28.11.1977
Neðri deild: 20. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

Varamaður tekur þingsæti

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr, Ég tel rétt að það komi hér fram, að undirfyrirsögn í umræddri grein þeirra Sigurðar Lindals og Valdimars Kristinssonar var að herstöðin yrði flutt frá Keflavíkurflugvelli, og það er alveg rétt, að í þeirra tillögum fólust ekki aukin umsvif varnarliðsins hér á landi. En í hugmyndum manna um nauðsyn á öðrum alþjóðlegum flugvelli á Norður- eða Austurlandi hafa falist þær óskir eða skoðanir, að slíkur flugvöllur gæti verið byggður fyrir varnarliðið. Það er til þeirra manna sem ég beindi aðvörunum mínum í ræðu minni á flokksráðsfundi, að það mundi hafa í för með sér aukin umsvif varnarliðsins.

Ég vil svo aðeins segja að það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda, ég held allra ríkisstj. sem hafa verið að störfum frá því að varnarsamningurinn var gerður, að umsvif varnarliðsins væru sem minnst og tala varnarliðsmanna í lágmarki og þar af leiðandi þeirra útlendinga sem fyrir þá störfuðu. Þess vegna hafa Íslendingar tekið að sér ýmiss konar verk vegna varnarliðsins, og er það bein afleiðing af stefnu íslenskra stjórnvalda og jafnvel þeirra stjórnvalda sem Alþb. hefur átt aðild að.

Varðandi þáltill., sem hv. 5. þm. Vesturl. nefndi, þá var við flutning hennar gengið út frá því, að Alþb.-menn kærðu sig ekki um aðild að þessari endurskoðun, það væri ekki á þeirra stefnuskrá að endurskoða fyrirkomulag varna eða varnarsamnings, heldur alfarið að varnarliðið skyldi á brott og hér skyldu ekki neinar varnir vera. Þess vegna var gengið út frá því sem gefnu, að þeir kærðu sig ekki um slíka aðild málsins.