24.11.1977
Sameinað þing: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

30. mál, skipulag orkumála

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs undir umr. um þetta mál fyrir tveimur dögum til þess að koma á framfæri smávægilegum leiðréttingum við orð nokkurra hv. ræðumanna í þeim umr. Þrír hv. þm. Framsfl. töldu að ég hefði í ræðu minni um þetta mál á þriðjudaginn var ásakað hv. 1. flm, þessarar þáltill. um siðleysi. Þetta tel ég rangt með farið og annað tveggja misskilning eða rangtúlkun þessara hv. ræðumanna.

Í ræðu minni sagði ég á þá lund. mjög með sama hætti og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, að það væru að mínum dómi óvenjuleg vinnubrögð að nm, í stjórnskipaðri n., sem falið hefur verið að vinna að lausn tiltekinna mála og leggja till. fyrir ríkisstj., hlaupi allt í einu til og flytti málið inn á Alþ. á meðan n. situr að störfum. Ég sagði einnig að ég minntist þess ekki, að þm. hefðu yfirleitt staðið þannig að málum. Ég minnist þess ekki, að stjórnarandstöðuþm. hafi talið það vera eðlileg vinnubrögð hvað þá stjórnarstuðningsmenn. Fram hjá þessum siðareglum, sem þm. almennt hafa tamið sérvirðist hv. I. flm. þessarar till. hafa farið.

Ég nefndi aldrei siðleysi í ræðu minni, og ég geri nokkurn greinarmun á því, hvort farið sé fram hjá siðareglum, sem hv. alþm. hafa almennt tamið sér, eða hvort þeir eru ásakaðir um síðleysi. Hér á hv. Alþ. gilda t.d. vissar siðareglur í þessum ræðustól að því er tekur til að ávarpa þm. eða forseta. Ef ræðumaður í þessum ræðustól nefnir einhvern þm. með nafni án þess að segja hv. þm. eða kenna hann við kjördæmi sitt, hv. þm. Vestf., — ef hann hefur ekki í heiðri þessa þingvenju t.d., þá fer hann fram hjá siðareglum sem haldnar skulu í heiðri. Hins vegar dytti mér aldrei í hug að saka þm., sem yrði þetta á, um siðleysi. Á þessu er reginmunur.

Hér er því um útúrsnúning eða rangtúlkun á máli mínu að ræða og einkennilegt að þrír hv. þm. Framsfl. skyldu bera sér þetta í munn.

Ég skal ekki ræða þetta mál miklu meir. Ég vil aðeins taka það fram, að skýringar hv. þm. Steingríms Hermannssonar, 1. flm. þessarar till., er hann flutti og áttu að sanna það að vel gæti farið saman þessi þáltill. og lög um Orkubú Vestfjarða, voru yfirklór eitt. Það var auðvitað ekki þess að vænta, að aðrar skýringar fengjust, og má segja að yfirklórið hafi ekki verið verra en búast mátti við.

Hv. 1. flm. þessarar till. taldi að ég hefði ekki farið fyllilega rétt með, þar sem ég ræddi um að till. gerði ráð fyrir að sameina í einu fyrirtæki öll raforkuvinnslufyrirtæki landsins. Ég get vel beðið afsökunar á því, ef ég hef farið þarna lítillega rangt með, en í tillgr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Unnið verði að því að koma á fót einu fyrirtæki, sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta. Ríkisstj. taki í þessu skyni upp samninga við Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafveitu Vestmannaeyja, Rafveitu Siglufjarðar og aðrar rafveitur, sem eiga og reka orkuver, um sameiningu slíks rekstrar í einni landsveitu.“

Þarna segir skýrt og greinilega í tillgr. sjálfri: „alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta“, og upp eru talin a.m.k. flestöll fyrirtæki sem þetta hafa með höndum. Og í framhaldinu er gefið í skyn að önnur, sem ekki eru upp talin, skuli einnig falla undir þetta.

Þessar hártoganir hv. þm. eru því auðvitað hreinn orðaleikur og ekki hægt að festa mikið hönd á slíku. Auðvitað dettur mér ekki í hug, ef t.d. bóndinn í Æðey setti upp vindmyllu til þess að vinna rafmagn til heimilisnotkunar og annars brúks þar í eynni, að það fyrirtæki skyldi endilega verða sameinað þessu landsfyrirtæki. Það hefur mér ekki dottið í hug. En orðaskak hv. þm. Steingríms Hermannssonar af þessu tilefni er líkast því að barist sé við vindmyllur.

Hv. þm. taldi það mjög til gildis þessari þáltill., að nauðsynlegt væri að fram kæmi á Alþ. hinn pólitíski vilji í þessu máli, þ.e. til skipulags orkumála í landinu. Það er ekki fyrir að synja, að það hafi sína kosti og sé nauðsynlegt að það gerist fyrr eða síðar. Ég hygg þó að hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, og hv. 3, þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, hafi m.a. verið skipaðir í þessa n., sem á að endurskoða lög um heildarskipulag orkumála í landinu og leggja till. þar um fyrir Alþ. og ríkisstj., til þess að þar gætu komist að hin pólitísku sjónarmið og till. orðið mótaðar í samræmi við hinn pólitíska vilja. Þeir eru fulltrúar tveggja stærstu þingflokkanna, þeirra flokka sem styðja núv. hæstv. ríkisstj. Það hefði því verið æskilegra að mínum dómi, að hinn pólitíski vilji þessara hv. þm. beggja og þeirra stjórnmálaflokka, sem þeir eru fulltrúar fyrir, kæmi fram í till. n. þegar hún skilar af sér störfum heldur en að einn nm. fari, eins og hér hefur gerst, að flytja málið inn á Alþ. og setja þar fram ákveðnar skoðanir meðan málið er í undirbúningi í n. sem hann situr sjálfur í.