24.11.1977
Sameinað þing: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

30. mál, skipulag orkumála

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. Karvel Pálmasyni á það, að við fáum tækifæri til að flytja ræður eins og hann flutti áðan á framboðsfundum á Vestfjörðum í vor. Mér finnst að sleggjudómar og fullyrðingar eins og þar komu fram eigi frekar erindi þangað og mun nú ekki taka þátt í slíku. Ég vil jafnframt biðja hann afsökunar á því, að ég skuli hafa ætlað honum að hafa skoðun í þessu máli. Það er eflaust til of mikils ætlast. En ég skildi orð hans í fyrstu ræðunni svo, að hann styddi þessa till., en það er sem sagt rangt og tekið til baka.

Hv. þm. Karvel Pálmason og reyndar hv. þm. Pálmi Jónsson ræddu nokkuð um Orkubúið og að þessi till. gengi á snið við það. Ég vil enn andmæla þessu, og ég vil vekja athygli á því, að þeir, sem hafa talið svo, þessir tveir ágætu þm., hafa, eftir því sem ég hef best tekið eftir, ekki nefnt eitt atriði þar sem þetta gangi á snið við Orkubúið. Hv. þm. Karvel Pálmason sagði sem sagt að í þessari till. væri ekki ætlast til þess að fyrirtækið ræki hitaveitur. Ég vil reyna að leiðrétta þetta enn einu sinni. Ég vil enn vekja athygli á því, að í 2. lið þessarar till. er talað um landshlutafyrirtæki. Orkubú Vestfjarða er landshlutafyrirtæki það er ekki landsveita. Hér segir: „Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum, sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna.“ Það kann að vera að orðið hitaveita valdi þarna einhverjum misskilningi, en hitaveita er hið almenna orð bæði um fjarkyndistöðvar og fjarhitunarstöðvar. Það er allt hitaveita sem veitir hita frá einum stað í gegnum ákveðið kerfi til notkunar. Þetta er hið almenna orð um hitaveitu. Stundum er það kallað fjarkyndistöð, þegar um kyndistöð er að ræða þar sem hitinn er framleiddur. Og stundum eru þær nefndar jarðvarmaveitur. En hitaveita er hið almenna orð. Ef þetta hefur valdið einhverjum misskilningi, þá vil ég jafnframt benda mönnum á það, að í grg, er þetta nánar undirstrikað, og þar eru reyndar notuð orðin: „reki jarðvarmaveitur eða fjarhitunarstöðvar“. Hér segir, með leyfi forseta: „Eðlilegt er jafnframt að landshlutaveitur eigi og reki jarðvarmaveitur eða fjarhitunarstöðvar.“ Ég vona því að þessi misskilningur sé leiðréttur. Að þessu leyti gengur þetta alls ekki á snið við Orkubú Vestfjarða. Það er alls ekki rétt.

Hitt er annað mál, eins og ég hef sagt, að það má segja að þetta stangist á að því leyti, að Orkubúi Vestfjarða er ætlað að reka aflstöðvar. Það hef ég alltaf viðurkennt. Þess vegna hef ég hvað eftir annað lagt áherslu á það, að ég teldi æskilegra að þessar aflstöðvar, sem eru um 11 mw, væru reknar af einni landsveitu, og ég hef aldrei farið leynt með það. Ég legg einnig áherslu á það, að teknar verði upp viðræður við Orkubú Vestfjarða um að landsveita, ef á fót verður sett, taki við rekstri þessara aflstöðva. Hitt er svo annað mál, að þessar aflstöðvar eru ekki nema 2:1% af uppsetu afli í vatnsaflsstöðvum hér á landi, og mér finnst raunar skipta ákaflega litlu máli hvorum megin þær liggja. Þetta er ekki hluti af meginraforkuvinnslu landsins. Ég vísa því enn þá algjörlega á bug, að þessar till. okkar gangi á einhvern máta gegn Orkubúinu. Ég veit að innan Framsfl. eru nokkuð skiptar skoðanir um það. Þó hygg ég að þær séu fyrst og fremst á þeim grundvelli reistar, að menn telji þar margir, og ég er því sammála, að það hefði verið réttara að ákveða heildarskipulagið um orkuvinnslu eða orkudreifingu í landinu áður en ákveðið væri um orkumál einstakra landshluta. Ég held að það sé þetta atriði sem margir þessara aðila leggja fyrst og fremst áherslu á. Þannig tók ég m.a. þau orð sem hv. 5. þm. Austurl. sagði þegar þetta var rætt s.l. þriðjudag.

