjósenda til þess að breyta röð frambjóðenda. Ástandið, sem var í þessum efnum fyrir breytinguna árið 1959, var e.t.v. líka gallað. En að mínu viti réttlættu þær reglur, sem þá giltu, ekki það að gera það nánast útilokað fyrir kjósendur að breyta röðuðum lista.

Þá hefur því verið haldið fram, að frv: flutningur þessi bæri vott um lýðskrum og yfirborðslýðræði og upp mundi koma mikil klíkustarfsemi, sem manni skilst að ekki sé til staðar í sambandi við stjórnmálastarfsemi í landinu í dag. Á þetta get ég ekki fallist. Flokkarnir hafa að undanförnu staðið í nokkrum prófkjörum og skoðanakönnunum sem margir hafa í ljósi þeirrar reynslu, sem fengist hefur, veit vöngum yfir hvort væri í raun og veru það heppilega fyrirkomulag sem vert væri að taka upp við röðun á framboðslista. Magnús T. Ólafsson vék að þessu áðan mjög skilmerkilega að mínu viti, svo að ég þarf ekki miklu þar við að bæta. En hvað mundi gerast ef frv. það, sem ég er hér að mæla fyrir, yrði samþykkt? Það mundi fyrst og fremst gerast, að kosningarrétturinn yrði færður að fullu til kjósenda í landinu og þeir fengju notið hans í samræmi við þær skoðanir sem hver og einn hefur um hvernig best sé að nota hann. Ég tel þetta ekki gervilýðræði. Ég tel þetta framför frá þeirri stöðu sem er í þessum málum í dag, og að því vil ég stuðla.

Þá var líka talað um að það yrðu óskaplega flóknar reglur sem kæmu upp, ef þetta frv. yrði samþ. Þessi mótbára er svo fjarri öllu réttu lagi að ekki þarf mörg orð til þess að ræða hana. Og ég tek undir það, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að ekki er álit þeirra hv. þn. á dómgreind kjósenda í landinu mikil sem þessu vilja halda fram og gera það að einhverju verulegu atriði.

Tómas Árnason sagði um daginn, að samkv. þessu frv. gætt það gerst, að minni hl. kjósenda eins flokks gæti ráðið hverjir skipuðu bekki Alþ. Vissulega er þetta rétt. Út af fyrir sig er ekkert sem kemur í veg fyrir það, að aðeins minni hl. kjósenda flokks neyti þess réttar sem hann hefur til þess að raða frambjóðendum. En ég tel, og eftir því sem ég best veit bendir reynslan meðal annarra þjóða ótvírætt til þess, að mikill meiri hluti kjósenda mundi nota sér þennan rétt, svo að ég tel þessa mótbáru ekki veigamikla.

Hv. þm. Ingvar Gíslason spurði að því, hver ætti að vera talsmaður slíks lista. Það er alveg augljóst mál, að t.d. í sambandi við sjónvarpsumr. eða útvarpsumræður til landsins alls yrði engin breyting á þessu fyrirkomulagi frá því sem er. Við vitum að flokkarnir ákveða, hvaða talsmenn fara í sjónvarp eða útvarp, þegar landsmálaumr. eru. Það mundi verða áfram nákvæmlega eins, þó að frv. yrði samþykkt. Og væri um að ræða framboðsfundi í kjördæmi og frambjóðendur gætu ekki komið sér saman um, hverjir mæltu fyrir flokkinn, þá er það auðvitað æðsta stjórn í samtökum flokksins í viðkomandi kjördæmi sem yrði að skera úr, þ.e.a.s. kjördæmisstjórnin.

Ég held því, að almennt megi segja að þær mótbárur, sem uppi hafa verið gegn þessu frv., séu ekki mjög veigamiklar og þurfi eitthvað annað og meira að koma til, til þess að menn geti með miklum rökum mælt gegn efni frv. Ég trúi því ekki, að þeir hv. þm., sem hafa verið með hrakspár um það í þessum umr., að lýðræðinu væri jafnvel hætta búin við samþykkt frv., meini það sem þeir hafa sagt um það. Ég veit ekki betur en flokkum í Danmörku hafi farið fjölgandi nú hin síðari árin. Ég held að þeir séu um 11, þrátt fyrir það að þessari reglu sé þar m.a. beitt. Ég held því að hrakspár um það, að verið sé að ganga af stjórnmálaflokkunum á Íslandi hálfdauðum með þessu frv., fái ekki staðist í ljósi þessarar dönsku reynslu.

Mig langar þá í lokin að víkja að þeim skoðunum sem mér virðast vera uppi í Alþb. á hv. Alþ. um þau mikilvægu mál sem lúta að kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði í umr. um daginn, að það, sem skipti meginmáli í sambandi við þyngd atkv., væri að réttlætt næðist á milli flokka — ekki endilega að kosningarréttur kjósenda án tillits til búsetu væri sem jafnastur.

