23.11.1977
Neðri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

21. mál, kosningar til Alþingis

Páll Pétursson; Herra forseti. Hv. þm. Jón Skaftason gerði mikið úr því, að flokksbræður í Alþb. væru ekki nákvæmlega sammála allir um kosningatilhögun og sumir flyttu till. sem aðrir ekki gætu stutt. En ég verð að taka fram að það er víðar svo, í öðrum flokkum en Alþb., að menn eru ekki nákvæmlega sammála um alla hluti. Ég er t.d. ekki nákvæmlega sammála hv. þm. og flokksbróður mínum Jóni Skaftasyni um alla hluti í kosningalögum og kjördæmaskipan né heldur í fáeinum öðrum atriðum. Þó virðist okkur sjálfsagt að reyna að samræma okkar sjónarmið og vinna í sama flokki og að framgangi góðra mála. Raunar er það hláleg aðstaða fyrir mig að fara að verja þá kjördæmaskipun og þau kosningalög sem nú eru í gildi. Framsóknarmenn börðust ákaflega gegn setningu þessara laga, og þau voru með nokkrum hætti sett til höfuðs þeim til þess að gera mögulega viðreisnarstjórnina sálugu. Þau voru sett til þess að gefa ákveðnum stjórnmálaflokkum tækifæri til þess að ná saman um stjórn landsins, en ekki af beinni lýðræðisást. Þetta var hagkvæmnisþáttur.

Hins vegar hafa hrakspár þær, sem framsóknarmenn höfðu uppi við setningu þessara laga 1959, sem betur fer ekki allar ræst. Þeir spáðu t.d. hraklega fyrir auknu flokksræði, auknu miðstjórnarvaldi og óhæfilegu flokkaveldi. Flokkaskipting er lýðræðinu nauðsynleg og flokkar eiga að vera samfélög frjálsra manna, ekki endilega að þeir séu ævinlega sammála í öllum atriðum, heldur að menn með svipaðar lífsskoðanir þoki sér saman í fylkingar. Þeir verða náttúrlega að sýna af sér félagsþroska og sveigjanleik, en þeir verða þó að fá að hafa sín „prinsip“. Kjósendur verða að geta treyst því, að þm. láti ekki teyma sig til hluta sem þeir vita að honum eru ákaflega ógeðfelldir og þm. verða þá náttúrlega að láta kjósendur vita hvaða hluti þeim eru ákaflega ógeðfelldir og hver þeirra „prinsip“ eru.

Ég vil fullyrða að flokksræði, miðstjórnarvald hefur ekki aukist hjá framsóknarmönnum við þessa kjördæmaskipan. Það vill svo til, að ég þekki undirbúning að framboðum Framsfl. á Norðurl. v. undir þessari kjördæmaskipun, því að ég var þar í framboðsnefndum, fyrst í framboðsnefnd haustið 1959 og síðan við allar kosningar til 1971, og ég fullyrði að heimamenn, en ekki flokksforusta, höfðu ævinlega síðasta orðið. Heimamenn réðu þessari uppstillingu, en flokksforustan hafði ekki áhrif á hana. Þetta var stundum ákveðið af fulltrúum á kjördæmisþingum eða af fulltrúum sem kjördæmisþing kusu. Stundum var þetta ákveðið með prófkjörum.

Flokkaskipting er náttúrlega nauðsynleg kjölfesta líka fyrir fulltrúalýðræði, og ef við skoðum stjórnmálasögu fyrstu tveggja áratuga aldarinnar, þá var geysilega mikið los á stjórnmálastarfseminni. Það er sárgrætilegt að sjá hvernig góðar hreyfingar koðnuðu niður vegna þess að menn hlupu sundur og saman sitt á hvað eftir kringumstæðum sem virtust ekki vera svo veigamiklar að þær gerðu þetta nauðsynlegt. En e.t.v. var það að nokkru leyti vegna þess að kosningarnar voru um persónur þá fremur en stefnur, í mörgum tilvikum. Og persónukjör, eingöngu persónukjör býður upp á miklu harðvítugra návígi. Réttur minni hluta í einmenningskjördæmi er ekki tryggður eins vel og í kjördæmi þar sem fleiri flokkar fá fulltrúa kjörna, og af því leiðir að stjórnmálabaráttan verður ekki eins hörð, af því að menn vita að enginn einn getur alveg sett andstæðinga sína hjá.

