23.11.1977
Neðri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

21. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hafa nú orðið allmiklar umr, um bæði það frv., sem hér er nú á dagskrá, svo og almennt um kosningalög og það sem að heim lýtur. Vissulega er ekkert óeðlilegt að slíkt gerist.

Ég held að varla geti nokkur hv. hm. verið í vafa um að þeirri skoðun vex ört fylgi að kjósendum skuli gefið meira tækifæri til að hafa áhrif á val frambjóðenda til þings en tíðkast hefur á undanförnum árum. Ég trúi a.m.k. ekki öðru en þm. allir hafi orðið þessa varir. Og það er enginn vafi á því í mínum huga að hér er um vaxandi hóp að ræða og raddir sem í raun og veru krefjast þess að fá að hafa meiri áhrif á þessi mál en verið hefur.

Á þessu þingi hafa orðið miklum mun meiri umr. um þetta og almennari en á nokkrum þingum áður, og ég hygg að m.a. það, þessi aukna krafa kjósendanna um meiri ítök, sé því að kenna eða þakka, eftir því hvernig á er litið, að meira er nú rætt um þessi mál en oft áður. Sumum hverjum hefur orðið svo brátt, að á fyrstu dögum þingsins var farið upp hér utan dagskrár til þess að vekja athygli sérstaklega á þessum málefnum, sem viðkomandi telja, að þurfi að vinda bráðan bug að að breyta.

Hvort þessi þunga sókn almennings í landinu að því marki að fá frekar að ráða hér um hefur orðið þess valdandi að nær allir og líklega allir formenn stjórnmálaflokka í landinu kváðu svo stíft að orði sem raun bar vilni í margnefndum sjónvarpsþætti hér fyrr í haust, — hvort þessi þunga alda hefur orðið til þess að þeir virtust svo einhuga og umhugað um að hér yrði breyting á gerð, það skal ég ósagt láta. En ég hygg að engum hafi dulist það, sem í þessum foringjum heyrðu, að þeir töluðu á þann veg að fyllilega mætti ætlast til þess eða búast við því, að í þessum efnum yrði breyting gerð á þessu þingi. Nú virðist mér hins vegar að margir af þessum forustumönnum í stjórnmálaflokkunum keppist um það hver um annan þveran að hlaupa frá þessum yfirlýsingum, hlaupa frá því að takast á við þetta mál til þess að gera á því raunhæfa breytingu í þá átt sem almenningur í landinu krefst.

Það hefur verið vikið að því hér, og er leitt til þess að vita, að sú segulbandsspóla, sem þetta var tekið upp á í sjónvarpinu, mun nú vera týnd og tröllum gefin, þ.e.a.s. ekkert er hægt að átta sig á henni. Það er með ólíkindum að slíkt skuli geta gerst. Það þarf kannske illgirni til að láta sér detta í hug að eitthvað álíka hafi komið fyrir þessa spólu og Watergate-spólurnar á sínum tíma. Ég veit ekki hvort það er óeðlilegt að mönnum hugkvæmist eitthvað slíkt, þegar atburðir sem þessir geta gerst. En hvað sem um það er, þá hafa hv. þm. heyrt að sumir hverra þessara foringja í stjórnmálaflokkunum hafa nú hvikað allverulega frá þeim ummælum sem þeir viðhöfðu í títt nefndum sjónvarpsþætti.

Hér var orðum beint til hæstv. menntmrh, áðan og beðið um þau skilaboð til hans, af því að hann er ekki hér á þingfundi, að hann gerði nú gangskör að því að upplýsa með hvaða hætti slíkt geti átt sér stað í þessari stofnun, sem undir hann heyrir. Ég ætlaði mér að biðja hv. þm. Þórarin Þórarinsson sem formann útvarpsráðs að hlaupa undir bagga og taka til í þessum efnum. Hann er líka horfinn af þingfundi, en eftir situr varaformaður útvarpsráðs, sem er hv. þm. Ellert B. Schram, og hér með er þeim óskum komið á framfæri við hann, að hann geri til þess ráðstafanir að a.m.k. fáist úr því skorið með hvaða hætti þetta hefur getað gerst hjá sjónvarpinu, því að ef mikil brögð hafa verið að slíku er ómögulegt að henda reiður á eða hafa handfast tak á þeim spekingum og foringjum sem fram kunna að koma í sjónvarpi í náinni framtíð, en að mínu viti er nauðsynlegt að hafa tak á þeim.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni fyrr á Alþ., að ég er eindregið fylgjandi því að auka rétt kjósenda til þess að hafa áhrif á röðun á lista og þá áhrif á það, hvaða menn verða valdir til setu hér á Alþ. Það er ekkert skemmtilegt að horfa upp á það ár eftir ár og kannske áratug eftir áratug, að pólitísku flokkarnir skuli gefa skipað svo málum í trausti flokksfjötra og flokksvalds að þeir ráði til lífstíðar kannske 4 af hverjum 5 þm. í hverju kjördæmi í landinu. Þetta höfum við búið við og verðum að búa við ef engin breyting á sér stað.

Ég lýsi því eindregnum stuðningi við þetta frv. sem hér er til umr. Ég er að vísu ekkert hissa á því, þó að hinir rótgrónustu foringjar í hinum pólitísku flokkum, eins og hv. 2. þm. Austf., rísi hér upp á afturfætur og berji lóminn og segi að hér sé allt að fara úr böndum, ef að einhverju leyti verður slakað á flokksfjötrunum. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson er sá þm, sem hvað harðast hefur talað gegn beinni rýmkun að því er þetta varðar, að kjósendur hafi meiri áhrif til vals á frambjóðendum á listum flokka. Hann heldur enn í hina gömlu kenningu, að því aðeins sé hluturinn góður að hann komi beint frá toppnum í flokknum. Vel má vera að þetta hafi verið svo í gegnum árin, t.d. hjá Alþb. eða fleiri flokkum. Ég dreg það þó mjög í efa. Ég held að það geti ekki síður komið til góðir einstaklingar, sem eru valdir af þeim kjósendum flokksins sem á annað borð aðhyllast að einhverju leyti — mismunandi miklu kannske — þá skoðun sem viðkomandi flokkur hefur. Og það er enginn vafi á því, að það er full þörf á að breyta í þá átt að almennur kjósandi hafi meiri áhrif en verið hefur.

