28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

Varamaður tekur þingsæti

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram vegna fsp. hv. 2. þm. Austurl., tel ég ástæðu til að vekja athygli á því, að í þann mund sem þessar umr. hófust hér á hinu háa Alþ. barst hingað í húsið dagblaðið Vísir, útkomið í dag. Í Vísi, sem út kom nú fyrir stundu, segir í fyrirsögn yfir þvera baksíðu: „Við getum ekki lagt varanlega vegi af eigin rammleik.“ Það er ekki dagblaðið Vísir sjálft sem setur fram þessi ummæli. Dagblaðið Vísir er þarna að vitna í ummæli sem fram komu á hinum sama flokksráðsfundi Sjálfstfl. Skv. frásögn blaðsins voru þau að vísu ekki mælt af hæstv. forsrh., en þau voru mælt, skv. frásögn dagblaðsins Vísis, af öðrum hæstv. ráð. í ríkisstj. Íslands. Þau voru mælt af Gunnari Thoroddsen, hæstv. iðnrh. Ég hygg að það fari ekki milli mála, að þegar einn hæstv. ráðh. í ríkisstj. lýsir því yfir, að við Íslendingar getum ekki lagt varanlega vegi af eigin rammleik, og sjálfur forsrh. veltir fyrir sér þeirri hugmynd að byggja hernaðarflugvöll á Austurlandi og láta Bandaríkjamenn greiða kostnað við hann og einnig kostnað við vegarlagningu milli Keflavíkurflugvallar og hins nýja flugvallar, sem talað er um, og þegar þetta gerist fáum dögum eftir að yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda Sjálfstfl. hefur í tengslum við prófkjör látið þá skoðun í ljós, að rétt sé að ætla Bandaríkjamönnum það verkefni að byggja hér upp þjóðvegakerfið, þá er að sjálfsögðu af hálfu hæstv. ráðh. verið að leita leiða til þess að það fólk, sem tók þátt í þessari skoðanakönnun og lýsti sig fylgjandi því, að Bandaríkjamenn tækju þátt í kostnaði við uppbyggingu vegakerfisins, geti sætt sig við. Þá er verið að leita leiða til þess að koma málum þannig fyrir að þetta fólk sé ánægt með niðurstöðurnar.

Það er sagt í dagblaðinu Vísi, að hæstv. iðnrh., sem því miður er ekki hér í salnum, hafi einnig látið þá skoðun í ljós á flokksráðsfundi Sjálfstfl., að það væri mjög athugandi að ætla Bandaríkjaher fleiri verkefni hér á Íslandi en hann hefur nú. Dagblaðið Vísir hefur eftir hæstv. iðnrh. Gunnari Thoroddsen, að hann teldi eðlilegt að Bandaríkjaher sæi um okkar almannavarnir, og hæstv. iðnrh. á skv. frásögn Vísis einnig að hafa látið þá skoðun í ljós á flokksráðsfundinum, að eðlilegt væri að heimta af bandaríska hernum margvísleg skattgjöld sem hann greiðir ekki nú.

Allt er þetta til marks nm það, að hér er á ferð innan Sjálfstfl. þung undiralda. Það eru þungir straumar sem stefna að því að ætla bandaríska hernum langtum viðtækari verkefni hér á landi en hann hefur nú. Það má vel vera, og við skulum vona að svo sé, að a.m.k. sumir hæstv. ráðh. flokksins og hv. þm. flokksins hafi miklar áhyggjur vegna þess, sem fram hefur komið í þessum efnum, m.a. í umræddri skoðanakönnun hjá flokknum. Við skulum vona að svo sé. En ef svo er, ef hæstv. forsrh. mælir af heilum hug í viðtali í sjónvarpi, þar sem hann segir að þeir flokksmenn hans, sem vilji taka leigugjald fyrir herstöðina við Keflavík, skuli strika hann út af framboðslista Sjálfstfl. í vor, — ef hann mælir þetta af heilum hug, þá held ég að það sé ekki hyggilegt að vera á sama tíma að gera gælur við hugmyndir eins og þær að byggja nýjan hernaðarflugvöll á Austurlandi — og ætla Bandaríkjamönnum að kosta ekki aðeins flugvöllinn heldur líka þjóðvegarlagningu milli hinna tveggja flugvalla sitt á hvoru landshorni. Með því er sannarlega verið að gefa alvarlega undir fótinn með að þrátt fyrir allt komi mjög til greina að ætla Bandaríkjamönnum og her þeirra hér að kosta að mjög verulegu leyti þjóðvegarlagningu um hálft Ísland. Og ef hæstv. iðnrh. er sammála hæstv. forsrh. um það, að hyggilegt sé fyrir þá Sjálfstfl.-menn, sem vilja taka leigugjald fyrir herstöðina, að strika hæstv. forsrh. út af væntanlegum framboðslista Sjálfstfl, og máske þá hæstv. iðnrh. líka, ef þeir félagar eru báðir sama sinnis, — ef svo er, þá er næsta furðulegt að hæstv. iðnrh. lætur dagblaðið Vísi hafa það eftir sér í risafyrirsögn á sama tíma, að við Íslendingar getum með engu móti lagt varanlega vegi um land okkar af eigin rammleik.