Hv. þm. Magnús Kjartansson hefur hins vegar lagt sterka áherslu á að hann telji kosningarréttinn til mannréttinda og hann telji að hann eigi að vera jafn, hvar sem kjósandinn býr á landinu. Að mínu viti erum við hér að fjalla um eitt almikilvægasta atriðið í sambandi við kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, og um þetta mikilvæga atriði virðast þessir tveir hv. þm. Alþb. hafa mjög svo ólíkar skoðanir.

Í öðru lagi langar mig til þess að benda á það, sem ég hef raunar áður gert, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson hélt því fram um daginn, að ekki teldist til hinna stærri mála að auka rétt kjósenda til þess að ráða vali þm. Ég held að hann hafi kallað þetta smámál. En ég hef áður bent á að 5 þm. úr hans flokki flytja þáltill., þar sem þeir leggja megináherslu á að þetta sé ekkert smámál. Þáltill. þessi er 4. mál þessa þings og mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að lesa nokkur atriði úr henni. Sjálf tillgr. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna nefnd er skipuð sé einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, til að semja frv. til l. um breyt. á l. nr. 52 frá 1959, um kosningar til Alþingis, er miði að því að gera kjósendum auðveldara en nú er að velja milli frambjóðenda á þeim lista sem þeir kjósa.“ Og í grg, segja þeir m.a. þetta:

„Samkv. gildandi kosningalögum er stjórnmálaflokkunum áskilinn réttur til að leggja fram raðaðan framboðslista og ákveða þannig fyrir fram hvaða frambjóðendur hafi mesta möguleika til að ná kosningu. Kjósandinn hefur að vísu rétt til að strika út frambjóðanda eða breyta röðinni, en raunveruleg áhrif kjósenda á röð frambjóðenda hafa löngum reynst lítil, og raunar engin eftir þær breytingar sem gerðar voru á kosningalögunum árið 1959. Í 110. gr. l. nr. 52 1959 er svo fyrir mælt, að þrátt fyrir útstrikun eða breytingu á atkvæðaseðli fái frambjóðendur listans 2/3 atkvæðisins, eins og engin breyting hafi verið gerð á listanum. M.ö.o. má segja að aðeins sé tekið tillit til þriðja hluta þeirra breytinga sem gerðar eru á röð frambjóðenda.“

Nokkru síðar í grg. segja flm.: „Eðlilegast virðist að á kjördegi geti kjósandinn valið milli flokka á málefnalegum grundvelli og samtímis átt þess kost að velja milli frambjóðenda flokksins. Þess háttar fyrirkomulag tíðkast í mismunandi myndum í öðrum löndum og koma ýmsir möguleikar til greina.“

Ég tel af þessum upplestri að sé ljóst að á milli núv. formanns Alþb. og þeirra 5 þm. Alþb., sem standa að þessari þáltill., sé mikill skoðanamunur um þetta grundvallaratriði.

Í þriðja lagi langar mig til þess að minna á það, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson taldi að ekki væri sérstaklega mikilvægt að breyta þeim reglum sem nú gilda um úthlutun uppbótarsæta, og að vissu marki get ég fallist á að það eitt út af fyrir sig nægir ekki til þess að koma því réttlæti á, sem ég tel að þurfi að komast sem fyrst á í sambandi við kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag. En einnig um þetta atriði eru þingbræður hans í Alþb. annarrar skoðunar. Ég gat um það seinast þegar þetta mál var hér til umr., að á fundi sem við allflestir þm. Reykn. vorum á vestur á Seltjarnarnesi, að gefnu tilefni frá sveitarstjórnarmönnum þar, hefðu umr. borist að því atriði, að nauðsyn bæri til að breyta reglum um úthlutun uppbótarsæta, og ég fullyrði að allir viðstaddir þm. Reykn. tóku vel undir óskir fundarmanna um að standa að tillöguflutningi um breytingar á þessu atriði og þar með voru báðir þm. Alþb. í Reykjaneskjördæmi.

Ég held að ég sé ekki að orðlengja þetta meira. Mér er fyllilega ljóst, að það málefni sem hér er til umr., er nokkuð vandasamt og hagsmunir alþm. geta verið mjög misjafnir í þessum efnum. Hagsmunir landshlutanna eru líka nokkuð misjafnir í þessum efnum. Hitt tel ég að sé alveg ljóst að sú staða, sem uppi er nú um kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, er svo óréttlát að hún fer ekki staðist í miklu lengri tíma. Þess vegna þarf að vinda að því bráðan bug að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá og lögum um kosningar til Alþ. Mér urðu það nokkur vonbrigði, þegar hv. þm. Magnús T. Ólafsson upplýsti hér áðan, að lítið hefði enn þá gerst í þeirri nefnd, sem var lýst yfir í upphafi þings að mundi verða skipuð til þess að athuga þessi mál. Við höfum nokkra reynslu af því, að nefndarskipun í svona málum hefur ekki alltaf leitt til jákvæðs árangurs, og ég verð því miður að lýsa yfir nokkrum efasemdum um að nefndarskipun nú gefi betri raun en oft hefur áður verið.