Ég man líka þá tíð, og ég er alinn upp við það, hvernig er að vera minnihlutamaður í einmenningskjördæmi, og þess vegna eru mér ljósir gallar þess. Og ég lít svo á að hagsmunum kjördæmis geti verið betur borgið og sé í flestum tilfellum betur borgið þegar menn úr fleiri en einum flokki geta unnið saman að málefnum kjördæmisins, og þannig má segja að ávinningur hafi verið að kjördæmabreytingunni 1953.

Þetta frv. er með eina lausn á því, hvernig velja megi menn á framboðslista, og það er vitaskuld nauðsynlegt, a.m.k. öðru hvoru, að kannað sé viðhorf kjósenda til frambjóðenda, og þá viðhorf kjósenda með svipaðar lífsskoðanir, Það er þeirra að velja menn til þess að halda á lofti þeim lífsskoðunum og vinna að framgangi mála á grundvelli þeirra lífsskoðana. En þess vegna mega prófkjör ekki vera galopin og það er fjarstæða að andstæðingar flokks hafi verulegan eða hafi tækifæri til þess að hafa verulegan íhlutunarrétt um það, hverjir fari með umboð flokksins.

Frv. Jóns Skaftasonar, hv. þm., er viðleitni til þess að gefa kjósendum beinan íhlutunarrétt. Þessi leið er að minni hyggju nokkuð gölluð. Hún gerir ráð fyrir að frambjóðendum sé raðað í stafrófsröð. Menn hafa gert það að nokkuð miklu umræðuefni. Ég vil ekki taka undir það sem hv. þm. Magnús T. Ólafsson sagði, að það væri vantraust á að kjósendur kynnu stafrófið sem ylli þessu, að menn væru að fetta fingur út í þessa stafrófsröð. Það yrðu vafalaust einhverjir, sem tækju þá menn, sem hendi væru næst, og byrjuðu efst á listanum. Þá getum við hugsað okkur þann möguleika, að hér fylltist allt af Albertum og Ellertum og Eyjólfum og við hinir kæmum ekki til greina. (Gripið fram í.) Já, við þessir með p-in eða m-in. En ég held að það yrðu vafalaust mjög margir sem ekki notuðu rétt sinn til þess að raða upp á listann og létu sér nægja það að kjósa flokkinn sinn, en kjósandinn vissi raunar ekki nákvæmlega að hverju hann væri að ganga. Hann væri e.t.v. að kaupa köttinn í sekknum, þó að hann hefði ákveðna skoðun á því, hverjir ættu að fara með umboð flokksins. Kjósandinn væri kannske að kjósa menn sem hann óskaði alls ekki eftir að kjósa. Kjósandinn verður að fá að vita það á kjördegi, hverjir koma til með að fara með það umboð sem hann er að reyna að fela frambjóðanda flokks. Það gætu orðið allt aðrir menn en þeir, sem hann merkti við, sem yrðu ofan á, og e.t.v. menn með blæmun á lífsviðhorfi eða starfsaðferðum. Þess vegna verður að ganga frá því, að röðunin fari fram áður en í kjörklefann kemur, með prófkjörum, forkosningu eða á annan lýðræðislegan hátt.