Hv. þm. Karvel Pálmason var með dylgjur um það, að við þm. Framsfl. á Vestfjörðum hefðum tafið fyrir Orkubúinu. Mér þykir þetta furðulegt. Ég veit ekki betur en allir þm. Vestf. hafi staðið einhuga um Orkubúið, ég hef hvergi heyrt annað. Ég ætla ekki að bera honum á brýn eða neinum öðrum, að þeir hafi tafið fyrir því. En ég hef í þeim viðræðum, sem ég hef átt m.a. við hæstv. ráðh. og fleiri um þetta mál, lagt á það ríka áherslu að lína yrði lögð frá byggðalínunni eða meginraforkukerfi landsins inn á Vestfirðina af öðrum en Orkubúi Vestfjarða. Ég hef sagt að ég liti á þetta sem nánast skilyrði fyrir því að Orkubúið gæti starfað svo að viðunandi væri. Ef þetta hefur tafið eitthvað fyrir, þá hef ég ekki verið einn um það, því að þetta er skilyrði sem nánast hvert einasta sveitarfélag á Vestfjörðum hefur sett. Og ég get bætt því við, að ég lagði áherslu á þetta skilyrði vegna þess einnig, að þetta greinir Orkubúið frá landsveitu. Í okkar till. er gert ráð fyrir að landsveita eigi slíkar stofnlinur. Af þeirri ástæðu m.a. taldi ég algjörlega óeðlilegt og ganga gegn samþykkt Framsfl. í þessu máli að Orkubú Vestfjarða ætti stofnlínuna inn á Vestfirði. Ég tel að þarna hafi raunar hugmyndir sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum verið mjög í samræmi við þær hugmyndir sem við setjum fram í þeirri till. sem hér er til umr. Eins og margsinnis hefur verið vakin athygli á, segir hér: „að koma á fót einu fyrirtæki, sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta“. Ég vil algjörlega vísa því á bug, að við höfum á nokkurn máta reynt að tefja fyrir þessu máli. Við höfum lagt áherslu á þennan þátt og það hafa, hygg ég, aðrir þm. Vestf. einnig gert.

Ég ætla ekki að fara að ræða um milliþn. um byggðamál. Það getur komið tækifæri til þess síðar að ræða um það sem sú n. hefur gert. Ég vil bara leggja áherslu á það, að ég tel að sú n. hafi komið ýmsu góðu til leiðar. Vel má segja að það hefði mátt vera meira, en það, sem hefur áunnist, er þó mikilvægt, t.d. að fá byggðadeild setta á fót við Framkvæmdastofnun ríkisins, en ég fer ekki lengra út í það.

Ég vil þakka hv. þm. Pálma Jónssyni fyrir kennslustund í siðareglum. Hvort það er siðleysi að fara fram hjá siðareglum eða ekki skal ég ekki dæma um, en mér finnst satt að segja heldur lítill munur þar á og sú skýring, sem þarna kom fram, svo ég noti hans eigin orð, sé yfirklór eitt. Í landinu eru 14 raforkuframleiðslufyrirtæki. Við erum ekki að tala um að sameina vindrafstöðvar, og ég held að þetta sér algjör útúrsnúningur. Við meira að segja tölum um alla meginraforkuframleiðsluna, og við teljum að þessu sé náð þótt ekki verði öll þessi 14 raforkuvinnslufyrirtæki sameinuð. Þetta hef ég margsagt, þetta kemur fram í till., kemur fram í grg., og ég vona að það sé enginn misskilningur um það. Hins vegar er þetta lítilfjörlegt atriði. Hv. þm, viðurkenndi að hann kynni að hafa misskilið till. að einhverju leyti, og ég vona að það sé nú leiðrétt.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona að þessar umr. hafi þegar orðið til nokkurs gagns og vísi nokkuð veginn sem hv. þm. vilja fara á þessu mikilvæga sviði. Ég ætlaði að endurtaka það sem ég sagði síðast um beiðni hæstv. orkumrh. um að við legðum ekki áherslu á að þessi till. yrði afgreidd það fljótt að umrædd n. fengi ekki tækifæri til að starfa lengur. Ég sé að hann er ekki við. En ég sagði síðast, að við föllumst með ánægju á tilmæli hæstv. ráðh. í þessu sambandi.