Menn hafa mikið talað um að það þyrfti að afnema æviráðningu opinberra starfsmanna, og ég fagna því. Það þarf vissulega að breyta betur þar til en gert hefur verið. En það þarf einnig að breyta því, að í valdi pólitísks flokks sé verið að ráða þennan eða þennan einstaklinginn til lífstíðarsetu hér á Alþ. fyrir viðkomandi flokk í trausti þess fyrirkomulags sem við nú búum við. Það er staðreynd að þetta hefur gerst og mun verða áfram, fái flokkarnir þetta vald sem þeim var gefið og þeir hafa haft til þess að skipa þessum málum á þennan veg.

Ekki alls fyrir löngu mælti hv. þm. Ragnar Arnalds fyrir þáltill. hér á Alþ., sem stefnir í sömu átt og það frv. sem hér er nú til umr. Þar talaði þáv. formaður Alþb., og flm. þessarar till. eru nokkrir aðrir þm. Alþb. sem virðast vera á þeirri skoðun, ef á annað borð á að taka mark á flutningi þessarar þáltill., að þeir vilja breyta til. vilja gefa kjósendum meira áhrifavald til þess að ráða þessum málum. Svo rís hér upp hinn nýkjörni formaður Alþb., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, og gengur berserksgang og mótmælir öllu, sem kemur fram í þessu frv, og þar með auðvitað þáltill. sinna flokksbræðra, og segir að hér sé um gervilýðræði að ræða sem bann vilji ekkert hafa með. (Gripið fram í: Það er þægilegra að vera bara einn í flokki.) Já, vissulega er það betra undir þeim kringumstæðum sem flokkarnir hafa skipað málum í dag, þ.e.a.s. ef hv. þm., sem í hinum rótgrónu flokkum eru, hafa ekki bein í nefinu til þess að hafa sjálfstæðar skoðanir, og það á því miður við nm þá flesta.

Mér finnst skjóta skökku við að á þessum tímum, eftir það sem á undan er gengið, skuli enn finnast sterkir málsvarar þess, áhrifamenn í flokkum, að brýna nauðsyn beri til þess að liðka ekkert til í þessu máli, það kunni ekki góðri lukku að stýra að kjósendur fái meiri áhrif til vals á frambjóðendum en nú sé, og meira að segja yrði það til þess að skapa alls konar klíkur í sambandi við þessi mál. Líklega hefur enginn orðið var við að klíkur hafi myndast eða unnið hafi verið í klíkum í hinum gömlu pólitísku flokkum undir núverandi ástandi. Ég held að allt tal um að hér sé verið að óska eftir breytingu, sem hafi í för með sér að allt riðlist í landinu við þetta, sé visvítandi blekking manna sem vita betur, en óttast kannske að hinn almenni kjósandi fái meiri áhrif á þessi mál en hann hefur haft hingað til.

Ég hygg að það hafi ekki hvarflað að neinum, eða a.m.k. hef ég ekki heyrt að bað hafi hvarflað að neinum, að með breytingu eins og t.d. hér er verið að tala um í þessu frv. sé verið að bjóða form sem verði þess valdandi að það eyðileggi alla starfsemi hinna pólitísku flokka í landinu. Það er síður en svo. Það, sem er þegar búið að eyðileggja að verulegu leyti eðlilega starfsemi stjórnmálaflokkanna í landinu — og heldur áfram að gera það í auknum mæli verði ekkert að gert, er hvernig flokkarnir sjálfir hafa skipað þessum málum og a.m.k. sumir hverjir foringjar þeirra virðast vilja halda áfram að skipa þeim. Það mun verða miklu fremur til að eyðileggja það eðlilega starf, pólitíska starf, sem á að fara fram í stjórnmálaflokkum, en það frv. sem hér er verið að tala um og gerir ráð fyrir að breyta í þá veru sem þar segir. Það er því augljóst mál að mínu viti, og ég er ekki í neinum vafa um að mikill meiri hluti kjósenda í landinu æskir þess, að breytingar verði hér á gerðar. Og það er eðlileg ósk, vegna þess að það skipulag, sem við höfum búið við frá því 1959, hefur reynst á þann veg að flokksræðið hefur svo tröllriðið í þessum efnum, að almenningur í landinu telur sig ekki lengur geta við slíkt unað. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég lofa að vera stuttorður og ég mun standa við það. (Forseti: Ég vona að hv. þm. verði ekki mjög lengi.)

Ég þarf í raun og veru ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en ég vildi við þessa 1, umr. lýsa stuðningi mínum við þetta mál. Vissulega hefði verið ástæða til þess að ræða frekar þau mörgu atriði sem hér hafa komið fram í umr. um þetta mál, og ekki kannske síst það mál sem a.m.k. ber hátt í þessum umr., það sem menn kalla vægi atkv. á bak við hvern þm. En til þess gefst væntanlega tækifæri síðar. Ég skal því ekki hafa fleiri orð um þetta.

Aðeins einn maður, Friðjón Þórðarson, var tilnefndur. Samkvæmt því lýsti forseti yfir að kjörinn væri: Friðjón Þórðarson alþm.