28.11.1977
Neðri deild: 20. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

Varamaður tekur þingsæti

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Kannske að ég víki að því atriði sem var einna forvitnilegast í ræðum hæstv. ráðh. hér áðan. Þeir töluðu um það báðir með mjög siðferðilegum þunga, að Íslendingar mættu ekki gera sér bandaríska hersetu á Íslandi að féþúfu og gjaldtaka kæmi ekki til greina. Mér þótti ákaflega einkennilegt að sjá siðgæðissvipinn á hæstv. ráðh., þegar þeir mæltu þetta, og hlusta á alvöruþungann í röddum þeirra, því að það hefur sannarlega farið fram gjaldtaka í sambandi við vist bandarísks hers á Íslandi og hluti af þeirri gjaldtöku hefur sannarlega runnið í ríkissjóð.

Ég minnist þess ákaflega vel, þegar bandaríski herinn kom hingað vorið 1951. Hann kom ekki með neinu samþykki Alþingis, þótt hæstv. forsrh. héldi því fram áðan. Það er alveg rétt, að þrír flokkar héldu leynifundi utan þessa húss til þess að fallast á hersetuna, en það jafngildir ekki neinni samþykkt Alþingis. Þetta var ótvírætt stjórnarskrárbrot sem þarna var framið. Vilji Alþingis var alls ekki kannaður á þann hátt sem gera verður samkv. stjórnarskránni.

En þegar herinn kom hingað var sannarlega unnið rösklega að því að gera hernámið að féþúfu. Í fyrstu voru það erlendir verktakar sem gegndu störfum í þágu hernámsliðsins. En það var farið í það af miklum dugnaði að stofna íslensk félög sem áttu að gegna þjónustustörfum fyrir hinn erlenda her. Það var stofnað félag sem hét Sameinaðir verktakar, og ég man ekki betur en fyrsti framkvæmdastjóri þeirra samtaka héti Geir Hallgrímsson, sem nú er hæstv. forsrh. Þetta voru samtök sem stofnuð voru til þess að hagnast á erlendri hersetu.

Það gerðist fleira. Framsfl. hafði ekki síður áhuga á því að hagnast á erlendri hersetu. Fé samvinnuhreyfingarinnar var notað til þess að stofna sérstakt hlutafélag, Regin hf., til þess að hagnast á erlendri hersetu á Íslandi, og það var gerður samningur milli þeirra flokka, sem nú sitja í ríkisstj., um helmingaskipti hvað þetta snertir. Á móti fjórðungsaðild Regins hf. kom fjórðungsaðild ríkissjóðs, sem átti að tryggja það að hlutur Framsfl. væri þarna fullkomlega tryggður á móti Sameinuðum verktökum, sem talin voru samtök Sjálfstfl.-manna.

Ég minnist þess einnig, að þáv. utanrrh. beitti sér fyrir því, að stofnuð voru sérstök samtök verktaka, sem voru taldir tilheyra Alþfl., til þess að hagnast einnig á þessari hersetu.

Gjaldtakan af hernámsliðinu var býsna mikil. Yfir fjórðungur gjaldeyristeknanna, gjaldeyristekna íslensku þjóðarinnar, kom frá hernámsliðinu á fyrstu árum eftir hernámið 1951, meira en fjórðungur, — og ætli það sé ekki ærið há upphæð sem hefur runnið í ríkissjóð í sambandi við þá peninga? Þó að ekki hafi verið hafður sá háttur á, að gerður væri formlegur reikningur frá ríkisstj. Íslands til ríkisstj. Bandaríkjanna, hefur sannarlega verið um ósmáa gjaldtöku að ræða. Og þessi gjaldtaka heldur enn áfram.

Sameinaðir verktakar, sem hæstv. núv. forsrh. starfaði eitt sinn fyrir, starfa áfram á Íslandi. Þetta er að vísu orðið lokað hlutafélag, að því er mér skilst. Það mega ekki aðrir hagnast á störfum í þágu bandaríska hersins en þeir sem stofnuðu þessi samtök í upphafi, en þeir hagnast einnig ríflega á þeim — mjög ríflega. Ég man ekki betur en það gerðist fyrir tiltölulega fáum árum, að íslenska ríkið taldi sig skorta fé til þess að leggja vegarspotta hér fyrir innan Reykjavík og fékk þá lán hjá Sameinuðum verktökum til að geta lagt þennan vegarspotta. Uppi á Ártúnshöfða er, að ég hygg, stærsta hús á Íslandi, og ég veit ekki betur en það sé í eigu Íslenskra aðalverktaka, borgað með gjaldtöku, borgað vegna þess að tilteknir aðilar á Íslandi hafa hafi aðstöðu til þess að gera hersetu Bandaríkjanna hér að féþúfu. Og þetta eru áhrifamiklir aðilar í þjóðfélaginu.

Ég minnist þess, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var ákveðið að bandaríski herinn skyldi fara, og það var gengið frá því á árinu 1973, ef ég man rétt, að semja um það í einstökum atriðum hvernig þessari brottför yrði háttað. Þá gerðist það að gamla stjórnarráðsbyggingin, þar sem hæstv. núv. dómsmrh. hafði þá sæti sem forsrh., fylltist einn daginn af Framsóknarflokksmönnum sem höfðu svo mikla gjaldtöku af hersetunni að þeir gengu á fund formanns fíns til að mótmæla því að herinn væri látinn fara.

Hér hefur verið um ákaflega mikla gjaldtöku að ræða, og það lá við um tíma að Ísland kæmist í mjög slæma aðstöðu út af þessum áformum. Það stóð til að koma upp á Rangárvöllum mjög stórri, nýrri flugstöð. Það stóð til að koma upp herskipahöfn á Suðurlandi í sambandi við þennan flugvöll. Ég minnist þess að einn af aðalleiðtogum Framsfl. stofnaði þá svokallað fjárbú á Rangársöndum ásamt félaga sínum. Ég held að búið hafi heitið Ketla. Tilgangurinn var að geta haft flugvallarstæðið að féþúfu.

Þannig hefur verið staðið að þessu máli, og ég hygg að það séu þessir fjármálaþræðir sem fyrst og fremst valda því, að menn vilja hafa erlendan her á Íslandi, vissir áhrifamenn, vissir fjármálamenn, vegna þess að þeir hagnast á því peningalega. Og aronskan, sem veður nú uppi í Sjálfstfl., er beint áframhald af þessari stefnu, nákvæmlega beint áframhald, þannig að það er í mínum augum hrein hræsni þegar formaður Sjálfstfl. lítur hér í kringum sig alvarlegum augum og telur að af siðferðilegum ástæðum geti ekki orðið um að ræða neina gjaldtöku af Randaríkjamönnum. Sú gjaldtaka hefur farið fram allan tímann, og hún er ástæðan fyrir því að þessi bandaríski her er hér enn þá og það virðist vera áhugamál fjárplógsmanna sérstaklega að þessi herseta haldist til eilífðarnóns.

Ég segi þessi orð til þess að mótmæla þeirri hræsni sem fram kom í ummælum þessara beggja ráðh. Það er gjaldtakan sem hefur verið röksemdin fyrir erlendri hersetu á Íslandi og er það enn í dag. Og það verður ekki höggvið á þessi bönd, við losum okkur ekki við niðurlægingu erlendrar hersetu fyrr en við erum menn til þess að skrúfa fyrir þessa gjaldtöku sem er eina raunverulega röksemdin.