18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð þeirra ræðumanna, sem hér hafa talað á undan mér um það, að mál sundlaugar við Grensásspítala væri leyst. Ég efast ekkert um að svo verði, að það verði afgr. á þessum fjárl. og fjármagn til þeirrar sundlangar verði veitt. Og það er mjög gleðilegt til þess að vita, því að sannarlega er hér um mikið nauðsynjamál að ræða.

En varðandi þá annmarka, sem taldir voru á samþykkt till. hér í vor, þá held ég að nokkru hafi ráðið þar um að til voru í landinu tveir aðrir staðir þar sem einnig kom til greina að byggja sundlaug fyrir fatlaða. Á öðrum staðnum, sem er endurhæfingardeild Landsspítalans, fer fram kennsla t endurhæfingu, og þar hefur endurhæfing líka farið fram miklu lengur en á Grensásspítalanum. Þar var grunnur sprengdur og búinn að standa í 15–20 ár og t.d. allan hann tíma sem flm. þessarar till. höfðu verið heilbrrh. Enn fremur er það svo, að í Dvalarheimili Sjálfsbjargar er ætluð sundlaug fyrir fatlaða og hún biður að sjálfsögðu aðeins eftir fjármagni. Og nú þegar þetta sundlaugarmál Grensásdeildar er leyst, þá finnst mér ekki úr vegi að við höfum þetta í huga, að þarna eru tvær stofnanir sem sannarlega bíða eftir afgreiðslu á sundlaugum og hafa beðið mjög lengi báðar tvær.

En það, sem aðallega gerði að ég stóð upp, voru orð hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar um ástand okkar í endurhæfingarmálum. Ég er honum fyllilega sammála að því leyti, að endurhæfing geti gert stórvirki, og enn fremur það, að við erum eftirbátar ýmissa þjóða í endurhæfingarmálum, en ekki margra þjóða. Það má segja kannske að við séum eftirbátar Norðurlandaþjóðanna að sumu leyti, en ekki að öllu leyti. Og ráðh. fyrrv. gat um það, að það er núna í júlí í sumar sem verið er að samþ. löggjöf í Svíþjóð sem mun bæta verulegu úr umferðarmálum fatlaðra. Hér á landi hefur einnig verið í undirbúningi alllengi að gera umbætur á tvennum lögum með það í huga að auðvelda umferð fatlaðra.

Til þess að þetta mætti verða var skipuð n. nokkurra manna 1972. Sú n. hefur unnið að undirbúningi þessarar lagasetningar, og nál. var skilað fyrir tveim eða þrem árum. En þá vildi þannig til að verið var að undirbúa frv. til byggingarlaga, var ákveðið í samráði við sérfræðinga á sviði byggingarmála að heppilegt mundi þykja að taka ákvæði um umferð fatlaðra inn í byggingarlög, en smáatriðin aftur á móti skyldu koma í byggingarreglugerðum.

Þetta tafði málið nokkuð. En nú er svo komið, að byggingarlög fóru ekki í gegn á síðasta þingi og þess vegna hefur nú verið undirbúið að gera breyt. á tvennum lögum, þ.e.a.s. skipulagslögum og lögum um byggingarsamþykktir. Önnur till. hefur þegar verið lögð fram, en hin mun koma fram í dag eða á morgun. Þegar þessar breyt. eru orðnar að lögum, þá má segja að við stöndum að mínu viti nokkurn veginn jafnfætis í málum framtíðarbygginga og flestar nágrannaþjóðir gera.

En hitt er svo enn mikið mál, og það er að fá fram breytingar á þeim byggingum, sem nú eru notaðar, til þess að auðvelda umferð fatlaðra. Þetta er mikið fjárhagsmál. Það er nauðsynlegt að sveitarfélög og ríki vinni í sameiningu að umbótum á þessu sviði og taki fyrir ár frá ári vissar byggingar í þessu skyni. Þetta er mikið nauðsynjamál, en ég vona að þegar á næstu fjárl. megi sjá þess einhvern vott að farið sé að huga að þessu.