Ég vil endilega að kjósendum sé ljóst á kjördegi hvort þeir eru að kjósa mig eða einhvern annan. Ég vil líka að þeir viti hvað ég vil og hvað ég vil ekki. En kerfið verður að vera einfalt. Það er um ýmis kerfi að ræða. Við í Framsfl. höfum stundum átt sérstaklega duglega menn við að finna upp prófkjörsreglur. Við höfðum einu sinni prófkjör í öllum kjördæmum landsins sama árið og ég held í engum tveimur sams konar reglur. Menn frá Heimdalli, ungum krötum og ungum framsóknarmönnum hafa verið að setja saman reglur, en að sumu leyti eru þær flóknar og að sumu leyti finnst mér þær óskynsamlegar. Þær eru að uppistöðu frá Írum, og það getur verið að þær passi þeim, en þeir vilja staðfæra þær hér. Ég geri þær nú ekki að umræðuefni, hvorki það að í eðli sínu ganga þær þvert á þá byggðastefnu, sem við höfum góðu heilli fylgt síðan 1971, né hitt, að þær eru ansi flóknar. Fólkið verður náttúrlega að vera sæmilega öruggt um það, að atkvæðaseðillinn sé gildur. Hún er ekki á rökum reist hjá hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni sú skoðun, sem hann hélt fram hér áðan. Við getum tekið sem dæmi nýafstaðið prófkjör Alþfl. í Reykjavík. Ég tek það fram, að ég lit svo á að ekki komi til að það hafi verið neinn rumpulýður sem þar safnaðist saman til kosninga, og eftir atvikum var þessi atkvæðaseðill, sem þar var prentaður, fremur einfaldur og skýr. Þó voru upp undir það — ég man nú ekki þessa tölu nákvæmlega, ætli það hafi ekki verið 8 eða 10% af atkv. ógild. Og svo gerir hv. þm. Magnús T. Ólafsson sér upp mikla hneykslun á því, að þetta sé eitthvert vantraust á fólkið. Ég tek það fram, að ég skil ekki þátttakendurna í þessu prófkjöri eða þá niðurstöðu sem þeir komust að, en það er nú önnur saga. En þetta sýnir okkur að kerfið á að vera einfalt.

Og þá kem ég að þeirri hlið sem snýr að frambjóðendunum sjálfum. Frambjóðendurnir þurfa að vera samtaka félögum sínum, en ekki standa í innbyrðis deilum, eins og óhjákvæmilega yrði ef hver þyrfti að vera að ota sínum tota og togast á um fylgi við flokksbræður sína. Flokksbræðurnir verða nefnilega að vera búnir að gera það upp sín í milli, áður en kemur til höfuðorrustunnar, hvar staða þeirra eigi að vera í fylkingunni.

Mikið hefur verið rætt um þennan rétt almennings, hvað hann væri allt of litill til þess að ráða framboðunum, ef ekki væri um prófkjör að ræða. En hann er náttúrlega alltaf fyrir hendi með þátttöku í flokksstarfinu, það er alveg tvímælalaust. Og betra flokksstarf með almennari þátttöku væri líka lýðræðinu, að minni hyggju, mjög til framdráttar. Og ég get ekki farið svo héðan, að ég fari ekki nokkrum orðum um mismunandi vægi atkv., sem mjög hefur verið haft á orði, bæði í þessum umr. og öðrum umr, sem hafa verið hér eins og fæðingarhríðir hvað eftir annað í vetur. Það hafa verið líklega á hverjum kvartilaskiptum, held ég, einhverjar umr. um kosningar og kjördæmaskipun það sem af er þessu þingi.

