28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

Varamaður tekur þingsæti

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti, Ég held að það verði að koma alveg skýrt fram, að í umr. um flugvöll á Austurlandi eða Norðausturlandi hefur einmitt verið rætt um flugvöll á vegum varnarliðsins, og ábendingar þær, sem Sigurður Líndal og Valdimar Kristinsson settu fram og ég nefndi hér fyrr í umr., voru bundnar við það að slíkur flugvöllur hefði varnargildi fyrir landið. Hitt vil ég líka láta koma fram, að það kann að vera að sú staðreynd, að æskilegt væri að hafa stóran alþjóðlegan, fullkominn flugvöll á Norðausturlandi eða Austurlandi, hafi gefið einhverjum hugmyndir um að varnarliðið gæti gert þennan flugvöll okkur Íslendingum að kostnaðarlausu. Dæmi mitt í ræðunni er sett fram í því skyni að segja þeim íslendingum, sem álíta að unnt sé að láta varnarliðið borga þennan flugvöll, þann varaflugvöll fyrir albjóðaflug á Íslandi eða um Ísland, að skilyrði þess sé að slíkur flugvöllur hafi gildi fyrir öryggi landsins, og afleiðingin af því séu aukin umsvif varnarliðsins og afnot þess af þeim flugvelli. Ég er að aðvara menn, hvar á landinu sem þeir búa, að þeir geti ekki fengið slíkt upp í hendurnar nema böggull fylgi skammrifi, og ég bendi á það í þessari ræðu minni, að við verðum að gera okkur grein fyrir hvort þar kvaðir og sú breyting, sem aukin umsvif varnarliðsins hafa í för með sér, séu þess eðlis, að við séum reiðubúin að taka þær á og hlíta þeim. Ég held að það komi alveg skýrt fram í mínu máli, að í þessu felst greinileg aðvörun, það verði ekki ráðist í slíkar framkvæmdir fyrir annarra reikning, nema þær framkvæmdir séu ótvírætt nauðsynlegar vegna okkar eigin varna og vegna okkar eigin öryggis.

Ég held, að engum blandist hugur um þetta sem les ræðu mína, að það er fólgin í henni aðvörun til þeirra landsmanna sem ætla sér að fá flugvöll upp í hendurnar, hvort heldur er á Austurlandi, Norðausturlandi eða annars staðar á landinu, eða varanlega vegi. Sú aðvörun er fólgin í því, að við tökum ekki við þeim framkvæmdum úr annarra hendi eða fjármunum til þess að standa undir þeim framkvæmdum, nema það sé nauðsynlegt frá öryggissjónarmiði okkar sjálfra. Og ég held líka, að það komi fram í mínu máli, en að svo miklu leyti sem það er ekki nægilega greinilegt skal það gert enn greinlegar með þeim hætti, að sem betur fer er nú vonandi ekki sú yfirvofandi hætta að við þurfum að gera ráð fyrir auknum umsvifum varnarliðsins eða framkvæmdum annars staðar á landinu en þar sem varnarstöðin nú er staðsett. En hins vegar getum við ekkert um þetta fullyrt um aldur og eilífð. Ég tel aukin varnarmannvirki alls ekki vera á dagskrá hér öðruvísi en ég bendi á að mat á nauðsyn varnarviðbúnaðar þarf ávallt að fara fram og við þurfum ávallt að gera okkur grein fyrir stöðu okkar og taka ákvarðanir. Þær geta falist í óbreyttu fyrirkomulagi, að varnarliðið fari af landi brott eða að varnarviðbúnaður verði aukinn með einhverjum hætti.

Ég tel rétt að það komi fram, að ég hef aflað upplýsinga um það, að sú grein, sem ég hef gert hér að umtalsefni, birtist 16. jan. 1974 og bar fyrirsögnina: Nýskipan varnarmála, og undirfyrirsögn, sem ég er nú ekki alveg viss um hver var, en hún birtist sem sagt fyrir tæpum fjórum árum, þannig að út af fyrir sig er þetta ekki mín hugmynd og aðeins tekið sem dæmi í umr. Það er mjög óvenjulegt, að menn vilji ekki eigna sér hugmyndir í þessum ræðustól, en þessu er nú samt þannig varið.