29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

34. mál, Djúpvegur

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom hjá hv. 9. landsk. þm. og hv. 5. þm. Vestf., vil ég taka það fram, að það er rétt sem hv. 9. landsk. þm. sagði, að á Djúpveg var litið sem hluta af hringvegi, og framkvæmdin var líka miðuð við það. Hins vegar kom þá ekki inn í það mál tengingin við aðalþjóðvegakerfi landsins, en það mál getur verið til ákvörðunar þegar fyrir liggur hvaða leið skuli fara í þeim efnum. Hitt er ljóst, að það liggur ekki fyrir. Ég hef ekki trú á því, að upplýsingar, sem ég hef frá vegamálastjóra, séu rangar. Ég leyfi mér að telja slíkar ásakanir á algerum misskilningi byggðar. Ef hv. þm. hefur talið að ég eða einhver annar hafi beðið um slíkt svar, þá getur hann spurt vegamálastjóra um það, og ég veit hvaða svar hann fær við því, því að hann lét mér þetta svar í hendur og ég veit að það er gefið, eins og venja er, eftir bestu samvisku og byggt á rökum.

Hitt segir ekki svarið, að ákvarðanataka þurfi að bíða til 1980. Ef fyrir liggja við endurskoðun á heildarvegáætluninni á næsta ári betri athuganir á snjóalögum þar vestra heldur en vegamálastjóri telur nú liggja fyrir, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þeir, sem þá kunna að sitja hér á þingi, ákveði það. Hér er ekki verið að slá málinu á frest til ársins 1980, ef hv. þm. sýnist annað. Það hefur verið venja að lítið hefur verið tekið inn af nýjum verkefnum við endurskoðun á vegáætlun, eins og hv. 5. þm. Vestf. veit. Þess vegna hefur vegamálastjóri orðað þetta með fullkominni varfærni.

En lokaorð mín eru þau, að fyrst er að kynna sér málið fullkomlega, hvar best er að leggja vegi. Eftir það verður það ákvörðun Alþ. hvernig og hvenær það skuli gert.