Þetta mismunandi vægi, sem menn eru að tala um, er nú ekki, eins og margoft hefur komið fram í þessum umr., eins hroðalega mismunandi og þeir vilja vera láta, sem harðast berjast fyrir því að breyta ríkjandi skipulagi, Það liggur ljóst fyrir, að um 40% þm., 24 þm. af þeim sem sitja í Sþ. 1977, voru á framboðslistum í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Þetta er náttúrlega ekki nákvæmlega jafnþungt, sem hvert atkv. vegur, en þetta verða menn að hafa í huga, eins og raunar hefur komið fram áður í þessum umr., hjá hv. 2. þm. Austf., ef ég man rétt. En það er meira en það að þeir séu 24, sem eru kosnir hér. Búsettur í þessum kjördæmum er líklega 41 þm., hefur hér sitt heimili og er hér allt árið eða hér um bil allt árið. Sumir þeirra eru hér kannske að nokkru leyti út úr neyð, vegna þess að þeir hafa tekið að sér störf hér í höfuðborginni sem ekki er hægt að gegna með því að vera fjarvistum frá höfuðborgarsvæðinu. En þeir eru sem sagt a.m.k. 41 sem eiga sér heimili og eru hér nákunnugir málefnum og dagsins önn. Og mér finnst liggja ljóst fyrir að þessi 41 þm. af 60, sem eiga hér sæti, munu ekki láta það líðast að dreifbýlisþm. séu með einhvern óskaplegan yfirgang eða fari illa með Reyknesinga eða Reykvíkinga.

Sú hugmynd hefur komið fram að rétt væri að flytja alla uppbótarþm. í þessi fjölmennu kjördæmi hér á suðvesturhorninu. En ég verð að leyfa mér, eftir að ég er búinn að sjá, hvernig framboðslistar flokka eru að skipast, og eftir að hafa skyggnst t.d. undanfarnar vikur nákvæmlega í ritverk frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjavík, að skýra frá þeirri skoðun minni, að ég held að Alþ. yrði ekkert betur skipað þó að búið yrði sérstaklega til pláss handa þessum mönnum, nokkrum þeirra, hér á Alþ. með því að láta þá koma í stað þeirra uppbótarþm. sem eru utan af landsbyggðinni. Ég get nefnilega ekki fundið að þm, landsbyggðarinnar séu of margir. Ég er alveg viss um að við höfum meira að gera en t.d. þm. Reykjavíkur og Reykjaness við þingstörf, og á ég þ. á m. við sjálfsagðan og eðlilegan erindrekstur fyrir kjördæmi okkar. Borgarstjórinn í Reykjavík getur farið sjálfur og rekið erindi borgarinnar í Stjórnarráðinu og fylgst með gangi mála í Stjórnarráðinu eða öðrum opinberum stofnunum, og þetta tekur hann ekki nema nokkra klukkutíma. En bæjarstjórinn á Siglufirði þarf að leggja á sig langa för, og oft þó nokkuð erfiða og ákaflega tímafreka, til þess að reka svipuð erindi fyrir sitt byggðarlag og það er ósköp eðlilegt að hann leiti til þm., sem eru hér fyrir sunnan hvort sem er, til þess að taka af sér ómakið, því að við eigum þægilegt með að reka erindi fyrir hann á engri stundu, eins og borgarstjórinn í Reykjavík mundi geta, en tæki bæjarstjórann vikuna.

Ég vil líka tala um persónulega fyrirgreiðslu við kjósendur sem sumir angurgapar hafa verið að tala illa um og talið mjög forkastanlega. Ég tel hana hins vegar sjálfsagða og tek ekkert nærri mér að gera fólki greiða, ef ég á þess kost. Öll þau erindi, sem ég hef verið beðinn um að reka fyrir fólk persónulega, hafa verið réttmæt og sjálfsögð og heiðarleg. Stjórnkerfi okkar vinnur stundum óþarflega hægt og erindi stöðvast óratíma vegna þess að e.t.v. eru á þeim einhverjir formgallar. Þessu er oft auðvelt að kippa í lag ef fylgst er með hvað er að gerast eða hvað tefur. Og þm. er ekkert of góður til þess að gera þetta ef hann getur. Ég hef rekið erindi fyrir flokksbræður mína eða skoðanabræður, en ég hef ekkert siður rekið erindi fyrir andstæðinga mína í pólitík, þegar þeir hafa beðið mig þess, og ég vísa algerlega á bug öllu kjaftæði um einhverja ósæmilega fyrirgreiðslupólitík sem einstöku menn hafa verið að slá um sig með og sagt að væri alveg forkastanleg.