Við erum þar á vegi staddir í þessum efnum, að það er full ástæða til að staldra alvarlega við og spyrja: Á framtíðin að verða sú hjá okkur Íslendingum, að við gefumst smátt og smátt upp við að búa í þessu landi sem sjálfstæð þjóð? Fari svo, að erlendur her, sem í okkar landi dvelur, — við skulum láta það liggja á milli hluta að þessu sinni hvort vera hans hér stafar af nauðsyn eða ekki, — en fari svo, að slíkur erlendur her, sem í landinu dvelur áratugum saman, taki smátt og smátt að sér þau verkefni, sem sérhver þjóð, sem hyggst standa á eigin fótum, hlýtur að telja sín eigin, svo sem vegagerð og aðrar opinberar framkvæmdir, þá blasir það við að fyrr en varir hljótum við að verða svo háð þessu erlenda herliði að erfitt muni reynast að losna úr þeim böndum á ný.

Við skulum minnast þess, að ef spurningin er aðeins sú, hvort Bandaríkjamenn kynnu að telja nauðsyn á svokölluðum auknum vörnum hér á landi, þá er trúlega engin fyrirstaða að fá frá þeim jákvætt svar í þeim efnum. Hæstv. forsrh. talar um að það verði á hverjum tíma að meta nauðsyn, hvort þörf sé á auknum vörnum í landinu eða ekki, slíkt verði að meta á hverjum tíma. Hverjir hafa haft á hendi þetta mat? Hefur það verið einhver stofnun á vegum íslensku ríkisstj. á undanförnum árum? Hefur það verið einhver n, á vegum Alþingis, t.d. utanrmn.? Ég hygg að lítið hafi farið fyrir því. Það er bandaríski herinn sem í raun hefur haft þetta mat á hendi. Við skulum minnast þess, að á sínum tíma, í lok styrjaldarinnar, fyrir rúmum 30 árum, fóru Bandaríkjamenn fram á herstöðvar til 99 ára á Íslandi. Það er nú liðinn um 1/4 þess tíma. Og þeir fóru ekki fram á Keflavíkurflugvöll einan. Þeir fóru fram á fleiri herstöðvar hér, m.a. í Hvalfirði og reyndar í Reykjavík. Og við skulum ekki efast um það, að þegar Bandaríkjamenn, bandaríska utanrrn, og bandaríska hermálarn., fá fréttir af því, að sjálfur forsrh. Íslands sé með bollaleggingar um það á opinberum fundi, að það geti vel komið til mála að hér þurfi, áður en langt um liður væntanlega, að auka varnir landsins, byggja nýjan hernaðarflugvöll á Austurlandi og leggja veg á vegum hins erlenda hers á suðvesturhorni landsins til norðausturhornsins, þá hljóta ráðamenn bandaríska hersins að taka mjög eftir þessum ummælum. Þegar það kemur síðan fram í umræðum hér á Alþ.,hæstv. forsrh. segir sem svo, að hann hafi þarna verið að nefna dæmi um það sem geti svo sem alveg komið til mála, þá hljóta þeir aðilar erlendir, sem löngum hafa gjarnan viljað ná fastri og öruggri hernaðaraðstöðu hér á landi, að telja að þarna sé verið að gefa undir fótinn með það, að hér séu opnar dyr fyrir frekari hernaðarumsvif.

Ég hefði gjarnan viljað, ef hæstv. iðnrh. hefði verið staddur hér í salnum, að hann gæfi ekki síður skýringu á ummælum sínum heldur en hæstv. forsrh. hefur gert. En því miður er hann hér ekki viðstaddur. Ég vil vænta þess, að hæstv. forsrh. komi því á framfæri við Gunnar Thoroddsen, hæstv, iðnrh., að hér hafi einnig verið um það spurt á hinu háa Alþ. hvað búi að baki þeim ummælum hæstv. iðnrh., að við Íslendingar gefum ekki lagt varanlega vegi um okkar land af eigin rammleik.