29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Fsp, þessi er borin fram vegna þáltill. er fram kom á síðasta þingi um framkvæmd lagaákvæðis um ókeypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja með lágmarkstekjur. Í till. var vitnað í lög um breyt. á l. nr. 30 frá 1941, um fjarskipti, er samþykkt voru á Alþ. 16. maí 1975.

Þessi þáltill. kom til umr. undir lok þings í fyrra og var vísað til ríkisstj. Um hana urðu allmiklar umr., og rök fyrir því, að hún var ekki samþykkt, því að hún naut almenns stuðnings í þinginu, voru þau, að þetta mál þyrfti nákvæmari athugunar við. Það þótti einsýnt, að hægt mundi að misnota slíka heimild, og þess vegna lýsti hæstv. samgrh. því yfir, að málið yrði tekið til athugunar á vegum fjögurra rn.: fjmrn., samgrn., heilbrrn. og menntmrn., er fjalla skyldu um þessi mál og reyna að komast þar að niðurstöðu um heildarskipulag á þessum málum. jafnframt gaf hæstv. ráðh. það í skyn, að inn í þessa athugun skyldu koma einnig mál fatlaðra að því er varðar kaup á bifreiðum.

Það er kunnugt að öryrkjum hefur verið veittur stuðningur til bifreiðakaupa í formi niðarfellingar á aðflutningsgjöldum. Öryrkjar hafa nú á síðustu árum kvartað mjög yfir því, að þessi stuðningur hafi rýrnað mjög í báli verðbólgunnar, og fara fram á endurskoðun á þessum reglum og aukinn stuðning. Nú hljóðar fsp. einfaldlega um það, hvað þessi fjögurra rn. n. hafi gert og hvað liði störfum hennar og hvenær megi vænta niðurstöðu af þeim störfum.