29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

34. mál, Djúpvegur

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. samgrh. sagði í sambandi við ályktun Fjórðungssambandsþings Vestfjarða frá 1976, að forgang skyldu hafa samkv. óskum heimamanna tenging sveita við markaðssvæði og tenging byggðarlaga innan fjórðungsins. Þetta er rétt. Að vísu hafa orðið nokkuð skiptar skoðanir um þetta heima á Vestfjörðum síðan þessi samþykkt var afgreidd á fjórðungsþingi. En ég hef staðið í þeirri meiningu, að tenging Djúpvegar við aðalvegakerfi landsins væri mál út af fyrir sig, sem ekki kæmi beint við innanhéraðsmálum að því er samgöngur snertir, heldur skoðaðist tenging Djúpvegar sem hluti af aðalhringvegaframkvæmdum. Ég vitna hér í, þó að ég hafi nú ekki við höndina umr. frá Alþ. frá árinu 1974, á sumarþingi þá, að þá kom það greinilega fram í máli hæstv. samgrh. og hafði raunar komið fram hjá fyrrv. samgrh., Hannibal Valdimarssyni, að tengingu Djúpvegar bæri að skoða sem hluta hringvegarins. Ég fagnaði þessari yfirlýsingu þá, og ég vildi gjarnan heyra staðfestingu á því nú frá hæstv. ráðh., að þetta væri réttur skilningur. Þess vegna er það trú mín að það sé ekki gerlegt að biða með framkvæmd á tengingu Djúpvegar þangað til öllum þeim miklu verkefnum er lokið sem fyrir liggja samkv. ályktun fjórðungssambandsþings. Og ég spyr hæstv. samgrh.: Megum við ekki vænta þess, vegna þess líka að nú er mikið lagt upp úr fullri framkvæmd hringvegarins, að tenging við Vestfirði komi þar alveg ótvírætt inn í?